Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Fá leyfi til að leita verðmæta í Minden

12.10.2017 - 23:01
Erlent · Innlent · Evrópa
Skipið Seabed Constructor. Mynd tekin úr varðskipinu Þór.
Skipið Seabed Constructor. Mynd tekin úr varðskipinu Þór. Mynd: Landhelgisgæslan
Umhverfisstofnun hefur veitt breska fyrirtækinu Advanced Marine Services leyfi til að leita að verðmætum í flaki þýska fraktskipsins Minden. Framkvæmdin gæti haft mengun í för með sér.

Flak þýska gufuskipsins Minden liggur á um 2.240 metra dýpi en áhöfn þess sökkti skipinu í september 1939. Advanced Marine Services leigði rannsóknarskipið Seabed Constructor til að leita að verðmætum í Minden og áhöfnin var byrjuð að bora inn í flakið þegar landhelgisgæslan stöðvaði aðgerðirnar í byrjun apríl. Farmurinn á að hafa verið eintóm trjákvoða en Bretarnir vilja komast yfir verðmæti, bæði gull og silfur, sem er talið vera í kassa í póstherbergi skipsins. Umhverfisstofnun hefur veitt Bretunum starfsleyfi sem gildir til fyrsta maí á næsta ári.

Agnar Bragi Bragason, lögfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir að Bretarnir geti hafið leit strax en þeir þurfi að láta vita með viku fyrirvara. „Við höfum ekki upplýsingar um það hvenær þeir ætla að byrja framkvæmdina, þeir geta semsagt farið í hana á þessu tímabili en starfsleyfið snýr að því að fara að skipsflaki sem er 120 sjómílur suðaustur af landinu og klippa í flakið og fjarlægja þaðan kassa sem þeir telja að geti innihaldið verðmæti,“ segir Agnar. 

Í starfsleyfinu er kveðið á um að verðmæti, sem kunni að finnast í flakinu, verði skráð og þeim upplýsingum komið til Umhverfisstofnunar. Agnar segir að leit af þessu tagi geti haft mengun í för með sér en starfsleyfið geri Umhverfisstofnun kleift að hafa eftirlit með framkvæmdinni. „Hins vegar teljum við að það séu ekki miklar líkur á mengun eða óafturkræfum áhrifum á umhverfið en hins vegar gefum við út þetta starfsleyfi og tilgangur starfsleyfa er líka að draga úr áhættu.“

Starfsleyfið gildir til 1. maí 2018. Upphaflega stóð til að það gilti út árið en Agnar segir að Bretarnir hafi viljað hafa það lengra svo þeir gætu haft kost á að komast að flakinu aftur næsta vor. „Leyfið tók gildi í dag og þeir þurfa að tilkynna með viku fyrirvara hvenær þeir ætla að hefja framkvæmdina. Þeir eru skyldir til að skrá niður tilteknar upplýsingar, allt sem þeir taka úr skipinu og fleira og eiga að skila okkur skýrslu um það í lokin,“ segir Agnar. 

Umhverfisstofnun óskaði athugasemda við umsóknina og eitt erindi barst frá þýska skipafélaginu Hapag-Lloyd sem sagðist vera eigandi flaksins. Þeir gerðu þó enga sérstaka kröfu um að fá að leita í því og hvorki mótbárur né athugasemdir bárust frá þýska félaginu við útgáfu starfsleyfisins.