Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fá jólatré úr einkagörðum

18.11.2019 - 13:30
Mynd með færslu
 Mynd: Íris Hauksdóttir
Jólatrén í Dalvíkurbyggð eru úr einkagörðum líkt og síðustu ár. Auglýst var eftir trjám á dögunum og létu viðbrögðin ekki á sér standa. Starfsmaður sveitarfélagsins telur að fleiri sveitarfélög ættu að taka þetta sér til fyrirmyndar.

„Vantar þig að losna við grenitré úr garðinum?“ er byrjunin á auglýsingu fá Dalvíkurbyggð. Auglýsingin kom ekki á óvart því sams konar auglýsing birtist árlega enda orðin hefð hjá bænum að nota tré sem íbúar vilja losna við sem jólatré.

Steinþór Björnsson, deildarstjóri eigna- og framkvæmdadeildar hjá Dalvíkurbyggð segir að viðbrögðin við auglýsingunni hafi verið góð. Talsvert sé af grenitrjám í bænum og strax verið boðin þau þrjú tré sem þarf og fleiri til. 

Góð lausn fyrir alla

Bæjarbúar taka vel í þetta framtak að sögn Steinþórs. Þeir séu ánægðir með það og og því verði þessi háttur hafður á til frambúðar. Með þessu sé verið að aðstoða fólk og kostnaður sveitarfélagsins sé óverulegur. Þá sé þetta umhverfisvænna en að fá tré annars staðar. Þetta sé góð lausn fyrir alla. Steinþór telur að fleiri sveitarfélög ættu að taka sér þetta til fyrirmyndar.

Að þessu sinni þurfti þrjú tré. Á næstu dögum verður þeim komið fyrir og þau skreytt. Eitt tré verður sett upp á Dalvík, annað á Árskógssandi og það þriðja á Hauganesi. Vel gekk að fella trén sem eru stór og stæðileg, það stærsta um átta metra hátt.

Fréttastofa fékk sendar nokkrar myndir af því þegar trén voru felld.

Mynd með færslu
Mynd með færslu
Mynd með færslu