Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fá heimildir til að takmarka bílaumferð

25.11.2019 - 19:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Sveitarfélög og Vegagerðin fá frá og með næstu áramótum heimild til að takmarka eða jafnvel banna tímabundið bílaumferð vegna loftmengunar. Með þessu er vonast til að hægt verði að draga úr svifryksmengun.

Svifryksmengun hefur farið 14 sinnum yfir heilsuverndarmörk það sem af er þessu ári og í þrígang hefur magn köfnunarefnisdíoxíðs, sem kemur frá útblástri bíla, mælst of hátt. Slík tilkynning barst nú síðast í dag, enda kjöraðstæður fyrir loftmengun, hægviðri og frost.

Ný umferðarlög færa sveitarfélögum heimildir

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa lengi kallað eftir heimildum til að setja tímabundnar takmarkanir á bílaumferð til að sporna við svifryksmengun. Sú heimild fékkst með samþykkt nýrra umferðarlaga á Alþingi í sumar og taka þau gildi í byrjun næsta árs.

Í lögunum er veitt heimild til að takmarka eða banna umferð um stundarsakir þegar mengun er yfir heilsufarsmörkum, eða hætta er talin á að svo verði.  Þessar takmarkanir geta meðal annars falist í breytingum á umferðarhraða á tilteknum götum eða takmörkun á umferð stærri ökutækja.

Takmarkanir eftir bílnúmerum

Þriðji möguleikinn er sá að takmarka almenna bílaumferð á ákveðnum svæðum og þar munu bílnúmerin ráða för. Til dæmis, að einn daginn fái bílar sem eru með bílnúmer sem enda á oddatölu ekki að aka á tilteknum svæðum á tilteknum tíma. Næsta dag gildi það svo sama um bílnúmer sem enda á sléttri tölu.

Upplýsingar um slíkar takmarkanir skulu þá gefnar með umferðarmerkjum og auglýsingum á opinberum vettvangi.