Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Fá fjármagn til að sinna rannsókn á Samherjaskjölum

18.11.2019 - 20:52
Mynd: RÚV / RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir það skýrt af hálfu ríkisstjórnarinnar að ef embætti Héraðssaksóknara, skattrannsóknastjóra og skattstjóra þurfi frekari fjárveitingar til að sinna rannsókn á Samherjamálinu af krafti þá fái þau meira fjármagn. „Þeim verður gert kleift að sinna þessum rannsóknum af kostgæfni. Algjörlega á hreinu.“

Rætt var við Katrínu í Kastljósi í kvöld. Hér má sjá allan þáttinn. 

Katrín segir að það hafi komið fram hjá fjármálaráðherra fyrir helgi að fjárveitingar hafi verið auknar til skattstjóra og skattrannsóknastjóra síðustu ár. 

Katrín segir að skoða þurfi hvort breyta þurfi lögum til þess að stór fyrirtæki, sem ekki eru skráð á markað, þurfi að skila sambærilegum upplýsingum og fyrirtæki sem skráð eru á markaði. Þetta verði rætt á fundi ríkisstjórnarinnar á morgun. Þetta snerti mörg ráðuneyti sem þurfi hvert fyrir sig að fara yfir hvað þurfi að gera betur. Margt hafi verið gert í þessum málum frá hruni. 

Vinna stjórnvalda felist í því að fara yfir laga- og regluverkið og hvort þar sé eitthvað sem þurfi að flýta. Einnig þurfi að huga að umfjöllun um málið erlendis og áhrifahennar. „Ég hef í raun og veru óskað eftir því að við séum öll í viðbragðsstöðu annars vegar með að skoða úrbætur og hins vegar möguleg viðbrögð.“

Samtök atvinnulífsins og kostnaður 

Katrín segir að Samtök atvinnulífsins hafi í sínum umsögnum um frumvarp hennar um vernd uppljóstrara og frumvarp sem nú sé í samráðsgáttinni og er til varnar hagsmunaárekstrum í stjórnsýslunni, talað um kostnaðinn. 

„Mér finnst það ekki gott að sjá að í umsögnum Samtaka atvinnulífsins þá er fyrst og fremst talað um kostnaðinn sem af þessu hljótist, að þetta jafnvel rýri samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Ég segi það: hver er kostnaðurinn af því að auka gagnsæi samanborið við kostnaðinn af svona máli?“ Spyr Katrín og vísar í Samherjamálið.  „Ég held að hann hljóti að vera hverfandi. Hver eru áhrifin á samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs við það að auka gagnsæi miðað við áhrifin af svona máli? Ég trúi ekki öðru en að það hljóti að vera afstaða Samtaka íslensks atvinnulífs að vilja taka þátt í því með okkur stjórnvöldum að auka hér gagnsæi og tryggja það að við séum að byrgja brunninn áður en börnin detta ofan í hann.“

Katrín segir að Samtök atvinnulífsins hafi í sinni umsögn um vernd uppljóstrara sagst þurfa 15 ára umhugsunartíma, eins og hafi þurft í Bretlandi. „En ég held að við áttum okkur öll á því að gagnsæi, aukið gagnsæi og styrkari varnir gegn spillingu er ekki bara eitthvað hagsmunamál okkar stjórnmálamanna. Það er hagsmunamál alls almennings í landinu, þar með talið atvinnulífsins.“