Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Fá ekki fjármuni fyrir salernisaðstöðu

29.05.2016 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Vegagerðin hefur uppi hugmyndir um að koma upp bráðabirgðasalernisaðstöðu við áningarstaði á þjóðvegum landsins. Ekki hefur fengist fjármagn til að fara af stað með þetta. Nýleg skýrsla leiðir í ljós að þörfin fyrir slíka aðstöðu er mjög brýn.

Í fyrra voru reglulega fréttir um að ferðamenn gengju örna sinna víða úti í náttúrunni, með tilheyrandi sóðaskap. Þar er helst ástæðan skortur á salernisaðstöðu. Í kjölfarið fór af stað mikil umræða um þennan hluta af innviðum í ferðaþjónustunni. Í síðustu viku birtist greining frá verkfræðistofunni Eflu um salernisaðstöðu þar sem kom fram að staðan væri sérstaklega slæm á níu ferðamannastöðum, þar á meðal Jökulsárlóni og Seljalandsfossi.

Vegagerðin hefur verið með hugmyndir um að koma upp bráðabirgðasalernisaðstöðu, líkt og þekkist á útihátíðum og á menningarnótt við áfangastaði sína, þar sem hægt er að borða nesti og njóta útsýnisins. „Þessir staðir voru nokkuð víða farnir að liggja undir miklu álagi frá ferðamönnum sem nota þá sem snyrtistaði af því að það er skortur á snyrtingum á þeirra ferðalögum,“ segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.

Því var ákveðið að skoða hvort hægt væri að sameina þetta rekstri þessara staða. Jákvætt hafi verið tekið í að vinna að þessu, fáist til þess fjármagn. „Við höfum ekki fengið nein svör við því hvort sá áhugi er fyrir hendi eða fjármagni verið veitt í slíkt.“

Hreinn telur brýna þörf fyrir slíka aðstöðu á 50-60 stöðum. „Og það eru 2-3 staðir á landinum þar sem landeigendur krefjast þess hreinlega að við lokum þeim og tö0kuvm niður aðstöðuna vegna þess að sóðaskapurinn er slíkur að það sé ekki búandi við það.“

Hreinn segir umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis hafa tekið vel í málið, enda verða þær úrbætur sem stjórnstöð ferðamála hefur lagt til í þessum efnum ekki gerðar í sumar. „Það voru allir sem nefndu það að einhverjum er orðið mál fyrir sumarið og það dugi ekki að bíða í 2-3 ár eftir því að menn komist á klósettið sem eru að koma til okkar núna þetta árið.“

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV