Fá ekki aðra vistun fyrir dreng sem gleymdist

02.10.2019 - 19:01
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Sex ára einhverfur drengur, sem gleymdist í rútu í margar klukkustundir vegna mistaka starfsfólks á frístundaheimili á vegum Reykjavíkurborgar í síðasta mánuði, fær ekki aðra frístundavist hjá borginni. Móðir drengsins hætti að vinna til að sinna honum eftir skóla, en foreldrarnir segjast ekki treysta starfsfólki frístundaheimilisins eftir þetta.

Sat einn í rútunni í meira en þrjá tíma

Mikolaj, sem er mikið einhverfur og tjáir sig lítið sem ekkert, byrjaði í fyrsta bekk sérskólans Klettaskóla og á frístundaheimilinu Guluhlíð í haust. Einungis fjórum dögum síðar gleymdist hann í rútu sem ferjar börnin milli Klettaskóla og Guluhlíðar, og sat þar læstur inni í meira en þrjá tíma. 

Eftir að Mikolaj gleymdist í rútunni var verkferlum við móttöku barna í Guluhlíð breytt. Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg hefur það skilað árangri og atvikið ekki endurtekið sig.

Hætti að vinna til að sinna Mikolaj eftir skóla

Þrátt fyrir breytt verklag treystu foreldrarnir, Sylwia og Michal, sér ekki til að senda Mikolaj í Guluhlíð aftur. Samkvæmt svari frá Reykjavíkurborg þurfa börn að sækja frístundaheimili við sinn grunnskóla. Þar sem drengurinn er í Klettaskóla, stendur fjölskyldunni ekkert annað frístundaheimili til boða en Gulahlíð. Foreldrarnir segja að borgin hafi ekkert komið til móts við þau varðandi vistun fyrir Mikolaj, og því hafi Sylwia sagt starfi sínu lausu til að geta sinnt honum eftir skóla. 

Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, segir að það geti verið erfitt að byggja upp traust eftir að það er brostið. Hún segir það ótækt að ekki sé hægt að koma til móts við fjölskylduna. „Það er allt of algengt að foreldrar fatlaðra barna þurfi að hætta að vinna til að sinna þeim af því að kerfið er of ósveigjanlegt. Oftast er það konan sem fer af vinnumarkaði, líklega vegna þess að það er algengara að þær séu í lægra launuðum störfum,“ segir Bryndís. Hún segir þetta geta haft þau áhrif að þessar konur fái lítinn lífeyri, einangrist eða jafnvel verði öryrkjar eftir að strita við að sinna fötluðu barni sínu.

„En auðvitað fyrst og fremst snýst þetta um rétt barnsins til fullrar þátttöku í samfélaginu, og að það sé tekið tillit til fötlunarinnar og veitt þjónusta í samræmi við hana, þar sem hann býr, sem er hverfið hans.“

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi