Fá ekki að breyta verslunum í íbúðir

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Eigendur fá ekki leyfi til að breyta verslunarhúsnæði sínu á Rauðarárstíg í íbúðir. Þau segja að rekstur hafi ekki gengið í húsunum síðustu tíu ár og nú stefni í að þau standi auð á ný.

Rekstur hefur ekki gengið í tíu ár

Fjöldi ástæða liggi að baki því að ekki gangi rekstur í húsunum. Til dæmis séu íbúðarhúsnæði eða stofnanir allt í kring, en engar aðrar verslanir. Þá sé ekki hægt að útbúa aðgengi fyrir fatlaða að húsnæðinu.

Auk þess séu þröngar skorður settar fyrir notkun húsnæðisins, svo sem vegna hönnunar og aldurs húsanna, til dæmis hvað varði losun sorps, flutningsleiðum að lager, breytingum á húsnæði og lögnum. Það geri það að verkum að ekki sé hægt að fá leyfi borgarinnar fyrir flestum rekstri. Eina lausnin sé að breyta húsnæðinu í íbúðir. 

Fá ekki að breyta húsnæðinu

Beiðni eigendanna var hafnað í dag á fundi Skipulags- og samgönguráðs borgarinnar. Aðalskipulag Reykjavíkur kveði á um að ekki megi breyta atvinnu- og þjónustuhúsnæði á jarðhæðum í íbúðir.

Í bókun frá fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og áheyrnarfulltrúa Miðflokksins og Flokks fólksins segir að borgarfulltrúarnir ítreki þá skoðun sína að þörf sé á úttekt á framboði og eftirspurn þjónustu- og verslunarrýma í borginni. „Á sama tíma og heldur dregur saman í rekstri er framboð rýma á jarðhæð að aukast hratt. Þörf er fyrir talningu á rýmum á jarðhæð og endurmeta núverandi stefnu með hliðsjón af breyttum aðstæðum.“

 

Katrín Ásmundsdóttir
vefritstjórn
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi