Fá 386 þúsund krónur vegna PIP-brjóstapúða

21.09.2017 - 21:07
Meirihluti þeirra 200 íslensku kvenna sem stefndu eftirlitsfyrirtækinu TUV Rheinland vegna falsaðra PIP brjóstapúða, fékk í dag greitt um 3.000 evrur sem þeim voru dæmdar í undirrétti í Frakklandi í janúar sem samsvarar um 386 þúsund krónum. Málinu er þó ekki lokið og því óvíst um endanlega bótafjárhæð. Íslenska ríkið hafnaði því að taka þátt í hópmálsókninni.

PIP púðar, sem síðar kom í ljós að innihéldu iðnaðarsilíkon og láku auðveldlega, voru græddir í 400 íslenskar konur og púðarnir höfðu lekið hjá ríflega helmingi kvennanna. 

Saga Ýrr Jónsdóttir, lögmaður kvennanna hér á Íslandi, var gestur Kastljóss í kvöld. „Þetta er dæmt í janúar að TUV skuli greiða þessar 3.000 evrur auk þess sem fyrirtækið var dæmt skaðabótaskylt.  Fyrirtækið afrýjaði þeirri niðurstöðu strax en niðurstaðan var staðfest og í dag bárust fyrstu greiðslur,“ segir Saga Ýrr sem er núna að reyna að hafa upp á sumum þeirra kvenna sem eiga inni þessa upphæð.   Hún telur að endanlegrar niðurstöðu í þessum málum sé þó ekki að vænta fyrr en eftir tvö ár.

Saga segir að í sumum tilfellum hafi konur farið mjög illa út úr leku brjóstpúðunum, þær hafi verið komnar með silíkon víðs vegar um líkamann, jafnvel í líffæri og eitla. „Sumar þessara kvenna hafa hreinlega orðið óvinnufærar.“

Hún segir að það hefði verið margfalt dýrara að reka hópmálsókn gegn fyrirtækinu hér á landi og fara þannig með 204 konur fyrir dóm „Bæði eru þetta mjög ólík tilfelli og það var líka miklu einfaldara að reka þetta í Frakklandi. Og þess vegna var enginn spurning þegar okkur bauðst að taka þátt í þessari hópmálsókn.“

Íslenska ríkið greiddi tæplega 100 milljónir króna í kostnað við að fjarlægja gölluðu brjóstapúðana og Saga Ýrr sagðist hafa boðið íslenska ríkinu að taka þátt í hópmálsókninni endurgjaldslaust.  Hún hafi meðal annars komið á fundi í velferðarráðuneytinu með franska lögmanninum sem sá um hópmálsóknina gegn TUV. 

Ráðuneytið hafi í fyrstu verið áhugasamt en síðan hafi sú ákvörðun verið tekin að taka ekki þátt í málsókninni og það án þess að hitta franska lögmanninn.„Sú kona sem færði mér fréttirnar brá í raun alveg jafn mikið og mér.“

Saga segir að franski lögmaðurinn hafi verið mjög hissa á þessari ákvörðun íslenskra stjórnvalda enda hafi hann talið að íslenska ríkið gæti fengið skaðabætur. „Svörin voru allavega þessi - að íslenska ríkið ætlaði ekki að leita réttar síns.“

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi