Fá 135% meira fyrir að dæma hjá körlunum en konunum

Mynd með færslu
 Mynd: Thomasz Kolodziejski - RÚV

Fá 135% meira fyrir að dæma hjá körlunum en konunum

06.02.2020 - 12:56
Greiðsla fyrir dómgæslu í leik í efstu deild karla í knattspyrnu er 135 prósentum hærri en fyrir leik í efstu deild kvenna. Framkvæmdastjóri KSÍ segir ekki útséð með það hvort munurinn verði minnkaður að einhverju leyti á komandi leiktíð.

Í Morgunblaðiðinu í dag var það tekið saman hversu mikið væri greitt fyrir leiki eftir deildum í fótbolta, handbolta og körfubolta. Athygli vekur í greininni að í handboltanum og körfuboltanum er jafnt greitt fyrir karlaleiki og kvennaleiki sem spilaðir eru í sömu deild eða keppni. Hins vegar er himinn og haf milli upphæðanna sem greiddar eru fyrir dómgæslu í leikjum kvenna og karla í efstu deild og bikarkeppnum í fótbolta.

Árið 2019 voru greiddar 37.600 krónur fyrir dómgæslu í leik í efstu deild karla en 16 þúsund fyrir kvennaleik í efstu deild. Þetta er um 135 prósenta munur. Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, segir greitt eftir samningi KSÍ við félag deildardómara, en nú er unnið að samningi fyrir þetta ár.

„Þessi flokkaskipting snertir meira en þessar tvær deildir og er byggð upp á erlendri fyrirmynd þetta er gert á sambærilegan hátt og hjá nágrannaþjóðum og UEFA og FIFA,“  segir Klara spurð um ástæðuna fyrir þessum mikla mun. Samkvæmt fyrirmyndinni sé tekið tillit til þeirra krafna sem eru gerðar og búnar til ákveðnar töflur t.d. varðandi þrekpróf, hversu mikið leikmenn hlaupi og þess háttar. 

En hefur KSÍ tekið einhver skref í að reyna að jafna þennan mun?

„Þessi munur hefur dregist saman, þessu var breytt fyrir síðasta samning ef ég man rétt, sem rann út um síðustu áramót, þá var kvennadeildinni breytt og það er ekkert útséð með það hvort það verði núna í næsta samningi," segir Klara. Hún segir alltaf gæta einhverrar óánægju með dómaramál og öll félög vilji fá þá dómara sem taldir eru bestir. 

Fjallað verður nánar um málið í íþróttafréttum í sjónvarpinu í kvöld.