Eyþór Björnsson ráðinn framkvæmdastjóri SSNE

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Stjórn Samtaka sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra (SSNE) hefur ráðið Eyþór Björnsson, forstjóra Fiskistofu, í stöðu framkvæmdastjóra samtakanna. SSNE varð til fyrr í vetur, við samruna Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga.

Eyþór er með B.Sc. gráðu í sjávarútvegsfræði frá Háskólanum á Akureyri, MBA frá Háskóla Íslands og diplomu í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla. Einnig hefur hann lokið diplomanámi í alþjóðlegum hafrétti frá Rhodes Academy. Hann hefur starfað sem forstjóri Fiskistofu frá árinu 2010, en gengdi þar á undan stöðu sviðsstjóra veiðieftirlitssviðs.

Hann segir það leggjast vel í sig að taka við þessu nýja starfi hjá SSNE. „Mér finnst þetta mjög spennandi starf. Það heyra mikilvæg verkefni undir landshlutasamtökin og það er skemmtilegt að fá tækifæri til að vinna með hagsmuni nærumhverfisins á Norðausturlandi.“

Hann segist eiga eftir að ganga formlega frá starfslokum hjá Fiskistofu, en vonast til að það geti orðið sem fyrst. „Ég er búinn að vera í fjórtán ár á Fiskistofustofu, það er ágætur tími.“