Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eykur ráðstöfunartekjur heimila

26.06.2019 - 19:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stýrivaxtalækkun Seðlabankans eykur ráðstöfunartekjur heimila og hjálpar atvinnurekendum að mæta hækkandi launakostnaði að mati Samtaka atvinnulífsins. Þau fagna því að peningastefnunefnd Seðlabankans lækkaði vexti í dag. 

Stýrivextir lækka um fjórðung úr prósentustigi, samkvæmt ákvörðun peningastefnunefndar. Þeir voru 4,0 prósent en eru nú 3,75 prósent. Leita þarf aftur til ársins 2011 til þess að finna jafn lága vexti. 

Fyrir mánuði birti Seðlabankinn þjóðhagsspá og spáði mun dekkri horfum en áður eða núll komma fjögurra prósenta samdrætti. Horfurnar eru óbreyttar og ekki er gert ráð fyrir að lát verði á samdrætti fyrr en á næsta ári. Samdrátturinn eigi eftir að reyna á heimili og fyrirtæki og meðal annars birtast í auknu atvinnuleysi. 

Gert er ráð fyrir að samdráttur í ferðaþjónustu verði meiri en búist var við en hins vegar hafi einkaneysla á fyrstu þremur mánuðum ársins líklega verið meiri en gert var ráð fyrir. 

Verðbólga er 3,3 prósent og telur bankinn að hún hafi náð hámarki. Veikist krónan gæti þetta breyst.

Stýrivaxtalækkun mikilvæg

Samtök atvinnulífsins fagna lækkun stýrivaxta og segir hana mikilvæga gegn efnahagssamdrætti. Með lægri vöxtum aukist ráðstöfunartekjur heimila og bæði fjárfesting og nýsköpun fái örvun. Þá skapi lægri vextir svigrúm hjá fyrirtækjum til að mæta hækkandi launakostnaði vegna Lífskjarasamningsins.

„Vaxtalækkun Seðlabankans er mikilvægt innlegg í þá vegferð að styðja við heimili og fyrirtæki í landinu og styrkja þannig stoðir efnahagslífsins og bæta lífskjör,“ segir í tilkynningu á vef Samtaka atvinnulífsins.

Íslandsbanki brást við stýrivaxtalækkuninni með því að lækka óverðtryggða vexti á húsnæðislánum og bílalánum. Stýrivaxtalækkunin er í samræmi við væntingar greiningadeildar Arion banka. Hún telur peningastefnunefnd muni lækka vexti meira þegar líður á árið. Og hagfræðideild Landsbankans bendir á að þjónusta hótela og gistiheimila hafi lækkað í verði um rúm tólf prósent á síðustu tólf mánuðum. 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV