Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Eygló: Þetta er það sem við lofuðum

25.06.2013 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd:
Eygló Harðardóttir, félags-og húsnæðismálaráðherra, segir að nýtt frumvarp sem á að afnema skerðingar á greiðslum til lífeyrisþega, sé eitthvað sem þessum hópi hafi verið lofað. Hún segir mjög mikilvægt að taka þetta fyrsta skref núna á sumarþingi.

Félagsmálaráðherra boðaði til blaðamannafundar vegna málsins í dag. Frumvarpið er í takt við yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að draga til baka skerðingar sem aldraðir og öryrkjar urðu fyrir stuttu eftir efnahagshrun.

Ráðherrann segir frumvarpið hafa áhrif á stóran hóp lífeyrisþega, greiðslur til allt að sjö þúsund lífeyrisþega hækka, frítekjumark eldri borgara mun allt að því þrefaldast og lífeyristekjur munu síðan ekki lengur skerða grunnlífeyri.

Tryggingastofnun fær einnig auknar eftirlitsheimildir og frekari aðgang að upplýsingum verði frumvarpið að lögum. Þannig á að reyna að draga úr bótasvikum og tryggja réttari greiðslur lífeyris. Eygló segir framlög ríkisins til almannatrygginga aukast um 1,6 milljarða króna á ári verði frumvarpið samþykkt en því er ætlað að taka gildi um næstu mánaðamót.