Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Eygló: Sárt að vera sökuð um svik

26.09.2016 - 09:19
Mynd:  / 
Eygló Harðardóttir, ritari og ráðherra Framsóknarflokksins, segist ekki standa í einhverju baktjaldamakki eins og samflokksmaður hennar Gunnar Bragi Sveinsson hafi gefið í skyn. Hún segist hafa skynjað það í samtölum sínum við grasrótina að kosningabarátta flokksins myndi snúast um einn mann en ekki árangur ríkisstjórnarinnar.

Ólgan í Framsóknarflokknum kom upp á yfirborðið á föstudag þegar að Sigurður Ingi Jóhannsson, varaformaður og forsætisráðherra, lýsti því yfir að hann ætlaði að bjóða sig fram gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni á flokksþingi flokksins um helgina.  

Síðan þá hafa þung orð verið látin falla hjá þingmönnum og ráðherrum flokksins - Sigmundur sagði Sigurð vera að ganga á bak orða sinna og Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegsráðherra, sakaði Eygló og Sigurð Inga um baktjaldamakk gegn formanninum. 

Eygló var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun og þar sagði hún sárt að heyra þessar ásakanir Gunnars Braga. „Ég vona að hann og aðrir heyri það að ég stend ekki fyrir baktjaldamakki,“ segir Eygló.

Hún kveðst hafa orðið þess áskynja, bæði með ályktunum um að halda ætti flokksþing og í samtölum sínum við grasrótina að formanninum hafi ekki tekist að endurvinna það traust sem glataðist með Wintris-málinu. Flokksmenn hafi haft áhyggjur af því að kosningabaráttan myndi eingöngu snúast um einn mann en ekki verk ríkisstjórnarinnar.

Eygló segir að andrúmsloftið inni á þingi hafi breyst eftir umrótið í apríl. Eftir að breytingar voru gerðar á stjórnarsamstarfinu þar sem Sigurður Ingi tók við sem forsætisráðherra hafi gengið betur að vinna að stórum og mikilvægum málum.

Eygló hefur sjálf lýst því yfir að hún gefi kost á sér sem varaformaður að því gefnu að Sigmundur Davíð verði ekki kosinn formaður. Hún segist hafa talið það mikilvægt að flokksmenn vissu hver sín afstaða væri - nauðsynlegt væri að gera breytingar.  

Aðspurð hvað Sigmundur Davíð hefði þurft að gera til að endurvinna sér inn traust hennar segir Eygló það spurningu um samskipti - að geta talað um og viðurkennt að það sé vandi. „Það er vandi þegar menn taka einhliða ákvarðanir og það er vandi þegar traust fer, þegar til staðar var mikið traust.“ Þá sé það vandi að þegar maður vilji eiga samskipti og tala um vandann séu viðbrögðin þau að maður sé ásakaður um eitthvað.