Eyðimerkurganga Íslands í stóru hlutverki

epa06442918 US actor Will Ferrell greets the crowd as he walks on the court following the men's first round match between Roger Federer of Switzerland and Aljaz Bedene of Slovenia at the Australian Open Grand Slam tennis tournament in Melbourne, Australia, 16 January 2018.  EPA-EFE/JOE CASTRO AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
 Mynd: EPA

Eyðimerkurganga Íslands í stóru hlutverki

02.08.2019 - 13:32

Höfundar

Ísland virðist vera í aðalhlutverki í nýjustu kvikmynd bandaríska leikarans Will Ferrell um Eurovision. Bæði hann og Rachel McAdams leika Íslendinga og þegar tökur hefjast í Lundúnum eftir helgi verður sögusviðið keppnishöll í Reykavík, samkvæmt upplýsingum fréttastofu.

Myndin er framleidd fyrir streymisveituna Netflix. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu fjallar Eurovision-myndin meðal annars um eyðimerkurgöngu Íslands í keppninni sem á að hafa staðið í rúma fjóra áratugi.  

Mögulega rætist þessi langþráði draumur margra Íslendinga í myndinni en raunveruleg eyðimerkurganga hefur staðið í 33 ár, eða frá því að Icy-tríóið tók fyrst þátt með Gleðibankann árið 1986.

Samkvæmt heimildum fréttastofu eiga nöfn á sumum persónum augljóslega að vera íslensk en eru þó hálfgert bull. Þá þykja búningarnir, líkt og í keppninni sjálfri, býsna skrautlegir.

Ferrell er mikill aðdáandi keppninnar og tók meðal annars upp einhver atriði þegar hún var haldin í Ísrael í maí. Hann er giftur hinni sænsku Vivecu Paulin sem hefur meðal annars unnið fyrir forkeppnina í Svíþjóð.

Visir.is greindi frá því í vikunni að hópur Íslendinga léki í myndinni, meðal annars Ólafur Darri Ólafsson, Björn Hlynur Haraldsson, Nína Dögg Filippusdóttir og Jóhannes Haukur Jóhannesson. Þá sagði mbl.is frá því að einhverjar tökur færu fram á Húsavík í haust sem varð til þess að einhverjir leiddu að því líkum að Birgitta Haukdal væri mögulega ein af fyrirmyndunum. 

Íslenska framleiðslufyrirtækið True North fer fyrir tökunum hér á landi en þar vildi enginn tjá sig um málið. Þetta er önnur mynd Netflix sem verður í tökum á Íslandi í haust. Hin er Good Morning, Midnight sem George Clooney leikstýrir og leikur aðalhlutverkið í. 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Will Ferrell leikur Íslending

Kvikmyndir

Will Ferrell leikur í grínmynd um Eurovision

Tónlist

Will Ferrell er mjög áhugasamur um Eurovision