Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Evrópukosningar og pólitísk veiklun flokka

27.05.2019 - 19:01
Mynd: EPA-EFE / EPA
Kosningarnar, sem áttu ekki að vera, voru þó haldnar. Kjósendur, einkum ungt fólk í Bretlandi hafnar báðum stóru flokkunum í Evrópukosningunum Brexitflokkur Nigel Farage sópar til sín fylgi Ukip-flokksins, sem Farage yfirgaf. Bæði frjálslyndir demókratar og græningjar, andsnúnir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, stórjuku fylgi sitt. Kjörsókn jókst óvænt, ekki síst vegna áhuga ungra kjósenda. Allt þetta mun óhjákvæmilega hafa áhrif á hver verður næsti leiðtogi Íhaldsflokksins og pó

Verstu kosningaúrslit Íhaldsflokksins 

Verstu kosningaúrslit Íhaldsflokksins nokkru sinni. Þannig er útkoman úr Evrópuþingkosningunum sem Theresa May, bráðum fyrrum forsætisráðherra, vildi ekki halda. Flokkurinn hvorki sá stærsti né næst stærsti heldur sá fimmti, með aðeins 9 prósenta fylgi, 15 prósentustigum minna en síðast. Vissulega, þetta eru ekki þingkosningar, og leiðtoginn á útleið en svo hræmuleg útkoma skekur þó flokksforystuna.

May kennt um ófarirnar

Þingmenn flokksins, hvort sem þeir eru með eða á móti Brexit, eru flestir á því að skýringin sé að May mistókst að koma Bretum úr Evrópusambandinu. Fyrri kjósendur flokksins hafi nú kosið Brexitflokkinn. Það skiptir ekki alveg jafn miklu máli nú og fyrir helgi að Theresa May tísti í morgun að úrslitin væru mikil vonbrigði en sagðist vona að þingið herti sig og semdi um Brexit.

Verkamannaflokknum gekk betur – en slakt eftir 9 ár í stjórnarandstöðu

Verkamannaflokknum farnaðist heldur betur, með 14 prósent atkvæða en afspyrnu slakt eftir níu ár í stjórnarandstöðu. Missti forystuna í London, beið afhroð í Skotlandi. Jeremy Corbyn leiðtogi flokksins er nú gagnrýndur í eigin ranni fyrir það sem kallast uppbyggileg óklárheit, að reyna að tjónka við bæði þá sem eru með og á móti Brexit.

Brexit-stefnan átakamál í uppsiglingu

Strax og glitti í úrslitin var Emily Thornberry utanríkisráðherraefni flokksins ekkert að skafa af því. Nú þegar stefndi í nýjan leiðtoga Íhaldsflokksins sem styddi vísast útgöngu án samnings yrði stefna hennar flokks að vera skýr: slík útganga væri algjör skelfing, nær að berjast fyrir annarri þjóðaratkvæðagreiðslu og þá áframhaldandi ESB-aðild.

Jeremy Corbyn endurtók hins vegar í morgun fyrri orð um að það yrði hlustað á alla í flokknum. Þarna stefnir ljóslega í uppgjör með tíð og tíma.

Frjálslyndir demókratar rækilega komnir á pólitíska kortið

Það var táknrænt fyrir uppsveiflu Frjálslynda demókrataflokksins að sigra í kjördæmum leiðtoga stóru flokkanna tveggja. Og miklu víðar, fékk 20 prósent atkvæða. Ed Vazey fyrrum ráðherra flokksins sagði þetta í fyrsta skipti sem flokkurinn hefði betur en báðir stóru flokkarnir í almennum kosningum. Í forystu gegn útgöngu væri flokkurinn nú tilbúinn að halda þeirri baráttu áfram.

And-Brexitsinnar í veikburða meirihluta

Græningjum gekk vel, náðu 12 prósentum. Í viðbót við umhverfismál styðja þeir áframhaldandi ESB-aðild Breta. Ýmsir hnykkja á því að þó Brexitflokkur Nigel Farage sé í fyrsta sæti, með rúmlega 30 prósent, þá sýni samanlögð útkoma and-Brexitflokka að fleiri hafni en styðji Brexit.

Það má deila um tölurnar en úrslitin sýna það sem skoðanakannanir hafa sýnt undanfarið: Brexit-sinnar hafa ekki lengur yfirhöndina. En hvort úr verður önnur þjóðaratkvæðagreiðsla og þá hvenær er annað mál. Þó mun fleiri þingmenn en áður styðji nú aðra atkvæðagreiðslu er tæplega meirihluti fyrir henni í þinginu.

Farage hafnar annarri þjóðaratkvæðagreiðslu

Sigurvegurinn Farage er algjörlega andsnúinn annarri atkvæðagreiðslu. Sigurinn sé því að þakka að ekkert hefur enn orðið úr Brexit og nú vill Farage vera með í Brexit-ráðum. Verði útganga ekki að veruleika fyrir 31. október, muni kosningaúrslitin nú verða endurtekin í næstu þingkosningum og flokkurinn alveg tilbúinn.

Andstætt vonum Farage hefur hingað til ekki verið mikil fylgni milli Evrópuþingkosninga og þingkosninga. Ukip-flokknum varð þannig lítið úr bestu Evrópuþingkosningaúrslitum sínum nokkru sinni 2014, þá undir forystu Farage.

Næsti leiðtogi Íhaldsflokksins og harðlínu Brexit

Í komandi leiðtogakjöri Íhaldsflokksins eru úrslit kosninganna einn áhrifavaldurinn. Óbreyttir flokksmenn styðja upp til hópa Brexit. Ráði þeir úrslitum gæti næsti leiðtogi orðið harður Brexit-sinni sem freistaði útgöngu án samnings. Nokkrir íhaldsþingmenn hafa þegar sagt að þeir myndu styðja vantraust í þinginu á eigin stjórn sem reyndi slíkt.

Báðir gömlu stóru flokkarnir hræðast kosningar

Ef Brexit-þrautin leysist ekki í haust gætu vetrarkosningar reynst óumflýjanlegar. Heldur áhyggjusamleg tilhugsun fyrir leiðtoga gömlu fyrrum stóru flokkanna tveggja. Og enn áhyggjusamlegra að úrslitin nú sýna að ungir kjósendur virðast áberandi áhugasamir um stjórnmál og áberandi afhuga gömlu flokkunum.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir