Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Evrópski fjárfestingabankinn breytir um kúrs

epa04879854 A small plant growing in the dried-out river bed of the Elbe River near Pirna, Germany, 11 August 2015. Water levels in the Elbe River are at their lowest in 51 years.  EPA/ARNO BURGI
 Mynd: EPA - DPA
Evrópski fjárfestingabankinn hyggst hætta að fjármagna verkefni sem tengjast vinnslu jarðefnaeldsneytis fyrir lok næsta árs. Þetta gerir bankinn með vísan til Parísarsamkomulagsins og hagsmuna bankans til framtíðar. Frá þessu er greint í breska blaðinu Guardian en blaðið hefur drög að áætlun bankans þessa efnis undir höndum.

Evrópski fjárfestingabankinn hefur undanfarin ár fjárfest í olíu, kolum og gasi fyrir milljarða evra. Í fyrra námu fjárfestingar hans í þessum geira tæplega 325 milljörðum íslenskra króna.

Djúpstæð umbylting

Umbyltingin verður djúpstæð og það þarf að sýna samstöðu til að tryggja að stutt verði við þá hópa og svæði sem standa höllum fæti, segir í skýrslu bankans. Bankinn sem er í eigu aðildarríkja Evrópusambandsins, hyggst koma á fót sérstökum orkuskiptasjóði sem á að styrkja verkefni sem auðvelda ríkjum sambandsins að ná orkuskiptamarkmiðum sínum. 

Aukinn þrýstingur frá umhverfissamtökum

Undanfarið hafa umhverfissamtök í auknum mæli þrýst á að bankar og fjárfestar rjúfi tengsl sín við kola-, gas- og olíuiðnaðinn. Í júní skrifuðu áttatíu félagasamtök og fræðimenn opið bréf til Evrópska fjárfestingabankans og hvöttu hann til að hætta að fjárfesta í jarðefnaeldsneytisverkefnum. Bresk stjórnvöld hafa líka sætt gagnrýni fyrir að ellefu falda stuðning sinn við jarðefniseldsneytisverkefni, í gegnum umboðsskrifstofuna UK Export Finance, og draga úr fjárfestingum í endurnýjanlegum orkugjöfum. 

Hvetja aðra til að fylgja á eftir

Alex Doukas, talsmaður umhverfissamtakanna Oil Change International, segir í samtali við Guardian að með þessu hafi stærsta fjölþjóðlega lánastofnun heims tekið gríðarstórt skref fram á við. Ríki Evrópusambandsins þurfi að styðja við metnaðarfull áfrm bankans og önnur fjármálafyrirtæki ættu að taka hann sér til fyrirmyndar. Colin Roche, talsmaður félagasamtakanna Vina Jarðar í Evrópu, Friends of the Earth Europe, sagði áform bankans vera ljós í myrkrinu. 

Samtökin hvetja stjórn bankans til þess að styðja stefnudrögin og tryggja að það verði engar glufur sem geri bankanum kleift að halda áfram að fjárfesta í jarðefnaeldsneytisverkefnum. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV