Eurovision aflýst – Daði Freyr vonsvikinn

Mynd með færslu
 Mynd: Baldur Kristjáns - Baldur

Eurovision aflýst – Daði Freyr vonsvikinn

18.03.2020 - 15:21

Höfundar

Daði Freyr segist vera vonsvikinn yfir því að Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva hafi verið aflýst, en hann hlakki til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér.

Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva sem átti að fara fram í maí í Rotterdam hefur verið aflýst vegna COVID-19 faraldursins.

Daði Freyr, fulltrúi Íslands í keppninni, birti viðbrögð við tíðindunum á Twitter. Þar segist hann hafa hlakkað mjög til að koma fram ásamt Gagnamagninu í Rotterdam. „Stuðningurinn hefur verið yfirþyrmandi og fjöldi nýrra tækifæra hefur skapast. Ég hlakka til að sjá hvað framtíðin ber í skauti sér. Kærar þakkir!“

Jon Ola Sand, framkvæmdastjóri keppninnar, hefur birt tilkynningu á Twitter sömuleiðis. „Okkur þykir mjög leitt að þurfa að tilkynna að Eurovision söngvakeppninni árið 2020 í Rotterdam hafi verið aflýst.“ 

Skipuleggjendur hafi fundað að undanförnu og reynt að finna lausnir en takmarkanir sem ríki Evrópu hafi sett á til að koma í veg fyrir frekari útbreiðslu COVID-19 geri það að verkum að ekki sé mögulegt að halda keppnina. 

Þar kemur fram að samband evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, hyggist halda samræðum áfram til að kanna möguleikann á því að keppnin fari fram í Rotterdam í Hollandi árið 2021.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Frestun Eurovison mikil vonbrigði en tónlistin lifir

Tónlist

Eurovision aflýst vegna COVID-19