Esau látinn laus í Namibíu

24.11.2019 - 14:39
Mynd með færslu
 Mynd: Stefán Drengsson - RÚV
Bernhard Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, hefur verið sleppt úr haldi. Hann var handtekinn í gær. Í dómsúrskurði, sem fréttastofa hefur undir höndum, kemur fram að samkomulag hafi náðst utan réttarsalarins um að gera handtökuskipun gegn honum ógilda og leysa hann úr haldi.

Paulus Noa, framkvæmdastjóri spillingarlögreglunnar í Namibíu, segir að umsókn um handtökuskipun hafi ekki uppfyllt skilyrði og því verið felld úr gildi. Farið verði vel yfir málið í dag og önnur umsókn lögð fram á morgun. Noa hefur ekki áhyggjur af því að Esau reyni að komast undan réttvísinni í millitíðinni. Hinna þriggja sem lýst var eftir í gær er enn leitað. 

Noa segir ekki óalgengt að umsóknir um handtökuskipun séu metnar ógildar af ýmsum ástæðum. Ekkert mæli gegn því að leggja fram nýja. 

Spillingarlögreglan í Namibíu, ACC, hefur gefið út yfirlýsingu þar sem fram kemur að öll gögn sem hafi verið skoðuð í Samherjamálinu og vitnisburðir bendi til þess að mútur, peningaþvætti, skattsvik og spilling hafi verið framin. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi