„Erum að komast á leiðarenda með niðurstöðu“

30.07.2019 - 16:58
Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný - RÚV
Fundi sérstakrar forsætisnefndar, sem kosin var til að afgreiða Klausturmálið svokallaða, lauk nú á fimmta tímanum. Annar fundur hefur verið boðaður á fimmtudagsmorgun. „Við erum að komast á leiðarenda með efnsilega niðurstöðu en eigum eftir að klára rökstuðning og niðurstöðuorðin,“ segir Haraldur Benediktsson, annar af tveimur sérstökum varaforsetum nefndarinnar.

Haraldur segir að þau hafi í dag verið að rýna í viðbrögð þingmanna við áliti siðanefndarinnar sem hafi leitt til þess að þau þurftu að endurskoða það sem þau voru með í höndunum. „Við erum komin með efnislega niðurstöðu en eigum heilmikla textavinnu eftir og svo þarf að kynna niðurstöðuna fyrir þeim þingmönnum hlut eiga að máli.“

Haraldur segir að þau þurfi því að klára rökstuðning og niðurstöðuorðin og til þess verði fundurinn á fimmtudagsmorgun notaður. Siðanefnd Alþingis hefur skilað áliti sínu og þingmennirnir sex, sem náðust á upptöku á vínveitingastaðnum Klaustri, höfðu frest fram á föstudag í síðustu viku til að skila inn athugasemdum. Samkvæmt upplýsingum fréttastofu skiluðu allir þingmennirnir inn athugasemd. 

Klausturmálið hefur reynst Alþingi erfitt en öll forsætisnefnd þingsins lýsti sig vanhæfa til að fjalla um það. Haraldur og Steinunn Þóra voru síðar kosin sem sérstakir varaforsetar en þau voru í hópi þingmanna sem höfðu ekki tjáð sig um málið opinberlega. 

Klausturmálið má rekja til upptöku Báru Halldórsdóttur af samtali sex þingmanna á vínveitingastaðnum Klaustri þar sem þeir fóru misfallegum orðum um annað fólk í stjórnmálum. Meðal þeirra sem náðust á upptöku voru Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, og Gunnar Bragi Sveinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra. 

Fjórir af þingmönnunum sex komu úr Miðflokknum og tveir úr Flokki fólksins en þeir gengu síðar til liðs við Miðflokkinn sem varð við það stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á Alþingi.  

 

 

 

 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV