Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Eru líka ljúfir feður og fjölskyldumenn

Mynd: Björg Magnúsdóttir / RÚV

Eru líka ljúfir feður og fjölskyldumenn

06.05.2019 - 14:50

Höfundar

Klemens Nikulásson Hannigan söngvari Hatara segir að í grunninn séu Hatarar ljúfir fjölskyldumenn sem eigi í góðum tengslum við sína nánustu. Þetta er meðal þess sem kom fram á fyrsta blaðamannafundi dómsdags-fjöllistaverkefnisins sem haldinn var á á Expó keppnissvæðinu í Tel Aviv í gær. 

Óhætt er að segja að Hatarar hafi fengið mikla athygli og vakið forvitni flestra á Eurovision svæðinu í Tel Aviv. Fyrsta æfing hópsins var í gær og gekk hún stórvel að sögn Felix Bergssonar leiðtoga íslenska hópsins. Eftir sviðsæfingu er venjan að listamenn haldi blaðamannafund og Hatari gerði það svo sannarlega eins og fjallað hefur verið um. Sér í lagi hafa ummæli Matthíasar Tryggva Haraldssonar um ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs vakið athygli. 

Á tuttugu mínútna löngum og fjölmennum fundi var ýmislegt til umræðu. Meðal annars klæðaburður og fatastíll Hatara, hvaða skilaboð sé verið að senda og fleira tengt ímyndinni. „Í atriðinu sjálfu búum við til ákveðna karaktera, en heima við erum við fjölskyldufólk. Ég á til dæmis eins og hálfs árs gamla dóttur og annað barn á leiðinni. Trommugimpið okkar er líka faðir, á einmitt líka rúmlega eins árs gamla dóttur. Við erum öll elskandi manneskjur sem eigum í góðum tengslum við okkar nánustu,“ útskýrir Klemens. Matthías bætti þá við að hann sé atvinnulaus eins og stendur en Matthías hefur bæði skrifað leikrit og unnið sem fréttamaður á fréttastofu RÚV síðustu mánuði. 

Undir lok fundarins spannst umræðan út í hið pólitíska ástand fyrir botni Miðjarðarhafs eins og RÚV hefur fjallað um. Við það tilefni ítrekaði Matthías að Hatari hafi lofað því að nota dagskrárvald sitt sem fylgir þátttöku í keppninni til þess að viðhalda gagnrýnni umræðu. „En á sviðinu sjálfu þá tökum við þátt í keppninni og fylgjum reglum, rétt eins og aðrir listamenn hér.“

Hægt er að hlusta á blaðamannafundinn í heild sinni að neðan.

Tengdar fréttir

Popptónlist

Klökkur eftir blaðamannafund og magnaða æfingu

Innlent

Hatari ætlar ekki að láta ritskoða sig

Popptónlist

Hatari vill sjá enda hernáms í Palestínu

Popptónlist

Glæný sviðsmynd Hatara afhjúpuð