„Ertu að segja að ég sé happa?“

Mynd: RÚV / RÚV

„Ertu að segja að ég sé happa?“

14.05.2019 - 11:38

Höfundar

Hatari stígur á svið í fyrri undankeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í kvöld og óhætt að segja að spennan magnist. Gísli Marteinn Baldursson lýsir undankeppninni en það gerði hann einnig fyrir tuttugu árum þegar Selma Björns lenti í öðru sæti.

Gísli Marteinn Baldursson er staddur í Tel Aviv og ætlar að lýsa því sem gerist í kvöld þegar Hatari stígur á svið í Expo-höllinni. Íslenska atriðið hefur hlotið mikla athygli og íslenski hópurinn staðið sig með sóma. Gjörningalistahópurinn Hatari og fylgdarlið eru að upplifa allan þann sirkus sem fylgir Eurovision í fyrsta sinn en Gísli Marteinn hefur margar fjörurnar sopið þegar kemur að Eurovision.  Sigmar Guðmundsson hringdi í Gísla til Tel Aviv og minnti Gísla á að hann hafi verið í Jerúsalem og lýst keppninni árið 1999, þegar Selma Björnsdóttir lenti í öðru sæti og nú tuttugu árum síðar er íslenska atriðinu spáð mikilli velgengni. „Ertu að segja að ég sé happa?“ spyr Gísli en Sigmar bendir honum einnig á að hann sé orðinn þetta gamall. Gísli segir að hvort tveggja sé rétt. 

Mynd með færslu
 Mynd: Gísli Berg - RÚV
Björg Magnúsdóttir og Gísli Marteinn stödd í Tel Aviv ásamt viðmælanda, Baldri Þórhallssyni..

„Dómararnir eða fagnefndirnar horfðu á rennslið í gær og gáfu sína dóma. Helmingurinn er búinn af þessu en krakkarnir eru auðvitað spenntari fyrir rennslinu í kvöld, því þá er íslenska þjóðin að horfa,“ segir Gísli og tekur fram að það hafi gengið ótrúlega vel hjá þeim á sviðinu. „Þau hafa aðeins verið að bæta atriðið með hverri æfingu, aðeins verið að breyta. Það er ekkert sem neinn tekur eftir, nema hann sé inn í því. Kannski tveimur sekúndum lengra skot hér, eða að Klemens líti aðeins meira í myndavélina þar. Þessi litlu smáatriði hafa breytt atriðinu til batnaðar og atriðið er orðið ótrúlega flott. Þetta er svo sem sama atriðið og við sáum hér heima en allt einhvern veginn flottara, vandaðra og sterkara,“ segir Gísli.

Ýmsir veðbankar og nær helmingur þjóðarinnar virðist á því að Ísland komist loks upp úr riðlinum en Gísli segir að þetta sé hvergi nærri búið. „Ég er orðinn drullustressaður um hvort við komumst upp úr riðlinum í kvöld. Af því að þetta er svo furðulegt, maður veit ekkert hvaða atriði mun vinna. Menn hafa verið að segja að Hollendingurinn muni vinna í ár en ég held að lagið sé ekki nógu sterkt til þess. Aðrir halda með Svíum en menn segja að þeir muni ekki vinna. Það er ekkert lag sem fólk er sammála um að verði í topp þremur. Þá gæti gerst að eitthvað skrýtið atriði vinni, eins og gerðist þegar Lordi keppti. Þá gerðist eitthvað skrýtið og þeir fljóta upp. Sama gerðist þegar Aserar unnu hérna einhvern tímann, þeir fengu bara tvær tólfur og fáir á því að þetta væri besta atriðið en nógu mörgum fannst það eitt af bestu atriðunum sem var nóg til að það ynni.“

„Ég var nú að tala við félaga mína í gær sem eru að lýsa keppninni. Við vorum að bera saman bækur okkar eftir þessu tvö rennsli í gær. Meira að segja meðal lýsendanna fann ég að það er mikill munur á því hvort fólk sé raunverulega að fatta Hatara eða ekki,“ segir Gísli og það er ljóst að ekki er sjálfgefið að skilaboðin nái í gegn. „Það eru bara nokkrir sem slökkva á heilanum eftir að Matti er búinn að öskra í tíu sekúndur og hugsa að þetta sé svona öskurrokk sem það fílar ekki. Það fattar ekki að þarna inni er melódía, þarna er gjörningur, þetta er atriði sem er um eitthvað, ákveðin gagnrýni á hluti sem eru að gerast í heiminum og ristir miklu dýpra heldur en einhverjir sem ákváðu í fyrradag að búa til öskurmetalband,“ segir Gísli Marteinn sem er í þann mund að koma sér í rétta gírinn fyrir kvöldið.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Opnunarhátíð Eurovision seinkaði vegna mótmæla

Popptónlist

Hatrið hefur sigrað

Tónlist

„Fjarstæðukennt að vera í þessari keppni“

Tónlist

Vildu ekki tjá sig um heimsókn á Vesturbakkann