Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Erna Sóley setti mótsmet

Mynd: RÚV / RÚV

Erna Sóley setti mótsmet

13.07.2019 - 19:10
Mótsmet féll í kúluvarpi kvenna á Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum í Laugardal í dag. Bestu spjótkastarar landsins voru hins vegar fjarri góðu gamni.

Í spjótkasti kvenna vann fjölþrautarkonan María Rún Gunnlaugsdóttir með kast upp á 40,97 metra. Ásdís Hjálmsdóttir keppti ekki. Sindri Hrafn Guðmundsson og Helgi Sveinsson sátu hjá í spjótkastskeppni karla vegna meiðsla og Dagbjartur Daði Jónsson var við keppni erlendis.

En í kúluvarpi kvenna var hin bráðefnilega Erna Sóley Gunnarsdóttir úr ÍR í sviðsljósinu. Erna Sóley átti afar jafna og góða kastseríu en hennar lengsta kast kom í sjöttu og síðustu tilraun hennar í dag.

Kastið var upp á 15,68 metra sem er mótsmet. Besti árangur Ernu Sóleyjar er þó 16,13 metrar og nálgast hún því Íslandsmet Guðbjargar Hönnu Gylfadóttur frá 1992 sem er 16,33 metrar.

„Ég var frekar ánægð. Þetta er í fyrsta sinn sem ég verð Íslandsmeistari fullorðinna og mótsmet er bara geðveikt.“ segir Erna sem stefnir á Íslandsmetið.

„Það er markmið sem ég er búin að setja í sumar. Það er Evrópumeistaramót í næstu viku og það verður algjörlega markmiðið að reyna að ná Íslandsmetinu þar.“

Arnar einn í hindrunarhlaupinu

Í 3000 metra hindrunarhlaupi var Arnar Pétursson eini skráði keppandinn sem lét sjá sig við rásmarkið. Hann ákvað þó að hlaupa einn. Arnar er í stífum undirbúningi fyrir heilt maraþon í Reykjavíkurmaraþoni í ágúst en skokkaði hindrunarhlaupið í gegn á tímanum 9 mínútum og 48,03 sekúndum. Íslandsmeistaratitillinn var allavega ekki í neinni hættu.

Aðspurður um hvort það hafi verið erfitt að hlaupa einn sagði Arnar: „Nei, nei. Maður er vanur að taka æfingar mikið einn og oft er maður mikið einn í þessum löngu hlaupum. Þegar maður er kominn með svona maraþonhaus er þetta bara annar dagur á skrifstofunni.“ segir Arnar sem bætti enn einum Íslandsmeistaratitlinum í safnið.

„Já þetta er númer 27. Þannig að það er bara að halda áfram að safna.“ segir Arnar.

Þá unnu Dóróthea Jóhannesdóttir og Ari Bragi Kárason í 100 metra hlaupi í dag. Sjá má nánar um það hér.

Alla sigurvegara dagsins má sjá að neðan. Meistaramótið heldur áfram á morgun.

Sigurvegarar í kast- og stökkgreinum karla

Grein Sigurvegari Félag Lengd
Hástökk Kristján Viggó Sigfinnsson Ármann 1,99
Kúluvarp Guðni Valur Guðnason ÍR 17,09
Spjótkast Guðmundur Hólmar Jónsson UFA 56,33
Þrístökk Bjarki Rúnar Kristinsson Breiðablik 13,92

 

Sigurvegarar í kast- og stökkgreinum kvenna

Grein Sigurvegari Félag Lengd
Kúluvarp Erna Sóley Gunnarsdóttir ÍR 15,68
Spjótkast María Rún Gunnlaugsdóttir FH 40,97
Stangarstökk Hulda Þorsteinsdóttir ÍR 3,70
Þrístökk Hildigunnur Þórarinsdóttir ÍR 11,62

 

Sigurvegarar í hlaupagreinum karla

Grein Sigurvegari Félag Tími
100m Ari Bragi Kárason FH 10,76
110m grind Ísak Óli Traustason UMSS 15,14
400m Hinrik Snær Steinsson FH 48,33
1500m Sæmundur Ólafsson ÍR 4:04,82
3000m hindr. Arnar Pétursson* ÍR 9:48,03
4x100m Kormákur Ari, Trausti, Kolbeinn Höður, Ari Bragi FH 41,55

 

Sigurvegarar í hlaupagreinum kvenna

Grein Sigurvegari Félag Tími
100m Dóróthea Jóhannesdóttir FH 11,98
100 grind María Rún Gunnlaugsdóttir FH 14,00
400m Þórdís Eva Steinsdóttir FH 56,82
1500m Sólrún Soffía Arnarsdóttir FH 4:53,39
4x100m Anna, Þórdís Eva, Dóróthea, Melkorka Rán FH 47,66