Erindreki SÞ gagnrýnir Suu Kyi

03.09.2019 - 10:24
epa07814270 South Korean President Moon Jae-in (L) and Myanmar State Counsellor Aung San Suu Kyi (R) speak during a meeting in Naypyitaw, Myanmar, 03 September 2019. Moon is on a three-nation trip to Southeast Asia where he will visit Thailand, Myanmar, Laos.  EPA-EFE/YONHAP SOUTH KOREA OUT
Frá fundi Moon Jea-in og Aung San Suu Kyi í Naypyitaw í Mjanmar í dag. Mynd: EPA-EFE - YNA
Yanghee Lee, erindreki Sameinuðu þjóðanna í mannréttindamálum, fór í morgun hörðum orðum um Aung San Suu Kyi, leiðtoga Mjanmar, í morgun og sagði hana vaða í villu um mannréttindabrot og ofbeldi gegn Róhingjum í landinu.

Lee, sem er frá Suður-Kóreu, sagði að Suu Kyi ætti að rísa upp og tjá sig um þá meðferð sem Róhingjar hefðu fengið í Mjanmar áratugum saman. Stjórnvöld í Mjanmar líta á Róhingja sem ólöglega innflytjendur frá Bangladess og neita þeim bæði um borgararétt og almenn mannréttindi.

Meira en 700.000 Róhingjar flýðu til Bangladess fyrir tveimur árum vegna ofsókna hersins í Mjanmar. Bandaríkjamenn samþykktu í sumar refsiaðgerðir gegn yfirmanni hersins í Mjanmar og nokkrum herforingjum og líktu aðgerðum þeirra við þjóðernishreinsanir.

Lee segir að Suu Kyi eigi skilið sömu meðferð. Hún eigi það ekki skilið að vera kölluð baráttukona fyrir lýðræði.

Lee gagnrýndi einnig landa sinn Moon Jae-in, forseta Suður-Kóreu, og heimsókn hans til Mjanmar í dag. Hún hvatti Moon til að sýna festu, því þótt hann hefði starfað sem mannréttindalögfræðingur hefði hann almennt lítið látið frá sér fara um mannréttindi. Þá sagði Lee að það væri hneisa að ríki létu viðskipti sig meira varða en þjáningar fólks.

 

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi