Erfitt að vera samkvæm sjálfri sér

Mynd: RÚV / RÚV

Erfitt að vera samkvæm sjálfri sér

22.08.2019 - 15:39
Söngkonan Bríet skaust hratt upp á stjörnuhimininn fyrir rúmlega ári og hefur haldið áfram að heilla fólk síðan þá. Hún segir bransann geta verið flókinn og oft sé erfitt að vera samkvæm sjálfri sér.

Tónlist hefur alltaf verið hluti af lífi Bríetar sem söng mikið með pabba sínum áður en hún fór að spila á gítar 12 ára. Þegar hún var 15 ára gömul var hún fengin til að syngja utan dagskrár (e. off venue) á Iceland Airwaves. Eftir að hafa spilað víða, bæði ein og með öðrum fór hún að vinna með Pálma Ragnari Ásgeirssyni, oft kenndum við Stop Wait Go. Í fyrra kom svo út lagið „In too Deep“ og þau hafa varla stoppað síðan. 

Sex dögum eftir að lagið kom út fengu þau símtöl og tölvupósta frá stórum plötufyrirtækjum eins og Sony og Universal. Það var að vonum töluvert sjokk fyrir söngkonuna, sem var þá aðeins 19 ára gömul. „Ég var alveg lost, átti ég bara að fara að skrifa undir þegar þeir vita ekki hver stefnan er. Ég vissi það ekki einu sinni sjálf.“

Bríet segir að svigrúmið til að gera það sem maður vill sjálfur sé meira á Íslandi en erlendis þar sem tónlistarfólk sé oft sett í ákveðna kassa. Hún þurfi stanslaust að minna sig á að vera samkvæm sjálfri sér.

„Fólk er alltaf að segja þér hvað er rétt og hvernig þú átt að vera. Að fá athygli svona hratt getur fokkað manni upp, eða verið drifkraftur til að gera eitthvað meira og stærra.“

Bríet er viðmælandi Atla Más Steinarssonar í fyrsta þætti annarrar seríu Rabbabara. Þetta er fyrsti þáttur af sex en í næstu þáttum fáum við meðal annars að kynnast Hugin, Herra Hnetusmjöri og GDRN. Þáttinn má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.