Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Erfitt að vera fjarri fjölskyldunni um jólin

25.12.2017 - 12:13
DET
 Mynd: Eimskip.is - Eimskip.
Ívar Gunnlaugsson, skipstjóri á Dettifossi, segir það vissulega erfitt að vera fjarri fjölskyldu um jólin. Þrettán manna áhöfn skipsins hafði það þó mjög gott um borð á aðfangadagskvöld, þar sem skipið lá bundið við bryggju í Þórshöfn í Færeyjum. Boðið var upp á humar og kalkún.

„Við ætluðum að vera hérna í gærmorgun en fengum leiðindabrælu á leiðinni frá Árósum og það tafði okkur það mikið að við vorum ekki hérna fyrr en klukkan fimm í gær,“ segir Ívar. „Við erum að vinna hérna núna, að klára að losa og lesta, og svo ætlum við bara til Reykjavíkur. Við verðum þar annað kvöld. Það bilaði krani hérna á bryggjunni þannig að við erum seinna í því heldur en við ætluðum. Við ætluðum að vera farnir klukkan eitt en það verður ekki.“

Hvað gerðuð þið á aðfangadagskvöld?

„Við fengum þennan svakalega fína mat hjá brytanum okkar, tókum upp pakka frá Kvenfélaginu Hrönn og nutum matar og drykkjar og höfðum það gott.“

Hvað var í matinn?

„Við fengum kalkún en fyrst fengum við þennan fína humar í forrétt og svo var ísterta. Þannig að þetta var eins flott og hægt var að hafa það, eins og á besta veitingahúsi.“

Og mannskapurinn var bara ánægður með að vera um borð á aðfangadag?

„Við gerðum bara það besta úr aðstæðum. Við erum hér og breytum því ekki neitt þannig að við höfðum það bara gott.“

En er ekkert erfitt að vera úti á sjó um jólin?

„Jú auðvitað er það alltaf erfitt að vera ekki heima með fjölskyldunni. Og njóta þess að vera heima. En svona er bara líf okkar og við breytum því ekki. Ég er búinn að vera í þessu í 50 ár þannig að ég hef oft verið í burtu um jólin,“ segir Ívar.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV