Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Erfitt að taka sjálfhverfu nútímafólks alvarlega

Mynd: RÚV / RÚv

Erfitt að taka sjálfhverfu nútímafólks alvarlega

16.02.2020 - 10:01

Höfundar

Þórdís Gísladóttir segir að kaldhæðnin í ljóðabókinni Mislægum gatnamótum sé að miklu leyti sprottin upp úr nútímaástandi þar sem fólk reynir að vera einlægt en skrifar og talar endalaust um sjálft sig, birtir lagfærðar myndir af sjálfu sér á samfélagsmiðlum og sé sjálfhverft í uppgerðareinlægni sinni.

Margir þekkja persónulegan og oft á tíðum kaldhæðinn stíl Þórdísar Gísladóttur í ljóðum hennar og skáldsögum. Hún hefur vakið athygli fyrir að setja hversdagsleg fyrirbæri og nútímaleg samskipti og uppákomur í grátbroslegt ljóðrænt samhengi. En þrátt fyrir að ljóðabókin Mislæg gatnamót, sem hún sendi frá sér í haust, hafi vakið kátínu hjá mörgum lesendum þá er þar margt sorglegt og dapurlegt ef vel er að gáð. „Það er í raun sitthvor hliðin á sama peningnum hvað er fyndið og hvað er trist,“ segir hún. „Ég held það sé kannski það sem er dapurlegt þegar maður lendir í því, það getur orðið fyndið eftir á. Eins þegar maður setur hlutina í nýtt samhengi verður það stundum fyndið.“

Skilin á milli einlægni og sjálfhverfu í nútímasamfélagi séu orðin mjög óljós og í uppgerðareinlægni sinni sé fólk sérstaklega tilgerðarlegt „Maður er alltaf að lesa pistla og þeir eru alltaf um pistlahöfundinn eða fjölskyldu pistlahöfundsins, þetta er svo sjálfhverft,“ segir hún og hlær. „Fólk er alltaf að taka myndir af sjálfu sér og birta einhvers staðar og það er ekki eins og það er heldur í „soft fókus“ sem það finnur á Instagram. Það er svo erfitt að taka það alvarlega.“

Þrátt fyrir að fjalla mikið um samtímann í bókinni hefur Þórdís einnig mikinn áhuga og þekkingu á fortíðinni. „Ég les mikið af ævisögum, þjóðlegum fróðleik og svona löguðu en ég hef líka mikinn áhuga á samtímanum. Ég hef svo gaman af fólki og tek eftir smáatriðum,“ segir Þórdís sem hefur næmt auga fyrir því sem gerist í kringum hana og tengir fortíð og nútíma í skáldskap.

En lifum við á ansalegum tímum? „Já, einhvern veginn,“ viðurkennir Þórdís kímin. „Fólk vill vera einlægt en er alveg jafn tilgerðarlegt og kjánalegt og ef maður reynir að vera tilgerðarlegur. Einlægni er svo vandmeðfarin og ég verð smá kaldhæðin yfir því. Stundum verður maður bara að velja hvort maður ætlar að hlæja eða gráta yfir hlutunum.“

Rætt var við Þórdísi Gísladóttur í Kiljunni.