Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Erfitt að nota íslensku í markaðsstarfi

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin

Erfitt að nota íslensku í markaðsstarfi

02.06.2017 - 10:52

Höfundar

Mikil óánægja hefur blossað vegna breytingar á nafni Flugfélags Íslands í Air Iceland Connect. Margir telja að þetta gróna félag ætti að standa með íslenskunni og hafa sjálfstraust til þess. Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri Air Iceland Connect, svaraði þessu á Morgunvaktinni á Rás 1. Hann sagðist skilja gagnrýnina en veruleikinn í markaðsmálum kalli á þessa breytingu.

Í tilefni af nafnbreytingunni sendi Íslensk málnefnd frá sér ákall til íslenskra fyrirtækja um að þau standi með þeim sem berjast fyrir tilvist íslenskrar tungu.

„Manni þykir að mörgu leyti vænt um slík viðbrögð. Við erum þá greinilega fyrirtæki sem skiptir máli. Það skiptir máli hvað við erum að gera. En við töldum að það væri erfitt að byggja upp tvö vörumerki, Air Iceland og Flugfélag Íslands, samhliða. Vörumerkið þarf að vera eitt og standa hvort sem það er innanlands eða utan.“

En það er ekki einungis að nafnabreytingin fari í taugarnar á mörgum. Íslensk málnefnd minnir í því sambandi á íslenska málstefnu og lög um stöðu íslenskrar tungu og táknmáls. „Við þekkjum auðvitað að mörg félög eru með erlend heiti hér á landi. Það er ekkert nýtt. Við munum áfram heita Flugfélag Íslands í þjóðskrá og fyrirtækjaskrá. Þetta snýst eingöngu um markaðssetninguna, að skilaboðin sem við sendum frá okkur séu undir einu nafni,“ segir Árni Gunnarsson.  

Air Iceland Connect flýgur á 11 leiðum, til sjö áfangastaða erlendis en fjögurra hér innanlands. Árni bendir á að það sé ekkert nýtt að notað sé erlent heiti yfir flugstarfsemi félagsins. Strax árið 1940 þegar nafn Flugfélags Íslands er fest hafi líka verið notast við nafnið Iceland Airways. Frá árinu 1997 hefur nafnið Air Iceland verið notað með nafninu Flugfélag Íslands. Forstjórinn segir að vegna breytinga á rekstrinum, sem beinist ekki síst að áfangastöðum erlendis og breyttu umhverfi markaðsmála á öld netsins og samfélagsmiðla, sé erfitt að viðhalda tvöföldu nafnakerfi – íslensku og ensku. En af hverju ekki bara Air Iceland – frekar en Air Iceland Connect? Árni segir að annars vegar vilji stjórnendur lýsa rekstri félagsins, að tengt sé milli landshluta og landa, en hinsvegar aðgreina Air Iceland og Icelandair. Það hafi verið ruglingur vegna þessara tveggja nafna.

Á Morgunvaktinni ræddi Árni Gunnarsson vítt og breitt um stefnu flugfélagsins - Air Iceland Connect -  á innlendum og erlendum vettvangi, stöðu ferðamála í landinu og framtíð Reykjavíkurflugvallar. Hann segir að það sé mjög slæmt að búa við þá óvissu sem nú ríki um framtíð vallarins í Vatnsmýri en vonast til að fljótlega verði framtíðarstefnan skýr: hvort áfram verði völlur í Vatnsmýri eða hann fluttur í Hvassahraun. Keflavíkurflugvöllur sé hinsvegar tæplega boðlegur fyrir þá sem koma utan af landi í erindagjörðum til höfuðborgarinnar. Og svo er bara að sjá hvort landinn sættist við Air Iceland Connect.

 

Mynd með færslu
 Mynd: - - Air Iceland Connect