Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Erfitt að mega ekki knúsa vini sína

26.03.2020 - 19:41
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Níu ára drengur segir erfitt að geta ekki knúsað vini sína vegna kórónuveirufaraldursins. Hann átti afmæli á dögunum og gat einungis boðið einum vini í veisluna. 

Miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu undanfarið vegna faraldursins. Þúsundir Íslendinga hafa þurft að fara í sóttkví, fólk vinnur í æ auknum mæli heima og með samkomubanni og skertu skólahaldi er óhætt að segja að samvera fólks og samskipti séu gjörbreytt. Og börnin fara ekki varhluta af þessu. 

Leifur Ottó er í Austurbæjarskóla, en undanfarið hefur hann verið frá skóla vegna undirliggjandi sjúkdóma í fjölskyldu hans. „Við förum stundum í spil og stundum þegar við höfum ekkert að gera þá horfum við bara á sjónvarpið eða eitthvað,“ segir Leifur Ottó. Þá er hann byrjaður í heimanámi gegnum netið.

Leifur Ottó hélt upp á níu ára afmælið sitt á dögunum, en það var engin hefðbundin afmælisveisla. „Það kom bara einn og færri gjafir, færri gestir. Bara frændi minn, mamma mín og pabbi minn, og ég auðvitað.“

Honum finnst margt skrýtið við ástandið, og sumt erfitt. „Við megum ekki vera of nálægt hver öðrum og megum ekki knúsast,“ segir hann. Það finnst honum erfitt. „Um daginn var ég með Þorvaldi vini mínum og ég var að knúsa hann svona þrisvar sinnum út af því að ég gleymi mér alltaf.“

„Svo líka var EM og Eurovision frestað, sem að mér finnst mjög leiðinlegt af því að Ísland hefði getað unnið Eurovision,“ segir Leifur Ottó.