Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Erfitt að hafna sæstreng bótalaust

19.08.2019 - 16:38
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Orkan okkar, sem leggst gegn þriðja orkupakkanum, telur að samþykkt hans jafngildi því að hér verði lagður sæstrengur. Hætt sé við því að Ísland verði að greiða milljarðasektir ef stjórnvöld standa í vegi fyrir lagningu sæstrengs. Krafa muni koma frá einkaaðilum um að Landsvirkjun verði skipt upp og að hver virkjun verði eitt fyrirtæki.

16 þúsund skrifað undir

Það styttist í að  þriðji orkupakkinn verði afgreiddur á Alþingi. Umræður verða um hann á miðvikudag og fimmtudag í næstu viku og ráðgert er að atkvæðagreiðsla verði  mánudaginn 2. september. Annar fundur utanríkismálanefndar Alþingis þar sem gestir gerðu nefndinni grein fyrir aftstöðu sinni til innleiðingarinnar var haldinn í morgun. Flestir komu þá öðru sinni fyrir nefndina. Fulltrúar Orkunnar okkar, sem leggst eindregið gegn því að þriðji orkupakkinn verði samþykktur, mættu í morgun. Þar var meðal annars upplýst að 16 þúsund manns hefðu skrifað undir áskorun um að Alþingi samþykki ekki pakkann og  þeim tilmælum beint til sameiginlegu EES-nefndarinnar að Ísland verði undanþegið innleiðingu orkupakkans í ljósi þess að landið er ekki tengt raforkumarkaði ESB. 

Já við orkupakkanum þýðir já við sæstreng

Það er álit Orkunnar okkar að já við orkupakkanum þýði já við lagningu sæstrengs. Frosti Sigurjónsson, einn talsmaður samtakanna, segir að það gangi ekki upp að samþykkja pakkann, sem fjallar um viðskipti með raforku yfir landamæri, og ætla sér á sama tíma að segja nei við sæstreng.

„Við teljum að sæstrengur verið ekki lagður án þess að þriðji orkupakkinn verði samþykktur og leiddur í lög. Í verkefnisskýrslu þar sem fjallað er um þessi innviðaverkefni og meðal annars um ICE LINK sæstrenginn stendur að eitt af því sem vantar á Íslandi til að hægt sé að leggja strenginn sé samþykkt þriðja orkupakkans,“ segir Frosti.

Hann segir að markmið orkupakkans sé að ryðja úr vegi hindrunum gegn flutningi raforku yfir landamæri.

„Og ein slík hindrun væri að Alþingi myndi hafna að fullfjármögnuðum streng og algjörlega rökréttum streng. Á hvaða forsendum ætti Alþingi að geta hafnað því hafandi samþykkt þessi markmið og undirgengist þau? Nú höfum við heyrt það frá lögfræðingum og lögspekingum að þessi markmiðsákvæði hafi mikla þýðingu í dómum fyrir Evrópudómstólnum og þau dómafordæmi benda til þess að þetta gæti haft mjög sterka þýðingu hér. Þess vegna verður mjög erfitt fyrir okkur að hafna síðan sæstreng bótalaust,“ segir Frosti.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Orkupakkinn ræddur í utanríkismálanefnd

Gætu krafist hárra bóta

Orkan okkar vill að það verði kannað hversu háar skaðabæturnar gætu orðið. Mjög skiptar skoðanir eru reyndar um það að hægt sé að höfða mál vegna synjunar íslenskra stjórnvalda við lagningu sæstrengs hingað. Frosti segir hins vegar að þetta gætu orðið talsvert háar bætur. Ef strengur kostaði um 700 milljarða og gert væri ráð fyrir 10% hagnaði mynd fyrirtæki tapa um 70 milljörðum á ári.

„Ef við gerðum ráð fyrir því það væri bara lítið brot af því þá gætu þetta verið milljarðar á ári hverju í bætur sem er tapaður hagnaður viðkomandi sæstrengsfyrirtækis. Auk þess gætu bæst við kröfur einkaaðila sem ætla að reisa hér virkjanir og vindmilluver eða annað slíkt. Með sæstreng mun raforkuverð hækka og þeir gætu selt orkuna sína úr landi. Án samþykkis Alþingis væru þeir að fara á mis við þann hagnað og þeir gætu lagt fram bótakröfur,“ segir Frosti.

Þurfum að fara varlega

Orkan okkar telur að markaðsvæðing raforku sé ógn við orkuöryggi og að verðið muni hækka ef landið verður tengt Evrópu. En telja samtökin að með tengingu myndi ESB nánast soga alla orku frá Íslandi? Nei, segir Frosti

„En við teljum að sú löggjöf sem Evrópusambandið þarfnast og innleiðir hjá sér muni leiða til þess að hér verði mjög miklir hvatar til þess einkaaðilar virki. Það er eitt af markmiðunum sem koma fram í orkupakkanum, að það þurfi að stórauka virkjanir af náttúrlegum toga og gefa þeim forgang. Það liggur þá í orðunum að gefa þeim forgang umfram náttúruvernd. Loftslagsmarkmið munu þá ráða. Þegar þetta leggst á eitt með þeim sem vilja græða á framleiðslu orku og flytja hana svo út um sæstreng til ESB, sem glímir við orkuskort, þá held ég að það sé alveg ljóst að það mun verða virkjað mun meira hér eða alla vega verði krafan mjög rík. Og þegar einkaaðilar, regluverk og hagsmunir ESB leggjast allir á eitt mun eitthvað undan láta. Og ég held að við þurfum að fara varlega í þessu,“  segir Frosti.

Væntanlega krafa um að skipta Landsvirkjun upp

Vatnsorkan og mestur hluti jarðvarma er í eigu ríkisins á Íslandi. Smærri virkjanir geta verið í eigu fyrirtækja eða einstaklinga og sömuleiðis vindorkan. En er það skoðun Orkunar okkar að það sem er í eigu  hins opinbera verði hugsanlega einkavætt?

„Þessir kraftar sem ég er að tala um, og reglur markaðarins, samrýmast því mjög illa að ríkið eigi 95% raforkukerfisins, allar flutningsleiðirnar og megnið af virkjununum. Sá söngur er að hefjast og hefur heyrst frá HS Orku að þeim finnist hlutur Landsvirkjunar allt of stór. Krafan mun væntanlega koma upp um það frá einkaaðilum og fjárfestum að skipta verði Landsvirkjun upp eftir virkjunum. Hver virkjun verði sérstakt fyrirtæki. Þær verði síðan boðnar út. Nýtingarrétturinn verði svo boðinn út reglulega sem er ein af kröfunum. Í Frakklandi er verið að krefjast þess að nýtingarréttur ríkisvatnsaflsvirkjana verði boðinn út á 30 ára fresti. Hér væri því fljótlega komið að því vegna þess að nýtingarrétturinn er orðinn mun lengri en það,“ segir Frosti.