16 þúsund skrifað undir
Það styttist í að þriðji orkupakkinn verði afgreiddur á Alþingi. Umræður verða um hann á miðvikudag og fimmtudag í næstu viku og ráðgert er að atkvæðagreiðsla verði mánudaginn 2. september. Annar fundur utanríkismálanefndar Alþingis þar sem gestir gerðu nefndinni grein fyrir aftstöðu sinni til innleiðingarinnar var haldinn í morgun. Flestir komu þá öðru sinni fyrir nefndina. Fulltrúar Orkunnar okkar, sem leggst eindregið gegn því að þriðji orkupakkinn verði samþykktur, mættu í morgun. Þar var meðal annars upplýst að 16 þúsund manns hefðu skrifað undir áskorun um að Alþingi samþykki ekki pakkann og þeim tilmælum beint til sameiginlegu EES-nefndarinnar að Ísland verði undanþegið innleiðingu orkupakkans í ljósi þess að landið er ekki tengt raforkumarkaði ESB.
Já við orkupakkanum þýðir já við sæstreng
Það er álit Orkunnar okkar að já við orkupakkanum þýði já við lagningu sæstrengs. Frosti Sigurjónsson, einn talsmaður samtakanna, segir að það gangi ekki upp að samþykkja pakkann, sem fjallar um viðskipti með raforku yfir landamæri, og ætla sér á sama tíma að segja nei við sæstreng.
„Við teljum að sæstrengur verið ekki lagður án þess að þriðji orkupakkinn verði samþykktur og leiddur í lög. Í verkefnisskýrslu þar sem fjallað er um þessi innviðaverkefni og meðal annars um ICE LINK sæstrenginn stendur að eitt af því sem vantar á Íslandi til að hægt sé að leggja strenginn sé samþykkt þriðja orkupakkans,“ segir Frosti.
Hann segir að markmið orkupakkans sé að ryðja úr vegi hindrunum gegn flutningi raforku yfir landamæri.
„Og ein slík hindrun væri að Alþingi myndi hafna að fullfjármögnuðum streng og algjörlega rökréttum streng. Á hvaða forsendum ætti Alþingi að geta hafnað því hafandi samþykkt þessi markmið og undirgengist þau? Nú höfum við heyrt það frá lögfræðingum og lögspekingum að þessi markmiðsákvæði hafi mikla þýðingu í dómum fyrir Evrópudómstólnum og þau dómafordæmi benda til þess að þetta gæti haft mjög sterka þýðingu hér. Þess vegna verður mjög erfitt fyrir okkur að hafna síðan sæstreng bótalaust,“ segir Frosti.