Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Erfitt að fjármagna heilsuferðaþjónustu

15.08.2013 - 19:45
Mynd með færslu
 Mynd:
Áform tveggja kínverskra fyrirtækja um allt að sjö milljarða fjárfestingu í heilsuþorpi á Flúðum eru úr sögunni. Fjármögnun einkarekins sjúkrahúss í Mosfellsbæ miðar hægt.

Brösuglega hefur gengið að hrinda í framkvæmd ýmsum metnaðarfullum áformum í heilsuferðamennsku. Frá árinu 2008 hefur verið stefnt að byggingu heilsuþorps á Flúðum. Fyrstu áform gerðu ráð fyrir 200 íbúðum, þjónustubyggingum, laugum, og endurhæfingaraðstöðu, þar sem á annað hundrað manns áttu að starfa. Dregið var úr áformunum eftir hrun.

Á síðasta ári var tilkynnt að kínverskir fjárfestar, CSST International, vildu lána allt að 7 milljörðum króna í verkefnið. Árni Gunnarsson, forsvarsmaður heilsuþorpsins, segir við fréttastofu að þau áform séu úr sögunni. Hann segist hafa bundið verulegar vonir við CSST og annað kínverskt félag, en skilmálar þeirra hafi verið óviðunandi.

Enn er reynt að finna fjármagn til verkefnisins og annarra stórra verkefna. Primacare stefnir enn að því að byggja heilsuhótel og einkarekið sjúkrahús í Mosfellsbæ, til að gera liðskiptaaðgerðir á erlendum sjúklingum.Kostnaður við verkefnið er áætlaður um 16-20 milljarðar króna og þarf félagið um einn og hálfan milljarð í fyrsta áfanga.

Takist það, segist Gunnar Ármannsson, framkvæmdastjóri Primacare, bjartsýnn á aðkomu erlendra fjárfesta.Önnur áform í þessum geira sem ekki hafa komist á koppinn eru meðal annars einkarekið heilsusjúkrahús á Reykjanesi og áform fyrirtækisins Nordic Health Pro um að bjóða erlendum sjúklingum upp á skurðaðgerðir.