Erfiður dagur á Landspítalanum

alvarlegt bílslys við háöldukvísls á Skeiðarársandi, 9 erlendir ferðamenn slasaðir
 Mynd: RÚV/Vilhjálmur
Fjórir einstaklingar, þar af þrjú börn, liggja á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi eftir harðan árekstur á Skeiðarársandi í gær. Forstöðumaður bráðalækninga á Landspítalanum segir gærdaginn hafa verið erfiðan og mikið álag sé á gjörgæsludeildinni.

Níu manns, ferðamenn frá Frakklandi og Suður-Kóreu, voru í bílunum tveimur sem skullu saman við Háöldukvísl á Skeiðarársandi í gær. Sjö þeirra voru flutt á Landspítalann í Fossvogi með þyrlum Landhelgisgæslunnar og er ástand þeirra misalvarlegt. Fjögur eru enn á gjörgæsludeild, þar af þrjú börn og er ástand tveggja þeirra sagt alvarlegt. Tveir hafa þegar verið útskrifaðir og einn er undir eftirliti.

Mikið álag á gjörgæsludeildinni

Mikill viðbúnaður var á Landspítalanum í gær vegna slyssins og segir Jón Magnús Kristjánsson, forstöðumaður bráðalækninga, að það hafi skipt sköpum að búið var að opna sjö ný pláss fyrir sjúklinga í bið eftir innlögn á efri hæð bráðmóttökunnar. Álagið á spítalanum var mikið í gær því auk slyssins á Skeiðarársandi voru þrír piltar fluttir á slysadeild alvarlega slasaðir eftir að bíll fór ofan í Hafnarfjarðarhöfn.

„Þetta var erfiður dagur í gær og margir sem eiga um sárt að binda eftir hann. En við vorum vel í stakk búin og gátum tekið á móti þesssum einstaklingum vegna þeirra viðbragða sem brugðist hafði verið við. Það er ennþá mikið álag á gjörgæsludeild spítalans, margir sjúklingar sem þurfa að fá þjónustu. Það kemur alltaf upp öðru hverju svona dagar þar sem að er annað hvort ennþá stærri slys eða nokkur slys með stuttu millibili.“

Fengu áfallahjálp á Kirkjubæjarklaustri

Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurlandi og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Að minnsta kosti hálftími leið frá því tilkynning um slysið barst þar til fyrstu viðbragðsaðilar komu á vettvang. Rúta með 17 erlenda ferðamenn innanborðs kom fyrst að slysinu og veittu farþegar hennar hinum slösuðu aðhlynningu þar til viðbragðsaðilar komu á vettvang. Þeir voru svo fluttir í grunnskólann á Kirkjubæjarklaustri þar sem sjálfboðaliðar Rauða krossinns veittu þeim áfallahjálp.

Sólveig Ólafsdóttir, gjaldkeri í stjórn Rauða krossinns, var ein af þeim sem tók á móti hópnum.  „Það var aðeins búið að hrista upp í þeim. Þau voru alveg miður sín. Þetta var rosa erfitt fyrir þau. Þarna voru börn sem voru slösuð og það reynist fólki alltaf mjög erfitt í svoleiðis aðstæðum. En þau höfðu miklar áhyggjur og hugur þeirra var hjá fólkinu sem lenti í slysinu og þau báðu mikið um fréttir af þeim.“

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur - RÚV
Sólveig Ólafsdóttir, ein þeirra sem veitti erlendu ferðamönnunum áfallahjálp á Kirkjubæjarklaustri.