Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Erfiðar viðræður um samruna kjötfyrirtækjanna

04.06.2019 - 11:49
Mynd með færslu
 Mynd:
Þrátt fyrir að hafa kannað flestar mögulegar leiðir til að sameina kjötvinnslufyrirtækin Norðlenska og Kjarnafæði hefur enn ekki tekist að ljúka því. Enn ber talsvert í milli og óvíst er talið að sameining takist úr þessu. Viðræðum er þó haldið áfram.

Formlegar viðræður um samruna Norðlenska og Kjarnafæðis hófust í ágúst 2018. Áður höfðu eigendur fyrirtækjanna rætt óformlega um sameiningu og hafa því rætt saman í um það bil ár.

Telja óvíst að náist að sameina fyrirtækin

Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, segir ferlið hafa reynst umfangsmeira og flóknara en búist var við. Mikil vinna sé eftir og hann telur óvíst að það náist að klára verkefnið úr þessu. Undir þetta tekur Eiður Gunnlaugsson, stjórnarformaður Kjarnafæðis. Enn sjáist ekki til lands í viðræðunum og óvíst að það takist að ljúka þeim. Eiður segist þó ekki hafa sett sér nein sérstök tímamörk. En það sé ekki búið að slíta neinu og viðræður séu í gangi.

Vilja velta við öllum steinum

Íslandsbanki hefur leitt samrunaferlið og samkvæmt heimildum fréttastofu er enn áhugi fyrir því að ljúka því með sameiningu. Enn ber þó talsvert í milli og með hverri vikunni sem líður verður ólíklegra að sú niðurstaða fáist. Engu að síður eru aðilar sammála um kosti þess að sameina félögin og forðast að slíta viðræðum fyrr en búið er að velta við öllum steinum. Þar fari möguleikunum þó fækkandi. Margir sem fréttastofa hefur rætt við telja að tíminn sé að verða naumur og að hann mælist í dögum frekar en vikum.

Mjög umfangsmikil starfsemi

Kjarnafæði og Norðlenska eru tvö af stærstu matvælafyrirtækjum á Norðurlandi og hjá þeim og dótturfélögum starfa um 350 manns. Norðlenska rekur stórgripasláturhús og kjötvinnslu á Akureyri, en slátrun og afurðavinnsla sauðfjár er á Húsavík. Þá rekur Norðlenska sláturhús á Höfn í Hornafirði og söluskrifstofu í Reykjavík. Starfsemi Kjarnafæðis fer að mestu fram á Svalbarðseyri. Auk þess á félagið SAH-Afurðir á Blönduósi, sláturhús og kjötvinnslu, og um þriðjungshlut í Sláturfélagi Vopnfirðinga.