Erfiðar aðstæður á kolmunnaveiðum við Írland

11.03.2020 - 13:42
Mynd með færslu
 Mynd: Hlynur Ársælsson
Íslensk kolmunnaskip eru þessa dagana við veiðar vestan við Írland við mjög erfiðar aðstæður. Skipstjóri segir nær samfleytt óveður á miðunum og erfitt að athafna sig við veiðarnar.

„Þetta er vægast sagt alveg hrikalega erfitt,“ segir Grétar Rögnvarsson, skipstjóri á Jóni Kjartanssyni frá Eskifirði. „Það eru bara brælur út í eitt, stórviðri dag eftir dag og lægir kannski í nokkra klukkutíma milli lægða.“

Getur verið yfir fjögurra sólarhringa sigling á miðin

Grétar og áhöfn hans er, ásamt tug íslenskra skipa, rétt vestan við mörk írsku fiskveiðilögsögunnar, um 800 mílur suður af Íslandi. „Ef þú getur keyrt fulla ferð þá ertu tvo og hálfan sólarhring að fara hingað. En nemm eru alltaf í brælum fram og til baka þannig að menn hafa verið upp í 4-5 sólarhringa að komast hér á milli.“

Veiðin byggist mikið á veðrinu

Kolmunnaveiðin hófst í lok febrúar og Jón Kjartansson er í sínum örðum túr. „Við erum búnir að vera hérna í fjóra daga og erum að dæla öðru halinu. Alltaf bara haldið upp í storm og stjórsjó,“ segir Grétar. „Það var mikil veiði í hinum túrnum. Og gekk á ýmsu, menn voru að sprengja poka og svoleiðis. En það er farið að minnka núna og dregur yfirleitt úr þessu þegar líður á mars. Það hefði samt getað verið búið að veiða miklu meira ef það hefði verið sæmileg tíð. Það skemmir mikið fyrir tíðarfarið og þetta byggist mikið á veðrinu.“

Styttist í hlé á kolmunnaveiðinni

Kolmunninn er á leið í norðaustur og gengur jafnan í írsku lögsöguna í kringum 20. mars. Þá verður hlé á veiðum íslensku skipanna þar til líður á apríl, en þá getur veiðin hafist á ný í færeyskri lögsögu. Og það er mikill kostnaður við þessa veiðar, löng sigling og skemmdir á veiðarfærum í brælunni. En markaðsaðstæður fyrir mjöl og lýsi eru hagstæðar og kolmunninn verðmæt afurð.

Allur uppsjávarflotinn við Írland

Í loðnubrestinum segja útgerðarmenn dýrmætt að hafa þetta hráefni, enda er allur uppsjávarflotinn á kolmunna. „Já, já, það eru allir uppsjávarbátarnir hérna,“ segir Grétar. „Sem væru annars á loðnu ef allt væri eðlilegt.“

 

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi