Erfðasýni gætu skýrt faðerni Hans Jónatans

Mynd: Óðinn Jónsson / Morgunvaktin

Erfðasýni gætu skýrt faðerni Hans Jónatans

20.07.2017 - 11:10

Höfundar

„Ég kappkostaði í þessari bók að nota ævi þessa eina manns sem einskonar aldarspegil, breiðgötu inn í þrælaheiminn á átjándu og nítjándu öld,“ sagði Gísli Pálsson, mannfræðingur, á Morgunvaktinni á Rás 1 um bók sína Hans Jónatan – Maðurinn sem stal sjálfum sér.

Bókin hefur komið út í Bandaríkjunum og Danmörku og á næsta ári kemur hún út í Frakklandi. Þá hefur verið gerð heimildarmynd sem byggð er á söguefninu. „Það er eins og persóna Hans Jónatans sé komin á landakortið,“ segir Gísli.

Hver var faðirinn?

Gísli Pálsson sagði á Morgunvaktinni frá viðtökum bókar sinnar, sem kom út fyrst út á Íslandi árið 2014, og því að bandarískir kvikmyndagerðarmenn væru að velta fyrir sér söguefninu. Hugsanlega verður gerð dramatísk kvikmynd byggð á sögu Hans Jónatans sem fæddist á eynni St. Croix á Jómfrúreyjum en settist að á Djúpavogi, gerðist þar verslunarþjónn og síðar bóndi og grafinn er í Hamarsfirði. Hans Jónatan var sonur ambáttar, sem ættuð var frá Vestur-Afríku, og dansks manns úr yfirstétt.

En hver var faðirinn? Tveir valdamenn höfðu helst verið nefndir, báðir úr efsta þrepi valdastiga nýlenduþjóðarinnar, Dana, af ættum Moltke og Schimmelmann. En Gísli setti í bókinni fram kenningu um þriðja manninn sem gæti hafa verið faðir Hans Jónatans. Þetta var einkaritari landsstjórans og plantekrueigandans Schimmelmanns á St. Croix, Hans Gram. Einmitt fornafnið er ein vísbendingin. Hans Gram gat sér síðar nafn sem tónskáld í Bandaríkjunum. Hans Jónatan kom til Íslands með fiðlu í farteskinu og margir tónlistarmenn eru meðal afkomenda hans.

Höfnuðu beiðni um lífsýni

Áfram leikur auðvitað vafi á faðerni Hans Jónatans og hugsanlega gæti erfðafræðileg rannsókn skýrt málið. „Það hefur tekist að fá erfðasýni frá þremur Dönum,“ segir Gísli Pálsson. „Við höfum sýni úr ættlegg Moltke-manna og sömuleiðis Gram.“ Hinsvegar höfnuðu afkomendur Schimmelmann beiðni um lífsýni. Afkomendur sykurbarónanna vilja fara varlega gagnvart hugsanlegum bótakröfum afkomenda þrælanna. Nafn Schimmelmann-fjölskyldunnar er ekki aðeins tengt hryllingi þrælaverslunar fyrri alda heldur líka ógnarstjórn nasista í Þýskalandi og hernámsliðinu í Danmörku.

„Við höfum sem sagt þrjú erfðasýni og hugsanlega gætu þau eitthvað sagt en það eru ekkert sterkar líkur á því. En þetta er það besta sem við höfum.“

Annar leyndardómur er hvað orðið hafi um Emelíu Regínu, móður Hans Jónatans, ambátt Schimmelmann-fjölskyldunnar. Slóð hennar í Danmörku blasir ekki við fræðimönnum en finnst kannski síðar.

Enn lifir sagan um Hans Jónatan sem á fjölmarga afkomendur á Íslandi og víða um heiminn.