Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Erfðakrísa japönsku keisarafjölskyldunnar

11.11.2019 - 07:01
epa07985515 Japan's Emperor Naruhito (L) and Empress Masako (R) wave to well-wishers from their car as they parade in Tokyo, Japan, 10 November 2019. Almost 120,000 people greeted the Imperial couple along the 4.6-kilometer route. Naruhito ascended the Chrysanthemum throne on 01 May 2019 after his father, Emperor Emeritus Akihito, abdicated on 30 April 2019. He was officially proclaimed Emperor of Japan on 22 October 2019. EPA-EFE/JIJI PRESS JAPAN OUT EDITORIAL USE ONLY/ NO ARCHIVES
Keisarahjónunum Naruhito og Masako var ekið um Tókýó í gær, 10. nóvember og fjöldi mætti til að sjá þau.  Mynd: EPA-EFE - JIJI PRESS
Yfirgnæfandi meirihluti Japana vill lagabreytingar þannig að kona geti orðið keisari landsins. Samkvæmt lögum sem voru sett árið 1947 á embættið erfast í beinan karllegg. Naruhito tók fyrr á árinu við keisaraembættinu af föður sínum, Akihito. Hver það verður sem svo tekur við af Naruhito, þegar þar að kemur, er óljóst.

Naruhito keisari á eina dóttur, Aiko prinsessu, og samkvæmt lögunum, eins og þau eru núna, getur hún ekki tekið við. Bróðir Naruhito á einn son og eru því allar líkur á að hann taki við, að óbreyttu.

Keisarinn í Japan hefur engin völd. Hann er sameiningartákn þjóðarinnar og keisarafjölskyldan nýtur virðingar og vinsælda. Erfðakrísan er þó ekkert ný af nálinni. Akihito, sem lét af keisaraembættinu fyrr árinu, á þrjú börn með eiginkonu sinni, Michiko prinsessu. Þau eiga tvo syni, sá eldri er Naruhito, sem nú er keisari og sá yngri er Fumihito prins. Svo eiga þau eina dóttur, Nori prinsessu. Hún tilheyrir keisarafjölskyldunni ekki formlega lengur þar sem hún er gift.

epa00796706 Japanese Royals visits the Dutch Royals at palace Het Loo in Apeldoorn, Friday, 18 August 2006. (L-R) Queen Beatrix, Princess Masako, Prince Naruhito, Princess Aiko, Princess Alexia, Princess Amalia, Prince Willem-Alexander and Princess Maxima. EPA/Ed Oudenaarden
Aiko prinsessa er orðin 18 ára. Myndin var tekin árið 2006 þegar fjölskyldan heimsótti hollensku konungsfjölskylduna. Mynd: Ed Oudenaarden - EPA

Mikil umræða um erfðamálin upp úr aldamótum

Naruhito, nýi keisarinn og eiginkona hans, Masako, voru gefin saman 1993. Þegar hjónin eignuðust Aiko prinsessu árið 2001 hófst mikil umræða í Japan um það hvort það ætti að breyta lögunum þannig að hún geti tekið við af föður sínum. Þáverandi forsætisráðherra, Koizumi, kynnti árið 2006 frumvarp sem fól í sér að konur gætu verið í erfðaröðinni. Svo gerðist það sama ár, áður en frumvarpið var samþykkt, að Fumihito, yngri bróðir Naruhito, eignaðist son, Hisahito prins. Þá var snarlega hætt við að breyta lögunum, enda drengur fæddur og keisarafjölskyldunni borgið, í bili að minnsta kosti. 

epa03760790 Japanese Prince Fumihito Akishino (L) and Princess Kiko Akishino (C) visit Bratislava's Botanical Garden in Bratislava, Slovakia, 26 June 2013. Prince Fumihito Akishino and Princess Kiko are on a four-day visit to Slovakia. EPA/PETER HUDEC
Fumihito prins og Kiko prinsessa. Fumihito er yngri bróðir Naruhito keisara.  Mynd: EPA

Nokkrar prinsessur en aðeins einn prins

Þrír eru í erfðaröðinni í dag; Fumihito yngri bróðir keisarans, Hisahito, 13 ára sonur hans og bróðir Akihito fyrrverandi keisara, sem reyndar er kominn á níræðisaldur og því ólíklegt að hann taki nokkurn tíma við. Meðal unga fólksins í fjölskyldunni, það er þeirra sem eru þrítug eða yngri, eru núna þrjár prinsessur og einn prins. Auk þess að eiga prinsinn unga eiga Fumihito og eiginkona hans, Kiko prinsessa, tvær dætur á þrítugsaldri.

epa07939557 Japan's Emperor Naruhito makes his appearance during a ceremony to proclaim his enthronement to the world, called Sokuirei-Seiden-no-gi, at the Imperial Palace in Tokyo, Japan, 22 October 2019. EPA-EFE/ISSEI KATO / POOL
Frá krýningarathöfn Naruhito keisara í síðasta mánuði. Mynd: EPA

Mikið hefur verið um dýrðir í Japan á árinu í tilefni af því að nýr keisari tók við í byrjun maí og Reiwa tímabilið hófst. Reiwa þýðir fallegur samhljómur. Í október var Naruhito svo formlega krýndur keisari og mætti fjöldi þjóðhöfðingja til Japans á hátíðahöld af því tilefni.

Yfir 80% Japana vilja lagabreytingar

En hvernig vill almenningur í Japan leysa úr erfðakrísunni? Heimskviður slógu á þráðinn til Yuki Furukawa, sem býr í Tókýó og fylgist vel með gangi mála. Hún segir að síðan Naruhito keisari tók við og Reiwa tímabilið gekk í garð hafi umræða og krafa um lagabreytingar blossað upp á ný. „Japanski fjölmiðillinn Kyoto News birti niðurstöður könnunar í síðasta mánuði. Samkvæmt könnuninni eru yfir 80 prósent fylgjandi því að kona geti orðið keisari,“ segir Furukawa. Þetta er ekki eina könnunin sem hefur sýnt svo afgerandi niðurstöður. 

Mynd með færslu
Yuki Furukawa. Mynd: aðsend mynd

Það er tilfinning Furukawa að meirihluti kvenna og ungs fólks vilji breytingar. Hún segir að oft heyrist í umræðunni að það sé heimskulegt og gamaldags að viðhalda þessum lögum mikið lengur. Hún segir ekki vitað hvaða skoðun keisarafjölskyldan hafi á mögulegum lagabreytingum enda tjái þau sig aldrei um pólitísk málefni. 

Keisarafjölskyldan var stærri á árum áður

Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönsku við Háskóla Íslands, segir að í gegnum aldirnar hafi verið töluverður sveigjanleiki í kringum erfðamál keisarafjölskyldunnar. Fyrr á öldum hafi barnadauði verið tíður og því mikilvægt að nokkrir hafi komið til greina til að erfa keisaratignina. „Ef maður skoðar Meiji-keisarann, hann var mjög merkur og fæddist 1852. Hann átti eiginkonu og líka fimm hjákonur og eignaðist engin börn, alla vega ekki sem komust á legg, með eiginkonunni, en eignaðist samtals fimmtán börn með hjákonunum en þar af voru bara fimm börn sem komust á fullorðinsaldur og af þessum fimm var bara einn drengur,“ segir hún.

©Kristinn Ingvarsson
Kristín Ingvarsdóttir, lektor í japönsku á hugvísindasviði Háskóla Íslands. Mynd: Kristinn Ingvarsson - HÍ

Til að tryggja áframhald keisarafjölskyldunnar hafi verið nauðsynlegt að hafa sem flest afkvæmi. Þá komu ekki aðeins börn og barnabörn keisara til greina sem arftakar heldur einnig annað frændfólk. Á tíma Meiji voru það því fleiri sem komu til greina sem erfingjar keisaratignarinnar og sömuleiðis var leyfilegt að ættleiða börn innan fjölskyldunnar ef keisarinn eignaðist ekki afkvæmi.

Krafa um karlkeisara kom með nýrri stjórnarskrá 1947

Eftir lok síðari heimsstyrjaldar fengu Japanir nýja stjórnarskrá sem fól í sér miklar lagabreytingar, þar á meðal um keisarafjölskylduna. „Það er í rauninni stóra kaldhæðnin, sem sagt að á sama tíma og Japanir fá stjórnarskrá þar sem jafnrétti kynjanna er skrifað inn og konur til dæmis fá í fyrsta skipti kosningarétt, að þá fara inn í lögin um keisarafjölskylduna alveg bara svart á hvítu þessar reglur um karllegginn. Þar er mjög afdráttarlaust sett inn regla um að keisari verði að vera karlmaður og að keisaratignin erfist í beinan karllegg,“ segir Kristín.

Þetta var stuttu eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar, Japan var víða rústir einar og ótal margt þurfti að byggja upp frá grunni. Breytingarnar voru líka hugsaðar til að spara, þeim var fækkað mjög sem formlega tilheyrðu fjölskyldunni og öll umsýsla um hana var minnkuð. „En menn höfðu hreinlega ekki séð fyrir að þessi mikla takmörkun, sérstaklega með karllegginn, að hún hreinlega myndi næstum því gera út af við keisarafjölskylduna.“

Konur hafa átta sinnum verið keisaraynjur í Japan

Ef við lítum á keisaradæmið í sögulegu samhengi þá eru þessi lög síðan 1947, um að embættið skuli erfast í beinan karllegg ekki svo gömul, eða rétt um sjötíu ára. Í gegnum aldirnar hafa konur átta sinnum verið keisarar í Japan. Sú fyrsta var Suiko sem gegndi embættinu frá árinu 593 til 628. Sú síðasta var Go-Sakuramachi sem ríkti frá 1762 til 1771. 

epa07938435 Visitors walk through the Imperial Palace outer garden in Tokyo, Japan, 21 October 2019, the day before Emperor Naruhito's enthronement ceremony. Some 2,000 guests from Japan and over 180 countries are expected to attend the enthronement ceremony on 22 October 2019. EPA-EFE/FRANCK ROBICHON
Keisarahöllin er í höfuðborginni Tókýó. Mynd: EPA

„Það hefur reyndar oft verið talað um þær sem tímabundna keisara, þær hafa oft verið ekkjur, eða þá að þær kannski hafa verið mæður verðandi keisara og hafa þá í rauninni verið við völd í einhvern tíma þangað til að sonurinn yxi úr grasi. En engu að síður það eru átta dæmi um konur sem hafa orðið keisarar. Þannig að þegar í umræðunni er verið að vísa í hefðir, að þá er mjög mikilvægt að halda því til haga hvaða hefðir er verið að vísa í,“ segir Kristín. Þegar þessi bakgrunnur sé hafður í huga sé undarlegt að árið 1947 hafi komið regla um að aðeins karlar geti orðið keisarar.

Svo má heldur ekki gleyma því að keisarafjölskyldan rekur sögur sínar meir en tvö þúsund ár aftur í tímann, og er talin eiga rætur til Amaterasu, japönsku sólargyðjunnar. 

epa07939727 People gather outside to the streets to watch a live broadcast of Japanese Emperor Naruhito's enthronement ceremony in Tokyo, Japan, 22 October 2019. Emperor Naruhito, who proclaimed on the day his enthronement at the Imperial Palace in Tokyo, ascended the throne on 01 May 2019 after his father Emperor Emeritus Akihito abdicated on 30 April 2019. EPA-EFE/CHRISTOPHER JUE
Fólk fylgist með krýningarathöfn Naruhito keisara.  Mynd: EPA

Þrjár konur eru ráðherrar í Japan

Konur eru tíu prósent japanskra þingmanna en meðaltalið á heimsvísu er 24 prósent, samkvæmt Alþjóðabankanum. Hlutfallið í Japan það lægsta meðal G-20 ríkjanna. Af 19 ráðherrum í ríkisstjórn Japans eru aðeins þrjár konur. Stjórnvöld hafa lýst yfir vilja til að breyta þessu og settu sér það markmið að hlutfall kvenna á þingi, í ríkisstjórn og við stjórnun fyrirtækja verði 30 prósent á næsta ári. 

epa07834927 Newly appointed Japanese Internal Affairs and Communications Minister Sanae Takaichi speaks during a news conference at the Prime Minister's official residence in Tokyo, Japan, 11 September 2019. EPA-EFE/KIMIMASA MAYAMA
Sanae Takaichi, innanríkisráðherra Japans, er ein þriggja kvenna í ríkisstjórn landsins.  Mynd: Kimimasa Mayama - EPA

Er hægt að segja að núverandi lög um keisaraembættið endurspegli á einhvern hátt stöðu jafnréttismála í Japan? Kristín segir að það sé erfið spurning. Keisarafjölskyldan sé ekki eins og hver önnur stofnun samfélagsins. „Hún umlykur allar hefðir og á að vera í eðli sínu svolítið gamaldags og formföst,“ segir Kristín. „Ákvarðanir og umræða um keisarafjölskylduna er oft á öðrum forsendum en almenn umræða, eins og í þessu tilfelli um jafnréttismál. En það er samt óhætt að segja, og mér finnst öll umræðan hjá stjórnmálamönnum til dæmis, að hún litast að sjálfsögðu af stöðu jafnréttismála almennt í Japan.“ 

Kristín bendir á árlegan lista World Economic Forum. Ár eftir ár hafi Japanir ekki verið meðal hundrað efstu ríkja, þegar kemur að jafnrétti kynjanna. Í nýjustu skýrslunni, frá 2018, eru Japanir í 110 sæti af 149 ríkjum.

epa07530133 (FILE)A file photo dated 24 April 2014 shows Japan's Emperor Akihito and Emperss Michiko (R) wave to US President Barack Obama after the welcoming ceremony at the Imperial Palace in Tokyo, Japan. Emperor Akihito will abdicate on 30 April 2019 and Crown Prince Naruhito, first son of the Emperor and Empress will succeed Akihito and ascend the Chrysanthemum throne on 01 May 2019. It will be the first abdication by Japanese emperor in about two centuries. EPA-EFE/KIMIMASA MAYAMA/POOL
Fyrrverandi keisarahjónin Akihito og Michiko.  Mynd: EPA

Þó að keisarafjölskyldan sé stundum tekin út fyrir sviga í almennum umræðum um japanskt samfélag þá er það ekki spurning að ef kynjahlutföllin væru jafnari, til dæmis á þinginu og í ríkisstjórn, myndu jafnréttismálin horfa öðruvísi við, að sögn Kristínar. „Stærsti stjórnmálaflokkur Japans er til dæmis í augnablikinu með um 7 prósent af sínum þingmönnum sem eru konur og ég held að það sé alveg óhætt að draga þá ályktun að alla vega umræðan væri öðruvísi og væri komin lengra ef það væri jafnara kynjahlutfall hjá þeim sem að eiga umræðuna.“ 

Það eru þó ekki allir Japanir tilbúnir í breytingar, þó að yfirgnæfandi meirihluti vilji að kona geti gegnt embættinu. Hver eru rök þeirra sem vilja ekki embættið geti erfst til kvenna og hvað vilja þeir gera til að tryggja tilvist keisarafjölskyldunnar? Kristín segir að það séu ýmsar hugmyndir á sveimi, til dæmis að það eigi að stækka keisarafjölskylduna á ný og taka aftur inn það fólk sem missti prinsa og prinsessutitla árið 1947 þegar ákveðið var að fækka þeim sem opinberlega tilheyra fjölskyldunni. Þá hefur þeirri hugmynd verið velt upp að keisarar eigi hjákonur til að fjölga börnunum í fjölskyldunni. „En mér heyrist nú af viðbrögðunum að það sé mjög ólíklegt að slíkar tillögur fái neinn stuðning,“ segir Kristín. 

Karlar í meirihluta í valdastöðum

Það er óhætt að segja að Japan sé framarlega á mörgum sviðum. Við getum til dæmis nefnt tækni og almenna velmegun. En hvers vegna er staðan í jafnréttismálum almennt ekki betri en raun ber vitni? Kristín segir að við því sé ekkert einfalt svar. „Ef við horfum á samtímann og stöðuna eins og hún er núna, eins og við höfum séð hér á Íslandi, þá verða stóru stökkin þegar bæði kynin taka þátt í jafnréttisbaráttunni og sjá gildi jafnréttis. Til dæmis þegar Vigdís Finnbogadóttir var kosin forseti, þá voru það ekki bara konur sem kusu hana. Það er mjög mikið unnið þegar bæði karlar og konur sjá gildi þess að það gildi jafnrétti í samfélaginu og sjái lógíkina í því að samfélagið nýti alla krafta sína jafnt.“

Þá er kvenréttindahreyfingin í Japan ekki ýkja sterk. „Síðan ef maður horfir á öll helstu batteríin sem kannski myndu vinna að jafnréttismálum, eins og til dæmis með lögum, kynjakvótum eða öðru, þá eru þau gífurlega karllæg og hlutfallið er mjög ójafnt.“ Dæmi um þetta sé lágt hlutfall kvenna meðal þingmanna og ráðherra. Sömu sögu sé að segja innan ráðuneyta þar sem aðeins örfáar konur séu ráðnar í æðstu stöður. 

epa05990682 A young Japanese woman stands at a crossing in Tokyo's Shibuya young fashion district, Japan, 24 May 2017 (issued 26 May 2017). According to media reports on 19 May 2017, the Japanese government decided to take active measures to prevent young women from being enrolled into pornographic videos against their will, by expanding police departments with specialists, in an attempt to put an end to organizations and individuals who engage in sexual exploitation for pornography, and urging stronger support for the victims. EPA/FRANCK ROBICHON
 Mynd: Franck Robichon - EPA

„Ef maður horfir á núverandi þingheim þar sem um 90 prósent eru vel rosknir karlmenn þá er bara þetta ekki hópur sem er neitt sérstaklega líklegur til að beita sér fyrir jafnréttismálum. Þetta er bæði blanda af því að það hefur ekki komið nein nógu öflug kvenréttindabarátta og í þessum helstu stofnunum, sem eru í stöðu til að breyta málum, þar eru hlutföllin svo svakalega ójöfn að þau eru bara frekar ólíkleg til að taka upp eða gera nokkuð drastískt varðandi jafnréttismál.“

Þingið ræðir málið á næstunni

Ríkisstjórnin vildi ekki byrja á umræðu um lagabreytingu á meðan keisaraskiptin stóðu yfir en það tímabil hefur verið frá maí og núna fram í nóvember. Það gæti því farið að draga til tíðinda í þessum mánuði. „Þetta er ekki bara spurning um að leysa erfðakrísuna, það verður mjög forvitnilegt að fylgjast með því í hvaða farveg umræðan fer og hvaða lausn verður tekin,“ segir Kristín.

epa04082767 Japan's National Diet buildng (C) is seen as snow still cover the moat surrounding the Imperial Palace in Tokyo, Japan, 17 February 2014. Media reports said that parts of Japan were brought almost to a standstill early 17 February by heavy snow that fell over the weekend, causing up to 16 deaths and more than 1,000 injured. Some towns in Tokyo, Miyagi, Shizuoka and Nagano prefectures were cut off by snow and local officials asked the military for help. EPA/FRANCK ROBICHON
Þinghúsið í Japan.  Mynd: Franck Robichon - EPA

Málið verður að öllum líkindum rætt á japanska þinginu í þessum mánuði og því gæti verið einhverra tíðinda að vænta á næstu vikum. Því er ekkert annað að gera en fylgjast áfram með þróun keisaramála og sjá hvort það náist fallegur samhljómur um framtíð keisarafjölskyldunnar og jafnvel framfaraskref í jafnréttismálum.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir