Ugla Stefanía hefur verið mikið á milli tannanna á fólki og áttar sig á því að hún er orðin þekkt á Íslandi fyrir að tala máli trans fólks og femínista. Sem þekkt manneskja lendir hún gjarnan í áreiti frá fólki sem spyr hana nærgöngulla spurninga á ótrúlegustu stöðum. Hún segir það þó alveg viðbúið. „Ég hef svolítið tekið að mér þetta hlutverk en það eru alveg staður og stund fyrir persónulegar spurningar til dæmis. Í partýi klukkan tvö á laugardagsmorgni eða þegar ég er í Bónus að kaupa mér grænmeti eru til dæmis ekki alveg rétti tíminn.“ Hún segir þó stutt í húmorinn hjá sér þegar fólk verður ágengt við hana á óviðeigandi tímum. Fólk spyr hana til dæmis hvernig gangi í ferlinu og hvort kynleiðréttingu sé formlega lokið. „Ég segi bara já einmitt, þú vilt vita hvernig kynfæri ég er með?“ segir Ugla og hlær. „Ég hef samt sjálf ekkert að fela og er alveg opinská um þetta, hef til dæmis verið það í fjölmiðlum. Það er þó ekki alltaf viðeigandi að spyrja svona, sérstaklega ef fólk er ekki að bjóða upp á það.“
Staðalímyndir valda skömm
Umræðan um trans málefni hefur verið eldfim á köflum. Nýlega birtist til dæmis afar umdeild skopteikning eftir Helga Sigurðsson sem teiknaði upp fordómafulla staðalímynd af trans fólki. Ugla Stefanía tjáði sig um myndbirtinguna og viðruðu ýmsir skoðanir sínar á málinu í kjölfarið, bæði myndinni og viðbrögðum Uglu. Hún segir mikilvægt að bregðast við því þegar gert er grín að hinsegin fólki á þennan hátt því það geti haft skaðleg áhrif á sjálfsmynd þeirra, sérstaklega óharnarðra. „Mikið af trans fólki glímir við skömm sem þau þurfa að yfirstíga og skömmin er innbyggð og komið fyrir í gegnum fjölmiðla, kvikmyndir og dægurmenningu.“ Yngri upplifði hún sjálf skömmina þegar sá hún atriði í vinsælli gamanmynd sem gerði grín að trans fólki á særandi hátt. „Í Ace Ventura verður aðalkarakterinn ástfanginn af konu og kemst svo að því að hún er trans kona. Í myndinni eyðir hann fimm mínútum í að tannbursta sig með klór, fer í sturtu og ælir. Þetta er mjög algengt stef og ef þú sérð þessa birtingarmynd á viðbrögðum fólks við því að þú sért trans þá ýtir það þér meira inn í skápinn.“
Var það hennar val að vera svona áberandi í samfélaginu? „Ekki upprunalega,“ svarar hún hugsi. „Þegar ég kem fyrst út úr skápnum bý ég norður í landi, er í framhaldsskóla bara 18 ára og fer í viðtal fyrir tímarit hinsegin daga. Eftir það fer boltinn sjálfur að rúlla.“ Í kjölfarið keppast fjölmiðlar að hafa samband við hana, hún er fengin í viðtöl og byrjar að átta sig á því hvað umræðan er þörf í samfélaginu enda mikil fáfræði um málefnið á þessum tíma. Áður en Ugla veit af er hún komin í stjórn Trans Íslands og byrjuð að vinna með Samtökunum '78.
Fjölmiðlar fóru illa með Völu Grand
Þegar hún var að stíga sín fyrstu skref út úr skápnum voru fyrirmyndirnar af skornum skammti. „Anna Kristjáns var sú eina sem hafði komið fram en hún var auðvitað af eldri kynslóðinni, foreldrar mínir þekktu hana en ég ekki beint. Svo er reyndar Vala Grand komin aðeins fram á sjónarsviðið líka,“ rifjar Ugla upp. „Við erum rosalega ólíkar en góðar vinkonur. Vala Grand var notuð af fjölmiðlum í fjölmiðlasirkús, það var gert mikið grín að henni og hún dró sig í hlé því fjölmiðlar fóru illa með hana. En hún er samt alveg frábær, og alltaf rosa hress,“ bætir hún kímin við.