„Er þetta strákur með brjóst?“

Mynd: Ugla Stefanía Jónsdóttir / Ugla Stefanía Jónsdóttir

„Er þetta strákur með brjóst?“

16.08.2019 - 09:50

Höfundar

Ugla Stefanía Jónsdóttir formaður Trans Íslands, aðgerðasinni og kvikmyndagerðarkona var 18 ára þegar hún kom út úr skápnum sem trans manneskja fyrir foreldrum sínum í 10 blaðsíðna bréfi sem þau lásu nokkuð gáttuð á meðan þau mjólkuðu beljurnar.

Ugla Stefanía hefur verið mikið á milli tannanna á fólki og áttar sig á því að hún er orðin þekkt á Íslandi fyrir að tala máli trans fólks og femínista. Sem þekkt manneskja lendir hún gjarnan í áreiti frá fólki sem spyr hana nærgöngulla spurninga á ótrúlegustu stöðum. Hún segir það þó alveg viðbúið. „Ég hef svolítið tekið að mér þetta hlutverk en það eru alveg staður og stund fyrir persónulegar spurningar til dæmis. Í partýi klukkan tvö á laugardagsmorgni eða þegar ég er í Bónus að kaupa mér grænmeti eru til dæmis ekki alveg rétti tíminn.“ Hún segir þó stutt í húmorinn hjá sér þegar fólk verður ágengt við hana á óviðeigandi tímum. Fólk spyr hana til dæmis hvernig gangi í ferlinu og hvort kynleiðréttingu sé formlega lokið. „Ég segi bara já einmitt, þú vilt vita hvernig kynfæri ég er með?“ segir Ugla og hlær. „Ég hef samt sjálf ekkert að fela og er alveg opinská um þetta, hef til dæmis verið það í fjölmiðlum. Það er þó ekki alltaf viðeigandi að spyrja svona, sérstaklega ef fólk er ekki að bjóða upp á það.“

Staðalímyndir valda skömm

Umræðan um trans málefni hefur verið eldfim á köflum. Nýlega birtist til dæmis afar umdeild skopteikning eftir Helga Sigurðsson sem teiknaði upp fordómafulla staðalímynd af trans fólki. Ugla Stefanía tjáði sig um myndbirtinguna og viðruðu ýmsir skoðanir sínar á málinu í kjölfarið, bæði myndinni og viðbrögðum Uglu. Hún segir mikilvægt að bregðast við því þegar gert er grín að hinsegin fólki á þennan hátt því það geti haft skaðleg áhrif á sjálfsmynd þeirra, sérstaklega óharnarðra. „Mikið af trans fólki glímir við skömm sem þau þurfa að yfirstíga og skömmin er innbyggð og komið fyrir í gegnum fjölmiðla, kvikmyndir og dægurmenningu.“ Yngri upplifði hún sjálf skömmina þegar sá hún atriði í vinsælli gamanmynd sem gerði grín að trans fólki á særandi hátt. „Í Ace Ventura verður aðalkarakterinn ástfanginn af konu og kemst svo að því að hún er trans kona. Í myndinni eyðir hann fimm mínútum í að tannbursta sig með klór, fer í sturtu og ælir. Þetta er mjög algengt stef og ef þú sérð þessa birtingarmynd á viðbrögðum fólks við því að þú sért trans þá ýtir það þér meira inn í skápinn.“

Var það hennar val að vera svona áberandi í samfélaginu? „Ekki upprunalega,“ svarar hún hugsi. „Þegar ég kem fyrst út úr skápnum bý ég norður í landi, er í framhaldsskóla bara 18 ára og fer í viðtal fyrir tímarit hinsegin daga. Eftir það fer boltinn sjálfur að rúlla.“ Í kjölfarið keppast fjölmiðlar að hafa samband við hana, hún er fengin í viðtöl og byrjar að átta sig á því hvað umræðan er þörf í samfélaginu enda mikil fáfræði um málefnið á þessum tíma. Áður en Ugla veit af er hún komin í stjórn Trans Íslands og byrjuð að vinna með Samtökunum '78. 

Fjölmiðlar fóru illa með Völu Grand

Þegar hún var að stíga sín fyrstu skref út úr skápnum voru fyrirmyndirnar af skornum skammti. „Anna Kristjáns var sú eina sem hafði komið fram en hún var auðvitað af eldri kynslóðinni, foreldrar mínir þekktu hana en ég ekki beint. Svo er reyndar Vala Grand komin aðeins fram á sjónarsviðið líka,“ rifjar Ugla upp. „Við erum rosalega ólíkar en góðar vinkonur. Vala Grand var notuð af fjölmiðlum í fjölmiðlasirkús, það var gert mikið grín að henni og hún dró sig í hlé því fjölmiðlar fóru illa með hana. En hún er samt alveg frábær, og alltaf rosa hress,“ bætir hún kímin við.

Foreldrarnir þurftu aðlögunartíma

En hvernig er fyrir 18 ára trans konu í því umhverfi sem hún var í að segja til dæmis foreldrum sínum fréttirnar? „Sá fundur var áhugaverður,“ svarar Ugla og brosir. „Foreldrar mínir eiga kúabú og kindabú úti á landi. Ég flutti að heiman til að fara í framhaldsskóla þegar ég var 16 ára svo ég bjó ekki heima þegar ég kom út. Ég gerði þetta í jólafríinu sem er að vissu leyti góð tímasetning, enginn getur farið neitt svo við verðum bara að eiga þetta samtal,“ hlær hún. 

Á þessum tíma hafði Ugla kynnt sér reynslu trans fólks úti í heimi og hvernig þau hefðu sjálf tæklað þessar aðstæður. Þar fékk hún þá hugmynd að skrifa foreldrum sínum bréf sem var hátt í 10 blaðsíðna leiðbeiningabæklingur með algengum spurningum, svörum og öðrum fróðleik. „Ég skrifaði svipað bréf og önnur manneskja hafði gert og prentaði það út í tölvu mömmu. Ég sagði við hana lestu þetta bréf og láttu pabba lesa það líka, farið svo út að mjólka beljurnar og hugsið um þetta.“ Foreldrarnir gerðu eins og fyrirmælin sögðu og pabbi þegar búið er að mjólka beljurnar spurði pabbi hennar hvað hún ætlaði að gera þegar hún færi í sund. „Þetta er mjög lýsandi fyrir íslenska menningu, við erum alltaf í sundi og svona umræða er einmitt mikið í gangi núna,“ segir hún og vísar í skopteikninguna umdeildu. „Ég sagði honum bara að ég hefði aðeins annað að pæla í þessa dagana en sundferðum svo það mætti bíða í bili.“

Foreldrar Uglu tóku fregnunum ágætlega en þurftu smá aðlögunarskeið. Ugla rifjar upp að það hafi tekið foreldra hennar tíma að nota rétt fornöfn og stundum hafi hún tekið það óstinnt upp þegar þau rugluðust. „Ég á sjálf bara bræður og það var gjarnan enn þá talað um okkur bara sem strákana til dæmis. Þegar ég kom út þá vissi ég nefnilega alveg að þetta sem ég var að gera væri rétt en ef þau notuðu ekki rétt nafn lét ég stundum eins og ég heyrði ekki í þeim.“ Þegar Ugla horfir til baka í dag segist hún ekki hafa gefið foreldrum sínum nægilegt rými strax en í dag eigi hún frábært samband við foreldra sína. „Þau gætu ekki verið betri með þetta.“

„Þetta er Ugla dóttir mín“

Ugla segir að fyrir sér hafi það markað ákveðin vatnaskil í þessu ferli með foreldrum hennar þegar faðir hennar, sem er formaður Landbúnaðarþings, bauð henni á Opnunarhátíð þingsins. „Pabbi er ekta sveitakall,“ segir hún. „Fyrir mér var þetta stórt skref, tímapunkturinn þar sem ég áttaði mig á að hann væri búinn að samþykkja þetta. Hann kynnti mig fyrir fólki og sagði þetta er hún Ugla dóttir mín. Það var rosalega gaman.“

Hún býr í Brighton með maka sínum, Fox Fisher, en þau kynntust á ráðstefnu á Ítalíu. „Í lok ráðstefnunnar missti ég óvart af fluginu mínu og makinn minn býður mér að kome með til Brighton með þeim rökum að það væri svo auðvelt að fljúga heim frá Gatwick. Ég endaði svo á að eyða þar viku og þangað er ég bara flutt.“

Mynd með færslu
 Mynd: Ugla Stefanía Jónsdóttir
Ugla og makinn hennar Fox eru bæði aktívistar

„Má ég þá skilgreina mig fíl?“

Aktívismann skildi Ugla þó ekki eftir á Íslandi en hún og Fox, sem einnig er trans aktívisti, hafa verið iðin við kolann þar úti að vekja athygli á málefnum trans fólks, til dæmis með kvikmyndagerð og heimildarþætti á netinu. Hún segir umræðuna mun styttra á veg komna í Bretlandi en á Íslandi og að hún hafi þurft að standa af sér mikla storma þar. Í Bretlandi voru þau Fox til dæmis boðuð í viðtal í frægum spjallþætti, Good morning Britain, og dónaleg og ónærgætin framkoma þáttastjórnenda gekk fram af parinu og mörgum áhorfendum líka. „Pierce Morgan er náttúrulega uppáhalds sjónvarpsmaðurinn minn,“ grínast Ugla. „Umræðan var um kynsegin málefni, það er að segja þeirra sem skilgreina sig hvorki 100% karl né konu heldur á rófinu. Þau voru að reyna að gera okkur reið, sögðu hluti eins og ef fólk má skilgreina sig eins og það vill hlýt ég að geta skilgreint mig sem fíl,“ segir Ugla. „Mér finnst hann reyndar best geymdur í dýragarði en það er önnur umræða,“ bætir hún við og hlær.

Sigmundur Davíð upphefur fjandsamlega umræðu

Parið hafði ákveðið fyrir þáttinn að halda ró sinni í viðtalinu sama hvað því ljóst var að það var verið að reyna að reita þau til reiði. „Það er samt móment þar sem ég næ í vatnsglasið mitt en það sást að ég var að bugast á að reyna að missa mig ekki. Þetta vakti athygli vegna þess að við létum hann ekki æsa okkur upp, þá fattaði fólk hvað hann var mikill auli og fáviti. Við fengum því góðar viðtökur og fólk stóð með okkur.“ Ugla segir að þótt réttindabaráttan þokist í rétta átt þá geti verið stutt í bakslag og því mikilvægt að sofna ekki á verðinum. „Stjórnaröfl í Bandaríkjunum og Brasilíu og Boris Johnson sem er allt í einu orðinn forsætisráðherra Bretlands hafa áhrif á minnihlutahópa og jafnréttisbaráttu. Lagasetningar eftir lagasetningar skerða réttindi fólks sem gerir sig ekki grein fyrir því hvert við erum að stefna.“

Þótt umræðan sé komin á annan stað á Íslandi séu samt til hópar sem taka skaðlega orðræðu upp á sína arma og það sé áhyggjuefni. „Í kjölfarið á lagasetningunni um kynrænt sjálfræði tók Miðflokkurinn upp umræðu sem mér fannst erfitt að heyra. Sigmundur Davíð vitnaði meðal annars í umræðuna í Bretlandi og lagði til að við tækjum hana okkur til fyrirmyndar og værum gagnrýnin um þessi mál. Umræðan í Bretlandi hefur hinsvegar verið vægast sagt ógeðsleg og mér finnst það mikið áhyggjuefni að fólk í Miðflokknum sé að horfa til svona umræðu sem er fjandsamleg, fordómafull og uppfull af misvísandi upplýsingum. Þau hafa sömuleiðis verið að draga í efa hamfarahlýnun og alls konar erfið vandamál sem við sem heimur stöndum frammi fyrir og ég held að við þurfum öll að vera vakandi fyrir þessu.“

Vinkonan áreitt af fordómafullum ungmennum

Hún rifjar upp að hafa verið á göngu með vinkonu sinni nýverið þegar þær voru stoppaðar af hópi unglingsstúlkna sem hóf að áreita vinkonu hennar. „Þau bentu á hana og spurðu: Er þetta bara strákur með brjóst eða strákur með sítt hár? Mér hefði aldrei dottið í hug að fólk segði svona fyrir framan manneskjuna,“ segir Ugla og bætir við að vinkonu hennar hafi liðið mjög illa eftir atvikið. 

En verður hún aldrei þreytt á aktívismanum?  „Jú það koma stundir þar sem ég hugsa, jæja nú hætti ég þessu og fer út í garðyrkju,“ segir hún hugsi og hlær svo. „Ég bara brenn svo mikið fyrir þessu að ég kemst ekki úr því.“

Sigurlaug Margrét Jónasdóttir ræddi við Uglu Stefaníu í Segðu mér á Rás 1 og má hlýða á allt viðtalið í spilaranum efst í fréttinni.

Tengdar fréttir

Íslenskt mál

Hvað merkir að vera hinsegin?

Bókmenntir

Talin íkveikjuhætta af ölvuðu hinsegin fólki

Tónlist

„Enn og aftur takk Ed Sheeran“

Leiklist

„Þú þarft að eigna þér sviðið mitt“