Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Er þetta Lagarfljótsormurinn?

02.02.2012 - 17:41
Mynd: RÚV / RÚV
Myndir náðust í dag af torkennilegri veru á sundi í Jökulsá í Fljótsdal. Af myndunum að dæma er engu líkara en Lagarfljótsormurinn sjálfur hafi verið þarna á ferð en áin fellur í Lagarfljót. Fyrirbærið hlykkjaðist um ána fyrir neðan bæinn Hrafnkelsstaði og virðist synda upp í strauminn.

Það var Hjörtur Kjerúlf sem tók myndirnar. 

Lagarfljótsormurinn er eitt kunnasta skrýmsli Íslands. Hans er fyrst getið árið 1345. Segir sagan að ormurinn hafi í fyrstu verið lítill lyngormur, sem settur var á gullhring. Þannig átti gullið að vaxa. Þegar eigandi hringsins kom að nokkru síðar sá hún sér til mikillar skelfingar að ormurinn hafði stækkað gríðarlega en hringurinn ekki. Kastaði hún þá hringnum og orminum í Lagarfljót þar sem ormurinn hélt áfram að vaxa.

Hvort myndirnar sem Hjörtur tók eru af þessu sögufræga skrýmsli skal látið áhorfendum eftir að dæma. Vantrúaðir telja hins vegar að netadræsa hafi fokið í ána og frosið föst. Svo þegar áin fór að ryðja sig hlykkjaðist „ormurinn“ um ána.