Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Er Pólland á leið út af braut lýðræðis?

27.10.2019 - 07:00
epa07603912 Leader of the Polish Law and Justice (PiS) rulling party Jaroslaw Kaczynski reacts after the announcement of the exit polls of the European elections in Warsaw, Poland, 26 May 2019. The European Parliament election is being held by member countries of the European Union from 23 to 26 May 2019.  EPA-EFE/Jakub Kaminski POLAND OUT
 Mynd: EPA-EFE - PAP
Þjóðernissinnaði hægri flokkurinn Lög og réttur vann stórsigur í þingkosningunum í Póllandi á dögunum. Flokkurinn hefur gert umtalsverðar breytingar í Póllandi frá því hann tók við völdum 2015. Það eru skiptar skoðanir um hvort þær eru af hinu góða eða hinu illa.

Pólland er á hættulegri leið út af braut lýðræðis og frelsis - segja sumir. Pólverjar eiga rétt á því að ákveða sjálfir hvernig þeir vilja haga sínu samfélagi og gera það í frjálsum lýðræðislegum kosningum - segja aðrir. Við fórum til Póllands, fylgdumst með kosningunum og ræddum við fólk.

Hinsegin fólk ógn við samfélagið

Kosningar þar í landi rata ekki alltaf í heimsfréttirnar. Þær gerðu það þó í þetta sinn, og það var ekki síst fyrir umræðuna í aðdraganda kosninganna. Réttindabarátta hinsegin fólks var allt í einu orðin eitt af helstu kosningamálunum. Ef þetta fólk fær aukin mannréttindi, eins og að fá að gifta sig til dæmis, þá er það ógn við pólsk gildi og hina hefðbundu fjölskyldu sem er hornsteinn samfélagsins - þetta er opinber afstaða Laga og réttar - flokksins sem stjórnar Póllandi. Þetta virtist samt ekkert sérstakt áhyggjuefni fyrr en í aðdraganda kosninganna til Evrópuþingsins í maí og svo þingkosninganna núna. En hvers vegna? „Stjórnarflokkurinn hætti að einblína á flóttamenn, áður voru þeir ógnin við Pólland en nú er það hinsegin fólk,“ segir Julia Maciocha, formaður Jafnréttisgöngunnar í Póllandi.

Mynd með færslu
 Mynd: Óskar Þór Nikulásson - RÚV
Julia Maciocha óttast um framtið hinsegin fólks í Póllandi.

Tveimur dögum fyrir þingkosningarnar ákvað pólska ríkissjónvarpið að sýna umdeilda mynd - á besta tíma, strax á eftir afar vinsælum fótboltaleik. Myndin ber heitið Innrás og var sögð fjalla um sannleikann á bak við réttindabaráttu hinsegin fólks og hvernig hún ógni pólsku samfélagi og pólskum gildum. Þetta er bara sama sagan, segir Julia. Ýjað að því að hinsegin fólk séu barnaníðingar sem vilji ræna börnum. Þá sé þeim skilaboðum dreift að 70 prósent hinsegin fólks sem ættleiði börn nauðgi þeim og níðist á þeim kynferðislega. Við gerð myndarinnar blönduðu fréttamenn pólska ríkissjónvarpsins sér í hóp hinsegin fólks og mynduðu fólk án þeirra vitneskju. Það er ekkert nýtt segir Julia.

Hún segir að fjölmiðlafólk á vegum ríkissjónvarpsins hafi oft myndað þau áður. En í þetta sinn hafi þau verið fámennur hópur á afmörkuðu svæði og sú sem tók þau upp hafi gert sér far um að vingast við þau og þykjast afar ánægð að fá að taka þátt í að skipuleggja jafnréttisgöngu. Þau voru mynduð í rútu á leið út á land og það myndskeið var birt en ekki rétt hljóð með. Sem sagt, samræður þeirra í rútunni fylgdu ekki með í myndinni heldur var spilaður annar hljóðbútur af fólki sem ræddi saman um hversu mikið eigi að borga þeim sem mæti í gönguna.

Tístið hér að ofan er frá öldungardeildarþingmanni Laga og réttar. Það sýnir fjölskyldu skýla sér fyrir regnboga undir regnhlíf með merki flokksins.

Leiðir kærustuna ekki á almannafæri

Julia segir fjölmörg dæmi þess að fólk verði fyrir aðkasti og jafnvel líflátshótunum fyrir það eitt að vera hinsegin. „Fólk er auðvitað kjarkaðra á samfélagsmiðlum og það er auðveldara að hóta manni lífláti þar eða segja að Hitler hafi vitað hvað skyldi gera við mína líka. Ég hef ekki enn hitt neinn sem þorir að segja þetta við mig í eigin persónu en ég bý líka í Varsjá sem veitir mér mikil forréttindi. 

Við töluðum við Juliu í almenningsgarði í Varsjá. Samtökin sem hún veitir formennsku eiga ekki skrifstofu og hún starfar sem háskólakennari en má ekki á ekki bjóða fréttamönnum á vinnustaðinn eða tengja hann á neinn hátt við aktívismann. En það skiptir líka miklu máli hvar í Póllandi þú ert. Við vorum í höfuðborginni og þar er fólk frjáslyndara, en Julia sagðist samt ekki leiða kærustuna sína úti á götu því það væri lýjandi að þurfa í hvert einasta skipti að fá augngotur og jafnvel verða fyrir aðskasti.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Julia í jafnréttisgöngu í Póllandi í sumar.

Aðskast verður að ofbeldi

Julia segir ekkert nýtt að hinsegin fólk hafi það slæmt í Póllandi - þvert á móti hafi það alltaf verið svo - en hún segir að frá því að Lög og réttur tók við völdum hafi helsta breytingin verið sú að fólk leyfir sér meira að bara hreinlega ráðast á þau. Sem fyrr segir er hún formaður jafnréttisgöngunnar, sem er ígildi gleðigöngunnar. Hún ferðast þess vegna um landið og skipuleggur og tekur þátt í göngum. Og þau sem styðja réttindabaráttu hinsegin fólks eru ekki þau einu sem mæta. Oft mætir einnig fjöldi fólks til þess að mótmæla hinsegin fólki. Þá er ókvæðisorðum hreytt að þeim og jafnvel kyrjað í kór að þau séu barnaníðingar.

Það er vel hægt að lifa við þetta segir Julia. En ekki líkamlegt ofbeldi. Iðulega þurfa brynvarðir lögreglumenn að mynda eins konar skjöld í kringum jafnréttisgönguna til þess að tryggja öryggi þeirra sem þora að taka þátt. Julia lýsir því hvernig hún í - fyrsta sinn - óttaðist um líf sitt sumar.Þau voru grýtt og logandi blysum kastað í átt að þeim.

Julia segist samt ætla að halda ótrauð áfram. Mannréttindasamtök nota gjarnan samfélagsmiðla til þess að koma skilaboðum á framfæri, enda ódýr leið til þess að ná athygli fólks. Það er þó ekki svo auðvelt í Póllandi. Instagram virkar ágætlega, en þar er aðallega ungt fólk. En svo er það Twitter. „Við förum ekki einu sinni inn á Twitter. Twitter er fullt af bottum. Þar er einnig fullt af fólki sem við höfum fengið staðfest að fái greitt frá ráðuneyti samfélagsréttlætis fyrir að hóta og kúga fólk, fyrir að dreifa falsfréttum,“ segir Júlía.

Stjórnvöld greiði fyrir áróður á Twitter

Og Julia er ekki sú eina sem fullyrti við okkur að stjórnvöld borgi fólki fyrir að vera með áróður á samfélagsmiðlum. Renata Kim, blaðamaður hjá Newsweek sagði frá því að þegar kennarar í Póllandi fóru í verkfall í vor, eftir að kjaraviðræður við stjórnvöld fóru út um þúfur, þá hafi notendur á Twitter birt sorgarsögur um litlar frænkur og frændur sem höfðu áhyggjur af skólagöngu sinni. Og það var gífurlegur fjöldi Twitter-notenda sem hafði áhyggjur af skólagöngu ættmenna sinna. Hún vildi sem sagt meina að stjórnvöld væru á bak við þetta og sagði að fyrir því væru sannanir. Og svo sagði vara dómsmálaráðherrann af sér í ágúst eftir að það komst upp herferð gegn dómurum í Póllandi sem eru andvígir breytingum sem ríkisstjórnin hefur gert á dómskerfinu - nánar að því síðar - en herferðin snérist sem sagt um það að koma óorði á þessa dómara með skipulögðum hætti.

Mynd með færslu
 Mynd: Óskar Þór Nikulásson - RÚV
Zdzislaw Krasnodebski hefur verið Evrópuþingmaður frá 2015.

Pólverjar vilji ekki „tilraunir“ með fjölskyldulífið

Þar sem það er líklegra að hitta fyrir frjálslyndara fólk í Varsjá þá voru flest þau sem við ræddum við á sömu línu, það er höfðu áhyggjur af þróun mála og var illa við stjórnarflokkinn. En við hittum Zdzislaw Krasnodebski sem situr á Evrópuþinginu fyrir hönd stjórnarflokksins Laga og réttar og spurðum hann út í stöðu hinsegin fólks. Hann sér málið allt öðrum augum. Hann segir það skýrt að samkvæmt stjórnarskrá Póllands sé hjónaband á milli karlmanns og konu. „Hér hefur lengi ríkt umburðarlyndi. Ef við berum Pólverja saman við aðrar þjóðir þá finnst mér við umburðarlynd þjóð. Hér er enginn að glápa inn um svefnherbergisglugga hjá fólki,“ segir hann.

Sem sagt, Pólverjar eru almennt umburðarlyndir gagnvart hinsegin fólki og fyrir honum er vandamálið allt annað. „Vandamálið eru þessar, ja kappsömu - og stundum árásagjörnu hreyfingar sem berjast fyrir réttindum samkynhneigðra. Þau vilja breyta okkar skilgreiningu á fjölskyldunni.“ Nokkuð sem hann segir að meirihluti Pólverja vilji ekki gera. „Svona tilraunir með fjölskyldulíf, með mannskepnuna er eitthvað sem ég held að meirihluti Pólverja kæri sig ekki um,“ segir Krasnodebski. Og það er kannski rétt, að einhverju leyti. Samkvæmt skoðanakönnunum er meirihluti Pólverja á móti samkynja hjónaböndum. En yfir helmingur þeirra er samt hlynntur því að samkynja pör öðlist rétt til þess að skrá sig í sambúð. „Þetta snýst ekki um umburðarlyndi. Þetta snýst um okkar rétt til þess að haga okkar lífi eins og við viljum. Og ég held að meirihluti Pólverja óski þess að fjölskyldan sé hefðbundin og náttúruleg, einn maður og ein kona,“ segir Krasnodebski.  

Frjálsar lýðræðislegar kosningar í skugga hatursorðræðu

Það er ljóslega ekki auðvelt verk berjast fyrir auknum mannréttindum hinsegin fólks í Póllandi. Orðræðan í aðdraganda kosninganna er einmitt eitt af helstu áhyggjuefnum ÖSE, Öryggis og Samvinnustofnun Evrópu, sem hafði eftirlit með kosningunum í Póllandi. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrum utanríkisráðherra Íslands, er forstjóri lýðræðis og mannréttindaskrifstofu ÖSE sem er staðsett í Varsjá. Niðurstaðan kosningaeftirlitsins var sú að kosningarnar sjálfar fóru vel fram en stofnunin sá samt ástæðu til þess að lýsa yfir áhyggjum af þróun mála í Póllandi.

Mynd með færslu
 Mynd: Óskar Þór Nikulásson - RÚV
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrum utanríkisráðherra og forstjóri hjá ÖSE.

„Vegna þess að við sjáum teikn hér um það að það er aukin, ég kalla það bara þjóðremba, í umræðunni. Og það er alið á andúð í garð samkynhneigðra. Og það er áhyggjuefni vegna þess að, sérstaklega ef við erum að tala um hatursorðræðu þá getur hún auðveldlega leitt til hatursglæpa. Og það er skylda stjórnmálamanna að hamla gegn því,“ segir Ingibjörg Sólrún.

Og andúð í garð hinsegin fólks er ekki eina áhyggjuefni ÖSE. „Við sáum það hér að hinir opinberu fjölmiðlar voru hlutdrægir í aðdraganda kosninganna. Þeir drógu taum stjórnarflokksins,“ segir hún.  Í skýrslu ÖSE um kosningarnar segir að ríkisfjölmiðlar hafi ítrekað sýnt hlutdrægni með því að nota orð eins og lákúrulegur, óhæfur og lygari um stjórnmálamenn úr röðum stjórnarandstæðinga. En er tilefni til þess að hafa sérstakar áhyggjur af þróun mála í Póllandi? „Það eru ákveðin teikn á lofti. Það eru ákveðin áhyggjuefni. Og það er ekki bara í Póllandi, það er nokkuð áberandi hér í ýmsum löndum að stjórnvöld, ríkisstjórnir eru að reyna að seilast til aukinna áhrifa inn í dómskerfinu. Það er kannski það sem við höfum mestar áhyggjur af.“

epa07917751 Leader of the Polish Law and Justice (PiS) rulling party Jaroslaw Kaczynski (C) talks with journalists after casting his vote during the parliamentary elections in Warsaw, Poland, 13 October 2019. An average of eleven candidates are running for each Sejm (lower house) seat in the national elections. In total, 5,114 people are running for 460 seats. Two hundred and seventy-eight people are running for the Senate (upper house), three candidatures for each seat. Five electoral committees were registered in all 41 constituencies, namely, the ruling Law and Justice (PiS) party, Poland's main opposition bloc the Civic Coalition (KO), the Polish People's Party (PSL) with the Kukiz'15 party, the Confederation Freedom and Independence and the Left (Lewica) bloc comprising liberal and left-wing parties the Democratic Left Alliance (SLD), Spring and Together.  EPA-EFE/Tomasz Gzell POLAND OUT
 Mynd: EPA images - EPA
Jaroslaw Kaczynski leiðtogi Laga og réttar.

Umdeildar breytingar á dómskerfinu

Vel á minnst. Dómskerfið. Ríkisstjórn Laga og réttar hefur gert margvíslegar breytingar á því. Einar þeirra eru breytingar á hámarksaldri hæstaréttardómara. Hann var lækkaður úr 70 árum í 65. Þar með hrökklaðist um þriðjungur dómara úr embætti og ríkisstjórnin gat skipað nýja í þeirra stað. Evrópusambandið, sem Pólland er aðili að, tók vægast sagt ekki vel í þetta. ESB vísaði málinu til Evrópudómstólsins sem svo fyrirskipaði ríkisstjórninni að fresta lögunum og endurráða dómarana.

En það er ekki öll sagan. Michal Wenzel, prófessor í félagsfræði við SWPS háskólann í Varsjá, segir að það hafi ekki farið jafn hátt um stærstu breytingarnar. „Breytingarnar á dóskerfinu eru margvíslegar. Sú mikilvægasta er að strax eftir að hafa tekið við völdum þá setti flokkurinn embætti ríkissaksóknara beint undir dómsmálaráðherra,“ segir Wenzel.  Sem sagt. Dómsmálaráðherrann er orðinn ríkissaksóknari. Það þýðir að hann ræður yfir öðrum saksóknurum og getur í raun ákveðið að höfða mál gegn hverjum sem er, segir Wenzel. Hann bendir einnig á að lögum um hleranir var breytt þanig að ekki þarf lengur sérstaka heimild frá dómstólum til þess að hlera samskipti fólks.

Mynd með færslu
 Mynd: Óskar Þór Nikulásson - RÚV
Michal Wenzel er prófessor í félagsfræði við SWPS í Varsjá.

Wenzel segir að dómarar séu enn sjálfstæðir og því geti þeir ákveðið að sleppa fólki - en oft er skaðinn skeður. Lög og réttur, sem hefur hreinan meirihluta í neðri deild þingsins hefur heitið því halda áfram að breyta dómskerfinu sama hvað tautar og raular.

Rekin frá ríkisútvarpinu eftir stjórnarskipti

Já hvernig fóru þessar kosningar? Áður en við lítum á það skulum við fara til Varsjár á kjördag. Við erum stödd á notalegu kaffihúsi í úthverfi borgarinnar. Þarna býr vel mennntað, ungt og frjálslynt fólk sem hefur tilhneygingu til þess að vera á móti stjórnarflokknum. Við hittum tvær konur, Renötu Kim blaðamann hjá pólska Newsweek og Ewu Rogala, hún er talskona borgarstjórans í Varsjá - og hann er úr flokki stjórnarandstæðinga. En hún starfaði áður hjá ríkisútvarpinu í Póllandi. Hún var rekinn rétt eftir að Lög og réttur tók við völdum, ásamt tvö hundruð öðrum sem störfuðu við ríkisfjölmiðlinn í Varsjá. Bara sí svona, segir Ewa af því að flokknum þótti þau ekki rétta fólkið í störfin. Það var gert í kjölfarið á lagabreytingum sem gerðu það að verkum að fjármálaráðherrann gat ráðið og rekið stjórnendur ríkisfjölmiðla beint. Svona eins og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra Íslands gæti valið stjórnendur hér á RÚV án þess að spyrja kóng né prest.

Mynd með færslu
 Mynd: Óskar Þór Nikulásson - RÚV
Ewa Rogala til vinstri og Renata Kim til hægri.

Það leynir sér ekki að Ewa og Renata eru báðar að vonast eftir breytingum með þessum kosningum. Renata segir að andstæðingar stjórnarinnar séu ítrekað kallaðir illum nöfnum, þjófar, kommúnistar og svikarar. Henni líst ekki á blikuna þegar Pólverjar eru farnir að kalla aðra Pólverja slíkum nöfnum. Hvernig er samfélagið þá eiginlega orðið? Spyr hún. Það er augljóst að samfélagið er klofið. Með eða á móti stjórnarflokknum. Stjórnmálin, fjölmiðlaumfjöllun og nánast öll umræða er orðin verulega pólariseruð. Renata er til dæmis ein þeirra sem stjórnarflokkurinn hefur sett út af sakramentinu sem blaðamann. Útgefendur pólska Newsweek eru nefnilega erlend fyrirtæki, nokkuð sem hugnast Lögum og rétti afar illa. Flokkurinn reyndi að setja lög sem banna erlendum aðilum að eiga fjölmiðla í Póllandi en þurfti að hverfa frá því vegna þess að Pólland er jú í Evrópusambandinu og þarf að lúta reglum þess.

Popúlistar sem standa við loforð

Allavega, þær stöllur eru ekki hrifnar af Lögum og rétti en flokkurinn er langvinsælasti flokkurinn í Póllandi. Hvers vegna er það? Þetta eru popúlistar sem hafa einföld svör við erfiðum spurningum. Og lofa kjósendum öllu fögru segja þær. Já það er mikið til í því. En flokkurinn hefur líka staðið við mikið af því sem hann hefur lofað. Fyrir kosningarnar 2015 lofaði hann barnabótum, 500 zloty á mánuði með hverju barni eftir fyrsta barn. Hann stóð við það og það munar um minna fyrir barnafjölskyldur. Fólk finnur raunverulegan mun á buddunni, og það telur. Efnahagurinn í Póllandi hefur sjaldan verið betri, hann hefur vaxið hratt upp á síðkastið og Lög og réttur hefur nýtt hagvöxtinn. En það sem fer upp kemur yfirleitt aftur niður, svo það er spurning hvað gerist þá.

Mynd með færslu
 Mynd: Óskar Þór Nikulásson - RÚV
Ewa kýs og Renata festir það á filmu.

Vinkonurnar sem voru svo glaðar á kjördag voru ekki jafn glaðar þegar niðurstöðurnar voru kynntar. Veistu ég hef það eiginlega bara mjög slæmt, sagði Renata í símtali og vildi ekki ræða málið frekar. En í höfuðstöðum Laga og réttar var leiðtogi flokksins sigurreifur.

Óþarfi að hafa áhyggjur af Pólverjum

Við höfum fengið skýrt umboð til þess halda áfram þeim góðu breytingum sem við höfum þegar gert í Póllandi. Sagði Jaroslaw Kaczynski. Og hann hafði ríkt tilefni til þess að vera kátur. Flokkurinn vann stórsigur, bætti við sig töluverðu fylgi og heldur hreinum meirihluta í neðri deild þingins. Hann tapaði reyndar meirihlutanum sem hann hafði í efri deildinni, en það stendur mjög tæpt og flokkurinn hefur víst gert athugasemdir við niðurstöður í nokkrum kjördæmum. En engu að síður, ríkisstjórn landsins er í höndum Laga og réttar, og það er forsetaembættið líka.

epa07918927 Leader of the Polish Law and Justice (PiS) rulling party Jaroslaw Kaczynski (R) and Polish Prime Minister Mateusz Morawiecki (L) reacts during Law and Justice party parliamentary elections night in Warsaw, Poland, 13 October 2019. An average of eleven candidates are running for each Sejm (lower house) seat in the national elections. In total, 5,114 people are running for 460 seats. Two hundred and seventy-eight people are running for the Senate (upper house), three candidatures for each seat. Five electoral committees were registered in all 41 constituencies, namely, the ruling Law and Justice (PiS) party, Poland's main opposition bloc the Civic Coalition (KO), the Polish People's Party (PSL) with the Kukiz'15 party, the Confederation Freedom and Independence and the Left (Lewica) bloc comprising liberal and left-wing parties the Democratic Left Alliance (SLD), Spring and Together.  EPA-EFE/Radek Pietruszka POLAND OUT
 Mynd: EPA images - EPA
Forsætisráðherrann (til vinstri) og leiðtoginn fagna sigri í kosningunum.

Krasnodebski, Evrópuþingmaður flokksins muniði, hann vildi koma á framfæri ákveðnum skilaboðum. „Ég held að það sé mikilvægt að leggja áherslu á það, að þetta eru frjálsar lýðræðislegar kosningar. Og ef niðurstaðan er sú að við fáum enn og aftur umboð til þess að stjórna þessu landi, þá vinsamlegast - og þetta er beiðni til vestrænna fjölmiðla - ekki fara aftur með sömu rulluna um að við séum ekki lögmæt stjórnvöld. Honum var einmitt tíðrætt um mikilvægi þess að virða niðurstöður lýðræðislegra kosninga. „Það er algjör óþarfi að hafa áhyggjur af frelsi Pólverja því þeir geta séð um sig sjálfi.“

Er lýðræði bara kosningar?

Gott og vel. Flokkurinn sigraði í frjálsum, lýðræðislegum kosningum. Er það þá ekki bara óþarfi að hafa áhyggjur af þróun mála, líkt og svo margir Pólverjar og aðrir virðast hafa. Er nóg fyrir ríki að efna til kosninga til þess að kalla sig lýðræðisleg? Hvað segir Ingibjörg Sólrún hjá ÖSE um það. „Það er reyndar svona nokkuð útbreitt, ég vil ekki segja misskilningur vegna þess að það er kannski hyggindi sem í hag koma einhverjum valdhöfum að túlka það þannig. Að lýðræði séu kosninga og þau hafi verið lýðræðislega kjörin og þar af leiðandi geti þau bara ráðið. Þetta hugarfar "The winner takes it all" - ég ræð. Og það er auðvitað ekki lýðræði nema að forminu til.“

Lýðræði snýst sem sagt um miklu meira en bara kosningar. „Lýðræði er miklu djúpstæðara en svo og endurspeglast auðvitað í öllum gildum og umræðu og verklagi og skipulagi samfélagsins,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.  

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV