Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Er dauði al-Baghdadi svanasöngur ISIS?

02.11.2019 - 07:00
In this photo released on May 4, 2015, by a militant website, which has been verified and is consistent with other AP reporting, Islamic State militants pass by a convoy in Tel Abyad town, northeast Syria. In contrast to the failures of the Iraqi army, in
Liðsmenn Íslamska ríkisins. Mynd: AP - Militant Website
Leiðtogi hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Íslamskt ríki, eða ISIS, Abu Bakr al-Baghdadi, lést í síðustu viku þegar bandarískir sérsveitarmenn réðust inn á heimili hans í norðurhluta Sýrlands. Samtökin réðu á tíma yfir nær þriðjungi Íraks, en eru ekki svipur hjá sjón í dag miðað við það sem áður var. Langur vegur er þó frá því að samtökin leggi upp laupanna.

„For God and country“

Á vordögum 2011 réðust bandarískir sérsveitarmenn inn á heimili Osama bin Laden, stofnanda hryðjuverkasamtakanna Al-Kaída og óvin Bandaríkjanna númer eitt, og tóku hann af lífi. Skilaboðum um vel heppnaða aðgerð sérsveitarliðanna var komið áleiðis til höfuðstöðva bandaríska hersins í nágrannaríkinu Afganistan. Staðfestingunni á dauða bin Ladens er komið til skila með sérstaklega amerískum hætti.

Geronimo! For God an Country! Geronimo!

Lausleg þýðing á þessu myndmáli er einfaldega: Osama bin Laden er dauður. Bandaríkin eru söm við sig. Svona var þessari atburðarás lýst í kvikmynd Kathryn Bigalow frá 2012, Zero Dark Thirty. Þessi frásögn er nokkuð nærri lagi, svona fór þetta víst fram. Bandarískir sérsveitarmenn ruddust inn á heimili bin Ladens, tóku hann og fjölskyldu hans af lífi, sögðu „Geronimo, for God and Country,“ flugu burt og vörpuðu líkinu í sjó.

Bara sisvona.

Mynd með færslu
 Mynd: EPA
Osama bin Laden var leiðtogi al-Kaída og skipulagði meðal annars árásirnar á tvíburaturnanna í New York þann 11. september 2001.

Aðförin að al-Baghdadi

Þessi saga er alls ekki einsdæmi. Í síðustu viku fór svipuð aðgerð fram, þegar sérsveitarmenn bandaríska hersins, réðust að leiðtoga annarra hryðjuverkasamtaka á heimili hans í norðvesturhluta Sýrlands.

Samtök þessi hafa verið kölluð ýmsum nöfnum, Íslamska ríkið, Daesh, samtökin sem kenna sig víð Íslamskt ríki, ISIL og hvaðeina. Hér eftir verða þau kölluð ISIS til hægðarauka, skammstöfunin sem var upphaflega notuð í fjölmiðlum þegar samtökin fóru að láta að sér kveða fyrir nokkrum árum. Og leiðtoginn, hinn fallni, er Abu Bakr al-Baghdadi - maðurinn sem ber höfuðábyrgð bæði á uppgangi og ógnarstjórn ISIS í Írak og Sýrlandi síðustu ár, og öldu hryðjuverkaárása í hinum vestræna heimi - meðal annars í París og Brussel þar sem yfir hundrað manns létu lífið.

Of fyrst hann er horfinn út hafsauga eins og kollegi hans Bin Laden, er þá hægt að vona að allur vindur sé úr ÍSIS, og mannskæðar hryðjuverkaársir og ógnarstjórn heyri sögunni til? Nei, það er líklega ekki svo - enda er sagan gjörn á það að enduraka sig.  

epa04973404 (FILE) An undated file image of a frame from video released by the Islamic State (IS) purportedly shows the caliph of the self-proclaimed Islamic State, Abu Bakr al-Baghdadi, giving a speech in an unknown location. Iraqi military on 11 October
Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi Íslamska ríkisins. Mynd: EPA - EPA FILE/ISLAMIC STATE
al-Baghdadi ávarpar fylgismenn sína í mosku í Írak 2014. Þetta var eini skiptið sem al-Baghdadi kom fram opinberlega.

Hver var al-Baghdadi?

Áður en við höldum lengra er vert að spyrja: hvað er ISIS og hver var þessi maður, Abu Bakr Al-Baghdadi, maðurinn sem bandarísk stjórnvöld töldu hryðjuverkamanninn með stóru H-i, eftirlýstasti maður allra eftirlýstra manna - „America's most wanted“?

Á blaðamannafundi þar sem Donald Trump, foresti Bandaríkjanna, tilkynnti um dauða al-Baghdadi, sagði forsetinn einfaldlega: „Abu Bakr al-Baghdadi er dauður. Hann var stofnandi og leiðtogi ISIS, miskunnarlausustu hryðjuverkasamtaka heims.“ Trump hitti þarna naglann á höfuðið, að minnsta kosti að einhverju leyti. Múslimaklerkurinn Abu Bakr Al-Baghdadi var leiðtogi ISIS, og hafði verið það í nokkurn tíma. Samtök sem upphaflega urðu til að nafninu til rétt fyrir síðustu aldamót, en fór að bera á í kjölfar innrásar Bandaríkjanna í Írak 2003.

Donald Trump greinir frá dauða al-Baghdadi.

„Maður heyrir fyrst af forvera þessara samtaka í kringum 2003 og 2004, strax í kjölfar innrásar Bandaríkjanna í Írak. Þá voru það samtökin Al-Kaída í Írak, sem var stýrt af jórdönskum manni, Zarqawi,“ segir Gunnar Hrafn Jónsson, sem starfaði um árabil sem fréttamaður í erlendu deildinni á fréttastofu RÚV. Ein af sérgreinum Gunnars Hrafns voru Miðausturlönd, og vökti ÍSIS sérstakan áhuga hjá honum. Svo mikinn að hann komst upp á kant við liðsmenn samtakanna. Meira um það síðar. Gunnar er hér að tala um Abu Musab al-Zarqawi, sem stjórnaði Al-Kaída um hríð. 

„Zarqawi var mikill hrotti og stóð fyrir sérstaklega miklum árásum á shía múslima og aðra trúarhópa og á ýmsum trúarhátíðum. Blóðugustu árásirnar í borgarastyrjöldinni sem voru gerðar í Írak í kjölfar innrásarinnar, voru gerðar af þessum samtökum. Tugir á og jafnvel á annað hurndrað manna sem létu lífið í bílasprengjuárásum. Þau samtök mynduðu síðan grunninn að því sem að seinna var kallað Íslamska ríkið, eða ISIS,“ segir Gunnar Hrafn.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Gunnar Hrafn Jónsson í viðtali í Kastljósi fyrir nokkrum árum.

Vanheilagt bandalag í Camp Bucca

Það var þó ekki fyrr en Bandaríkjaher handtók stóran hóp af fólki, ýmsum andstæðingum Bandaríkjanna í Írak, og kom fyrir í fangabúðum sem eru nefndar voru Camp Bucca og voru starfræktar í suðausturhluta Íraks allt til ársins 2009 - sem ÍSIS fór að taka á sig mynd. Í Camp Bucca komu saman til að mynda margir af fyrrverandi hermönnum Saddams Husseins, Al-Kaída liðar og aðrir herskáir Íslamistar.

„Þar bundust þeir vanheilögu bandalagi í raun og veru, þar er það sem að þessi maður sem var veginn um daginn, al-Baghdadi, kemur fyrst inn í þessa mynd og kynnist þessu fólki og byrjar að sameina fólk úr ólíkum áttum, sem að seinna varð kjarninn að ÍSIS,“ segir Gunnar. Al-Baghdadi var sem sagt í Camp Bucca fangabúðuum, en fyrir þann tíma hafði hann verið klerkur í mosku í Bagdad, þar sem lítið fór fyrir honum.

 Ýmsum sögum fer af því hvers vegna Bandaríkjaher ákvað að senda hann í fangabúðirnar, en ljóst er að Baghdadi hafði nokkuð róttækar skoðanir sem samræmdust ekki hugmyndum Bandaríkjamanna um hvers lags menn ættu að ganga lausir í Írak. Al-Baghdadi, sem áður hét Ibrahim al-Samarrai og fæddist þann 28. júlí 1971, var nefnilega vel kunngur þeirri harðlínutúlkun á Kóraninum sem stundum er kölluð Wahhabismi,og á rætur sínar að rekja til Sádi-Arabíu. Þessi hugmyndafræði gengur út á íhaldssama hreintrúarstefnu og er enn í dag sú opinbera hugmyndafræði og túlkun á kóraninum sem kennd er í Sádi-Arabíu, einu ríkasta og valdamesta ríkis Arabaheimsins. Sumir ganga svo langt að ekki sé hægt að skilja ÍSIS, án þess að skilja Wahhabisma.

„Wahhabismi og salafismi er þessi eitraða útgáfa af Íslam sem verður til í Sádí-Arabíu á 19. öld, seinni tíma fyrirbæri. Sem snýst um að útrýma öllum sem eru ekki sammála þeim. Þessi wahhabismi er grunnurinn að þessu jíhadisma í íslömskum hryðjuverkum einsog við þekkjum, og þessir tveir pólar sameinast þarna í þessum samtökum,“ segir Gunnar Hrafn. Í Camp Bucca hittir al-Baghdadi fyrir sína líka, menn sem aðhyllast sömu hugmyndafræði, en búa einnig yfir veigamikilli þekkingu á hernaði. Til einföldunar má segja að ÍSIS hafi upphaflega verið nokkurs konar undirdeild Al-Kaída í Írak, deild sem Al-Baghdadi tekur forystu fyrir í maí 2010. 

In this undated image taken from video posted online by Communications Arm of Islamic State, circulating online Sunday Jan. 3, 2016, purporting to show a member of the Islamic State group brandishing a gun and talking to camera,  before Islamic State
 Mynd: AP - Communications Arm of Islamic St
Skjáskot úr hrottafengnu myndbandi ISIS sem sýnir frá aftöku fimm breskra manna, sem ISIS grunaði um njósnir.

Átök í Sýrlandi og uppgangur ISIS

„Al-Baghdadi þótti frekar ólíklegur leiðtogi en upp úr 2008 þegar súnnítarnir fóru að sameinast á ný eftir borgarastríðið í Írak þá kemur hann fram sem leiðtogi einnar margra fylkinga Íslamista á þessum tíma og klýfur sig í raun og veru frá samtökunum, og fer sína eigin leið. En það er síðan um 2011 sem þáttaskil verða,“ segir Gunnar.

Þáttaskilin sem Gunnar talar um eru auðvitað títtnefnd borgarastyrjöld í Sýrlandi, stríð sem enn stendur yfir og fjallað hefur verið um ítarlega í Heimskviðum. Átökin teygðu þá anga sína alla leið yfir íröksku landamærin. Og þá, skapaðist dauðafæri fyrir ÍSIS að láta til sín taka. 

„Þá er opið land í Sýrlandi því stjórnarherinn var mjög veikur fyrir á þessum tíma. ISIS gat valsað inn og tekið fullt af hergöngum sem þeir fóru aftur með inn í Írak. Þar gátu þeir unnið ennþá meiri sigra gegn hinum veika stjórnarher með þessum þungu vopnum, og með aðstoð fyrrverandi hermanna Saddams sem þeir kynntust í Camp Bucca,“ segir Gunnar Hrafn.

„Þar komu þeir að góðum notum og gátu brúkað þessa skriðdreka og langdrægu vopn. Það snýr þessu algjörlega við að þeir séu með þessi landamæri opin á milli þessara tveggja landa og samtökin verða til í núverandi mynd 2011 og 12 á landamærunum, þegar þeir byrja að sölsa undir sig landsvæði og mynda vísinn að þessu kalífadæmi sem þeir lýsa síðan yfir 2014“

Sagnfræðingurinn Hugh Kennedy útskýrir hugtakið kalífat eða kalífadæmi.

Eitt íslamskt ríki og heimsyfirráð

Orðið kalífadæmi hljómar kannski eins og eitthvað úr Þúsund og einni nótt. En það er það sem ÍSIS var. Í júni árið 2014 lýsti al-Baghdadi því yfir að samtökin væru nú kalífat, eða kalífadæmi, sem merkir í raun íslamskt ríki, stjórnað af einum kalífa sem er álitinn bæði pólitískur og trúarlegur arftaki Múhameðs spámanns. Og al-Baghdadi gerði gott betur en það, hann bætti um betur og lýsti því yfir að ÍSIS væri kalífat sem næði yfir gjörvalla heimsbyggðina, eitt íslamskt ríki - sem hann veitti forystu.

„Það gerir hann þegar hann kemur í fyrsta og síðasta sinn fram opinberlega, í mosku í íröksku borginni Mósúl, tveggja milljóna manna borg sem þeir réðu yfir. Þarna lýsir hann yfir kalífadæminu og fólk sér hann í fyrsta sinn,“ segir Gunnar, en al-Baghdadi átti aldrei aftur eftir að koma fram opinberlega.

Al-Baghadi ávarpar fylgismenn sína í mosku í Mósul og lýsir yfir kalífadæminu.

Hápunktur ÍSIS og fall Mósúl

Og þarna var uppgangur ISIS, rétt að hefjast, þessara samtaka, eða þessa kalífadæmis, ríkis eða hvað þið viljið kalla það - sem á hápunkti sínum réð yfir gríðarstóru landsvæði frá vesturhluta Íraks yfir í austurhluta Sýrlands, þar sem á bilinu átta til tólf milljónir - ég endurtek - átta til tólf milljónir manna, voru á þeirra valdi. Og lífið á þessu svæði undir stjórn ÍSIS og al-Baghdadis, var töluvert ólíkt því sem áður var. Þeir sem ekki hlýddu skipunum voru hýddir opinberlega, fjölmargir karlmenn látnir vinna þrælkunarvinnu og konur sendar í kynlífsánauð. Þá voru opinberar aftökur daglegt brauð. En hvernig gerðist þetta?

Gunnar Hrafn nefndi áðan að hagur ÍSIS vænkaðist þegar samtökin komust yfir landamærin til Sýrlands og náðu að vígbúast. Í kjölfarið, við komuna til Íraks, tókst þeim einnig að hrekja írakska herinn á brott af stórum svæðum. Stærsti sigur ISIS vannst í borginni Mósúl, einni stærstu borg Íraks, dagana fjórða til tíunda júní 2014.

„Í Mósúl fór stærsti bardaginn fram. Stór sandstormur hafði gengið yfir borgina og liðsmenn ISIS byrja að senda sms skilaboð á íröksku hermennina. Þeir segja að þeir séu að koma í sandinum og ætli að myrða þá,“ segir Gunnar. „Svo koma þeir og skjóta eldflaugum í engu skyggni. Þá leggur herinn á flótta. Þegar sandstorminum slotaði sáu menn að þetta voru bara nokkur þúsund hræður. Hermennirnir bara flúðu, og skyldu eftir vopn og margar milljónir í gulli í bönkum borgarinnnar.“

epa05229728 People gather and pay tribute to the many people killed and injured in multiple terrorist attacks accross Brussels on 22 March, at Place de la Bourse,  in Brussels, Belgium, 24 March 2016. At least 31 people were killed with hundreds injured
 Mynd: EPA
Yfir þrjátíu saklausir borgarar létu lífið í árásunum í Brussel. Enn fleiri létust í París nokkrum mánuðum áður.

Áhrif ISIS út um allan heim

Í kjölfarið komst ÍSIS yfir olíulindir og fjársvelt ríkisstjórn Bashar al-Assads Sýrlandsforseta var meira að segja nauðbeygð til að vinna með ÍSIS liðum, og hjálpa þeim að koma olíunni í verð. Tyrkir hafa einnig verið grunaðir um að hafa haft milligöngu um olíuviðskipti ISIS

En hugmyndafræði ÍSIS var ekki aðeins sterk í Írak og Sýrlandi, heldur náði út um heim allan. Fjölmargir vígamanna samtakanna komu ekki frá Miðausturlöndum, heldur vestrænum ríkjum eins og Belgíu, Frakklandi, Bretlandi - og meira að segja Ástralíu. Menn sem voru tilbúnir að berjast, og deyja fyrir málstað kalífadæmisins. Þá eru einnig ófá hryðjuverkin utan Miðausturlanda sem ÍSIS bar ábyrgð á, meðal annars árásirnar á næturklúbbi í París í nóvember 2015 þar sem 131 saklaus borgari lét lífið, og þann 22. mars í Brussel, þar sem þrjátíu og tveir saklausir borgarar létust í árásum á Zaventeem flugvelli og á lestarstöð í borginni. Hvernig í ósköpunum náðu samtökin svo mikilli útbreiðslu?

„Þetta er sá vinkill sem vakti áhuga minn á samtökunum til að byrja með. Þau koma fram sem áróðursafl og voru ekki bara að reyna að ná landsvæði í Sýrlandi, heldur var þetta alþjóðleg hreyfing. ISIS vildi ekki aðeins fá vígamenn til aðstoðar í Sýrlandi, heldur einnig til að fremja árásir á erlendri grundu og tugir landa sem talið er að ísis menn hafi með bienum eða óbeinum hætti staðið að hryðjuverkum.“

Gunnar segir ISIS liða hafa stuðst við hugmyndir úr hugbúnaðargeiranum, svokallaaðan opin hugbúnað eða „open-source,“ hugmynd sem gengur út a að sem flestir geti komið upplýsingum áleiðis á gagnvirkan hátt.

„Þetta er svona Open Source Jihad. Þeir dreifa bæklingum út um allt á netinu og áróðri með nákvæmum leiðbeinignum og skotmörk jafnvel sem eru þeim hugnanleg og svo segja þeir bara þeim að fara að gera þetta sjálft og í sínu nafni.“

Mynd með færslu
 Mynd: Reuters
ISIS-liðar nýttu sér samfélagsmiðla á borð við Twiter.

Nýtt vín á gömlum belgjum. Eða var það öfugt?

ISIS var með öðrum orðum mjög nútímalegt í aðferðum sínum, allavega þegar kom að áróðursherferðum. Þeir notuðu samfélagsmiðla og nýjustu tækni, og gáfu meðal annars út app!

Gunnar segir að þessi aðferð að nota Internetið og skuggahliðar þess, hafi dregið úr möguleikum leyniþjónustu til að hafa upp á fylgjendum ISIS - því bein samskipti áttu sér sjaldnast stað milli ISIS liða og tilvonandi meðlima. Sem dæmi má nefna að sami maðurinn stjórnaði áróðursmiðlum ISIS, og skipulagði árásir þeirra á erlendri grundu.

En rétt eins og ÍSIS beitti nútímalegum aðferðum í áróðursherferðum sínum, er hugmyndafræði samtakanna nokkuð nútímaleg - að minnsta kosti í heimssögulegum skilningi - og á fátt skilt við það Íslam sem þróaðist á árunum eftir dauða Múhameðs spámanns á sjöundu öld. Sem fyrr segir byggði al-Baghdadi sína túlkun á Kóraninum nokkuð á Wahhabisma, sem á rætur sínar að rekja til kennimannsins Muhammad ibn Abd al-Wahhab sem var uppi á átjándu öld í Sádi-Arabíu, hann boðaði íhaldssamar og ósveigjanlegar túlkanir á Kóraninum sem festust í sessi í Sádi-Arabíu þegar al-Wahhab myndaði bandalag með Muhammed ibn Saud fursta. 

Þetta er því nokkurs konar bókstafstrú. Það kann víst aldrei góðri lukku að stýra að lesa trúartexta bókstaflega og líta þannig framhjá hinum raunverulega boðskap, sem getur jú verið góður og fagur. Það gildir um flest trúarbrögð, og til fróðleiks má nefna að bókstafstrú innan kristninnar vaknar sömuleiðis um svipað leyti í Bandaríkjunum. En það er önnur saga.

Einn maður er þó álitinn öðrum fremri þegar kemur að útbreiðslu þessarar stefnu, sem stundum er einnig kölluð salafismi, hugmynd sem byggir á kenningum al-Wahhabs. Það er hinn egypski Sayyid Qutb, fæddur 1906 en fór til náms í Bandaríkjunum á fjórða áratugnum:

„Þar sér hann konur og karla drekka saman áfengi opinberlega á börum og sér konur með bera fótleggi og telur að hann sé að sjá þarna yfirvofandi fall siðmenningar. Hann fer heim til Egyptalands og skrifar mikinn texta um það að múslimar verði að vera síðastir til að standa gegn þessu yfirvofandi falli siðmenningar, sem sé um allan heim að grafa um sig í nafni veraldarhyggju. Hann segir að ef múslimar standi ekki vörð um eigin hag muni fara eins fyrir þeim og eins og fyrir öllum öðrum,“ segir Gunnar.  

Mynd með færslu
 Mynd: Wikipedia
Sayyid Qutb.

Nútímaleg hugmyndafræði, sem hafnar nútímanum

Og það er þessi hugmyndafræði sem flestir herskáir Íslamistar tengja við, hugmyndafræði sem er komin langt frá Kóraninum, og þeim opinberunum sem eru skrásettar á sjöundu öld - í allt öðru samfélagi og í allt annari heimsmynd en fyrirfinnst í nútíma fjölmenningarsamfélagi.

„Þetta er nútíma hugmyndafræði, viðbrögð við nútímanum. Þetta eru viðbrögð við veraldarhyggju og sekúlarisma tuttugustu og tuttugustu og fyrstu aldarinnar,“ segir Gunnar Hrafn, bætir því við að líkindi séu með þessari  hugmyndafræði og hinum svokölluðu alt-right hreyfingum í Bandaríkjunum.

„Þetta er bara ýkt þjóðernishyggja og machóismi. Þetta er karllæg íhaldssemi sem snýst um að fórna þeim breytingum á því samfélagsmynstri sem eru að verða allt í kringum okkur. Þeir fordæma samkynhneigð, líta á hana sem óskilega, fórna kvenréttindum og öllu sem hefur áunnist þar og í raun og veru bara gleyma þessu verkefni sem að nútíminn er. Og þetta er alþjóðleg hreyfing sem á sér birtingarmyndir bæði á spjallrásum á netinu unga vestrænna drengja og hjá sprengjuglöðum brjálæðingum hinum megin á hnettinum.“

En hinn bóginn verður einnig að taka til greina, að það eru ekki endilega allir sem fremja voðaverk í nafni Íslamska ríkisins eitthvað sérstaklega trúheitir. Margir þeirra ungu drengja sem stóðu að hryðjuverkunum í Brussel og París höfðu setið inni, notað fíkniefni og hvaðeina. En þeir upplifa sig á jaðrinum og því er hér tvenns konar hugmyndafræði sem togast á; annars vegar hugmyndafræði herskárrar trúarhreyfingar og hins vegar persónulegar ástæður hvers og eins.

„Ég held að það sé alveg rétt að mikið af þessum ungu drengjum sem að eru yfirleitt lokkaðir út í þetta, þetta eru menn sem hafa einhvernveginn orðið á milli í samfélaginu, eiginlega alltaf einhleypir og eiginlega alltaf verið í einhverjum vandræðum með sína sjálfsmynd,“  segir Gunnar.

„Það er saga sem við þekkjum þúsundir ára aftur í tíma, að þegar maður tekur saman mörg þúsund unga reiða einhleypa karlmenn er hægt að hleypa þeim upp í allskonar vitleysu, og eiginlega öll mestu ofbeldisverk sögunnar hafa verið framin af ungum mönnum sem hafa verið herkvaddir með einum eða öðrum hætti,“  segir Gunnar Hrafn.

epa05029216 A framegrab made from an undated video released by the jihadist group calling itself Islamic State (IS) allegedly showing Abdelhamid Abaaoud posing with a Koran and the ISIS flag at an undisclosed location. According to French officials,
Abdelhamid Abaaoud, sem talinn er hafa verið höfuðpaurinn á bak við árásirnar í París. Mynd: EPA - YOUTUBE
Abdelhamid Abaaoud var einn helsti hvatamaðurinn að baki hryðjuverkaárásunum í París. Hann var fæddur og uppalinn í Frakklandi, líkt og margir liðsmanna ISIS.

Hnignun ISIS og framtíð samtakanna

En Adam var ekki lengi í Paradís, og þótt ISIS hafi ekki formlega lagt upp laupana eru samtökin ekki svipur hjá sjón miðað við hvernig þau voru fyrir nokkrum árum. Frá því um mitt ár 2014 höfðu bandaríski herinn og bandamenn þeirra barist gegn vígamönnum samtakanna sem tók sinn toll. Árið 2017 misstu samtökin borgina Mósul í hendur írakska hersins og í kjölfarið misstu þau Raqqa, höfuðvígi sitt í Sýrlandi til hersveita sýrlenskra uppreisnamanna. Í nóvember 2017 greindi bandaríski herinn frá því að yfirráðasvæði ISIS væri komið niður í tvö prósent af því sem það hafði verið þegar það var sem stærst.

Stóra tilkynningin kom svo í desember sama ár, þegar Haider al-Abadi forsetisráðherra Íraks tilkynnti að írakskar hersveitir hefðu hrakið síðustu vígamenn ISIS úr landinu, þremur árum eftir að samtökin höfðu vald á rúmlega þrjátíu prósentum af svæði landsins. Síðan þá, hefur lítið farið fyrir samtökunum. Starfsemi þeirra er því gjörbreytt, en þeir eru þarna enn þá. Einhvers staðar. Til að mynda á netinu, þótt byssuhvellirnir séu ekki eins háværir.

„Þetta er pínu aumt að sjá eins og er, en maður veit að hugmyndafræðin er til staðar og eins og ég sagði áðan þá þarftu ekkert tengslanet, þú þarft ekki að hafa bein tengsl við mennina sem fremja árásirnar. Það gæti verið tíu til  tuttugu manna hópur úti í heimi að skipuleggja ISIS áras án þess að þekkja neinn sem tengist ISIS með beinum hætti. Þeir hafa bara lesið fréttabréfið, halað niður sprengjuuppskrifum og valið sér eitthvað skotmark sem ISIS bendir á.“

Komst í bein samskipti við ISIS-liða

Eins og greint var frá í upphafi, þá kom áhugi Gunnars Hrafns á ISIS honum í vandræði, en hann hefur það á ferilsskránni að hafa verið hótað af ISIS-liðum eftir fréttaumfjöllun sína um samtökin. Hann komst nefnilega í beint samband við meðlima samtakanna.

„Þetta var mjög áhugaverður tími, ég byrjaði mjög einfalt. Með því  að fara á Twitter og finna rásirnar þeirra, sem var yfirleitt lokað jafnóðum. Stundum gat ég sent þeim skilaboð og þá sendu þeir manni tengla á síður og lykilorð á dark web. Þar voru þeir að skipuleggja sig og það var mjög áhugavert að fylgjast með því á bakvið tjöldin,“ segir Gunnar Hrafn, sem í forvitni sinni komst á snoðir um það að ISIS ætlaði að lýsa yfir ábyrgð á árásinni í Brussel 2016, áður en það var gert opinbert. Gunnar skrifaði frétt í snarhasti á  RÚV.is og RÚV greindi því fyrst allra miðla frá því að ISIS ætlaði lýsa yfir ábyrgð á hryðjuverkunum í Brussel 2016

Þetta fór ekki vel í liðsmenn ISIS, og var Gunnari hótað fyrir vikið. En það er önnur saga. Hægt er að lesa viðtal við Gunnar í Reykjavík Grapevine um þetta forvitnilega mál hér.

epa04924446 Syrian refugees arrive at Jordan Syria border point of Al-Rugban area at the north east of Jordan, 10 September 2015. The Syrian refugees arrive from Raqqa and Deir al Zoor fleeing from ISIS fighters and the Syrian regime attacks.  EPA/JAMAL
Flóttamenn frá borginni Rakka. Myndin er úr safni. Mynd: EPA
Sýrlenskir flóttamenn á flótta frá Raqqa, höfuðvígi ISIS í Sýrlandi, í desember 2015,

Dauði al-Baghdadi

En allan þennan tíma, í gegnum sigra og ósigra ÍSIS hefur einn maður haldið velli, Abu Bakr al-Baghdadi. Eða þar til í síðustu viku, þegar hann sprengdi sig og tvö börn sín í loft upp með sprengjubelti sem hann skildi aldrei við sig - í kjallaranum á heimili sínu í norðurhluta Sýrlands, umkringdur bandarískum sérsveitarmönnum. En hvernig komst bandaríska leyniþjónustan á snoðir um dvalarstað Baghadis, mannsins sem hún hefur reynt að hafa hendur í hári á undanfarin ár?

„Það sem virðist hafa gerst, eins og með Osama bin Laden, að þá er það milligöngumaður sem er að bera bréf á milli sem að einhvernveginn uppgötvast, leyniþjónustan kemst inn í bréfasendingar og tekst að elta hann á stað sem þeir telja mjög líklegt að sé dvalarstaður þessa leiðtoga, al-Baghdadi,“ segir Gunnar Hrafn.

Af bréfunum mátti ráða að al-Baghdadi hafi verið að reyna að panta smyglara til að smygla eiginkonum bræðra sinna yfir landamærin frá Írak til Sýrlands, til móts við sig. Af þeim mátti einnig ráða að að Baghdadi hafi dvalist í þorpinu Barisha í Idlib-héraði, einu síðasta vígi herskárra íslamista á svæðinu, um sex kílómetra suður af tyrknesku landamærunum. Og Bandaríkjamenn biðu ekki boðanna þegar þetta þótti ljóst. 

„Donald Trump, í óendanlegri visku sinni, ákveður að gefa grænt ljós á það að koma honum fyrir kattarnef og þeim tekst ekki að handsama hann. Ég veit ekki hvort það stóð fyrir höfuð til. Atburðarrásin mun hafa verið þannig að hann hafi skriðið niður í jarðgöng með börnum sínum eftir skotbardaga milli lífvarða sinna og bandarískra sérsveitamanna, og þar hafi hann sprengt sprengjubelti um sig miðjan á meðan hundurinn Conan var á hælunum á honum og særðist, þessi bandaríski sérsveitahundur, í þessari aðgerð. Og er núna bandarísk þjóðhetja.“

Á blaðamannafundi þar sem Trump greindi frá aðgerðinni og dauða Baghdadis var forsetanum tíðrætt um hund sem elti leiðtogann sáluga og vann mikið þrekvirki. 

„Trump ákvað að rjúfa leynd um nafn og útlit hundsins og birti mynd af honum og bauð honum í Hvíta húsið þegar hann er búinn að ná sér af sárum sínum,“ segir Gunnar. Trump virðist þó eiga blendið samband við hunda, því einmitt nokkrum mínútum áður lýsti hann dauða al-Baghdadis að hann hafi „drepist eins og hundur, eins og heigull.“

Hver er framtíð ISIS?

En þótt al-Baghdadi sé allur, og hvernig sem hann kann að hafa borið sig á dánarbeðinu - er ekki þar með sagt að ISIS sé búið að segja sitt síðasta.

 „Þessir menn gufuðu náttúrulega ekki upp. Þeir eru ennþá til og hugmyndafræðin líka, og margir aðhyllast hana,“ segir Gunnar og þessi menn hann talar um, eru bæði í Írak og Sýrlandi. Fjölmargir þar aðhyllast enn aðhyllast hugmyndafræði ISIS. Meðal þeirra eru sveitir hermanna sem eru í bandalagi með Tyrkjum, vígamenn sem stofna ný samtök og endurskipuleggja sig eins oft og þeir skipta um sokka. 

 „Þetta eru mikið til uppgjafahermenn úr Al-Kaída og ISIS og tengdum samtökum, þetta eru endurskipulagðar sveitir sem að heita bara í staðinn fyrir her Allah, þá er það Allah herinn. Þetta er eins og Life of Brian myndinni:

Þeir skipta bara um húfur og þessir menn eru ennþá þungvopnaðir þarna úti einhversstaðar með eitthvað herlið með sér, sama hvort þeir kalla sig ÍSIS eða ekki,“ segir Gunnar Hrafn.

Það er því erfitt að spá í spilinn um hvað gerist næst. Samtökin greindu frá því í gær að arftaki al-Baghdadi, yrði maður að nafni Abu al-Quraishi. Hans bíður ærið verkefni, að rífa ÍSIS upp úr brunarústunum og rísa upp úr öskustónni. Og eins hræðilega og það kann að hljóma, þá getur vel verið að það takist einn daginn.

„Þeir ætla bara að sæta færis og bíða eftir því að óstöðugleiki myndist á ný, því það er ágætis veðmál í miðausturlöndum. Að þú þurfir ekki að bíða í mörg ár þar til verða borgaraleg læti, eða uppþot eða að herinn ælti að ræna völdum. Þá ætla þeir að ryena að vera hluti af þeirri atburðarrás.“

epa07961150 A screengrab from a handout military drone video made available by the US Defense Video and Imagery Distribution System (DVIDS) shows the compound of ISIS Leader Abu Bakr al-Baghdadi during the US forces (bottom) raid, northwestern Syria, 26 October 2019 (Issued 30 October 2019). US Forces killed Abu Bakr al-Baghdadi, the founder and leader of ISIS, in northwest Syria on 26 October 2019.  EPA-EFE/DVIDS HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - DVIDS
Drónamyndir af innrás bandarískra sérveitarmanna á heimili al-Baghdadi

Rót vandans og hringrás sögunnar

Þannig gengur sagan, hún fer í hringi og liðinn tími virðist alltaf snúa aftur - í einhverri mynd. Sagan endurtekur sig og tíminn bítur þig í bakið; efnahagshrun koma aftur, alkóhólistinn byrjar aftur að drekka, og einmana og ringlaðir karlmenn munu áfram fremja voðaverk í nafni trúar, eða einhverrar annarrar hugmyndafræði. Sama hvað þeir kalla sig. Og það er erfitt að stoppa það. 

Hvað varðar hreyfingar róttækra og herskárra íslamista eins og ÍSIS og Al-Kaída, og útbreiðslu þeirrar hugmyndafræði, segir Gunnar þó að rót vandans sé að finna þar sem sjaldnast er leitað að henni. 

„Fíllinn í stofunni er Sádí-Arabía, í þessu öllu saman. Mikið af peningunum og hugmyndafræðinni kemur frá Sádí-Arabíu, þar eru þetta vinsæl samtök. Þetta er þeirra hugmyndafræði sem gegnsýrir þessi hryðjuverk, það er þeirra hugmyndafræði sádí-arabíska, sem þeir hafa breitt út um allan heim í krafti olíuauðs. Ef þú ætlar að uppræta hryðjuverkanetið um allan heim þarftu að byrja á þeirri hugmyndafærði sem er opinber í Sádí-Arabíu og er breidd út í krafti olíuauðs,“ segir Gunnar Hrafn.

Það aftur á móti, gæti reynst þrautin þyngri. Blessunarlega eru er þó langstærstur hluti þeirra tæplega tveggja milljarða múslima friðelskandi fólk, sem trúir á miskunnsaman Guð. Þetta þarf ekki að taka fram, en ég geri það samt. En því miður, eins og sagan hefur sýnt okkur - sagan sem endurtekur sig - er það yfirleitt fámennur hópur afvegaleiddra, félagslega einangraðra og útskúfaðra manna - sem ratar á síður blaðanna, og í útvarpið.