Er Banksy líka ofurseldur markaðsöflunum?

Mynd: EPA / EPA

Er Banksy líka ofurseldur markaðsöflunum?

05.10.2019 - 13:40

Höfundar

Banksy kom aðdáendum mikið á óvart og opnaði búð nýverið. Huldulistamaðurinn vinsæli hefur nefnilega neyðst til að fara út í verslunarrekstur, vegna deilu um réttinn á nafninu hans.

Í búðarglugga í London kúrir ungbarnavagga undir óróa alsettum öryggismyndavélum. Í öðrum glugga má sjá mottu í ímynd kornflexkisans Tonys tígrisdýrs undir kunnuglegri mynd af anarkista með klút fyrir vitunum og handlegginn teygðan aftur, tilbúinn að grýta blómvendi í eitthvert órætt skotmark.

Myndin er eftirgerð af veggmynd sem kallast „Rage, Flower Thrower“ og er eftir listamanninn Banksy. Raunar er allt inni í búðargluggunum eftir Bansky og eiginlega er búðin sjálf einhvern veginn eftir Banksy.

Huldulistamaðurinn vinsæli hefur nefnilega neyðst til að fara út í verslunarrekstur, vegna deilu um réttinn á nafninu hans. „Ég opnaði búð í dag, þó dyrnar opnist ekki í alvöru. Hún er í Croydon. Það er líklega best að skoða hana á kvöldin,“ sagði listamaðurinn á Instagram-síðu sinni þar sem hann birti myndir af versluninni. Hann kallar hana Gross Domestic Product eða Verga landsframleiðslu þó einnig mætti þýða nafnið sem ógeðslegar heimilisvörur. 

„Fyrirtæki með tækifæriskort hefur véfengt einkaréttinn sem ég hef á listinni minni og er að reyna að sölsa undir sig réttinn á nafninu mínu svo það geti selt gervi Banksy-varninginn sinn löglega,“ sagði Banksy í yfirlýsingu til fjölmiðla.

„Ég held að þeir séu að veðja á að ég mæti ekki fyrir rétt til að verja mig.“ Lögfræðingurinn Mark Stephens, stofnandi samtaka hönnuða og listamanna um vörumerkjarétt, sagði the Guardian að málshöfðun fyrirtækisins væri út í hött. Hann sagði að Bansky væri í erfiðri stöðu þar sem hann framleiðir ekki eigin varning. Lögin væru skýr, ef eigandi vörumerkis væri ekki að nota það sjálfur gætu aðrir tekið sér réttinn á því. Því hafi Banksy verið ráðlagt að framleiða varning.

Banksy kveðst þó ekki hafa breytt afstöðu sinni gagnvart vörumerkjum.

„Ég hvet enn hvern sem er til að herma eftir, fá lánaða, stela eða breyta list minni til skemmtunar, akademískra rannsókna eða aktívisma. Ég vildi bara ekki að þau fengju einkaréttinn á nafninu mínu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Youtube
Ungbarnavaggan með öryggismyndavélunum

Diskókúlur og dyramottur

Í húsnæðinu sem nú hýsir Gross Domestic Product var áður teppaverslun. Búðin verður ekki höfð opin heldur aðeins með útstillingar. Hin eiginlega verslun er hýst á veraldarvefnum, á grossdomesticproduct.com. Á síðunni stendur að heimilisvöruverslun Banksy verði opnuð á næstunni. Í bakgrunni er mynd af yfirgefinni og gjörónýtri verslunarmiðstöð, sundurtættum rúllustiga á kafi í í vatni og braki.

Bansky segist ætla að selja ýmsan varning frá 10 pundum og upp úr, en í takmörkuðu magni. Hann lýsir varningnum sem ópraktískum og móðgandi. Þar á meðal verða diskókúlur úr óeirðahjálmum lögreglumanna, barnaleikföng þar sem flóttamönnum er staflað í vörubíla, eftirmyndir af skotheldu vesti skreyttu breska fánanum sem rapparinn Stormzy klæddist á Glastonbury, handtöskur úr múrsteini og dyramottur úr björgunarvestum af ströndum Fiðjarðarhafsins, handsaumaðar af konum í flóttamannabúðum í Grikklandi. 

Banksy segir að allur ágóði fari í kaup á nýjum björgunarbát í stað fleys sem mun hafa verið gert upptækt af ítölskum yfirvöldum.

Fær ekki flúið neysluhyggjuna

Annað verk Banksys, málverk af simpönsum í breska þinginu. seldist fyrir metverð á uppboði á fimmtudaginn. Verkið var málað fyrir 10 árum en var nýlega sett upp í listasafni Bristol í tilefni af fyrirhugaðri útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. 

Verkið var boðið upp í sama sal í uppboðshúsi Sothebys og verkið Girl With a Balloon, Stúlka með blöðru, var selt fyrir ári síðan á hátt í eina milljón punda.

Stúlkan var upprunalega veggjalist á Waterloo-brúnni við suðurbakka Thames í Lundúnum. Með því að setja hana í ramma, sem hægt er að hengja smekklega upp fyrir ofan sófa eða borðstofuborð, var uppreisnin í henni tamin, heimilisvædd. Hlutverki hennar sem uppreisnarseggs á almenningseign var umbreytt í hlutskipti stofustáss sem safnar því meira virði sem það hangir lengur á veggnum. 

En, um leið og myndin seldist kveikti Banksy á tætara sem hann hafði komið fyrir í ramma verksins. Með því að láta listaverkið fremja sjálfsvíg, einmitt á því augnabliki sem það seldist, gaf Banksy kapítalismanum fingurinn en bjó á sama tíma til nýtt verk sem líklega er enn verðmætara en áður. 

Banksy fær ekki, frekar en við hin, flúið neysluhyggjuna, offramleiðsluna og vöruvæðinguna. Það veit hann best sjálfur. Hann líka er ofurseldur markaðsöflunum og getur ekkert gert í því nema selt okkur ógeðslegar heimilisvörur.

Tengdar fréttir

Myndlist

Metverð fékkst fyrir simpansa-málverk Banksy

Myndlist

Banksy prakkarast á Feneyjatvíæringnum

Stjórnmál

Jón átti verk Banksys og mátti eyðileggja það

Myndlist

Banksy-verki stolið frá Bataclan