Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Er Akureyri borg?

31.08.2012 - 08:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður stjórnar Byggðastofnunar hefur sent bæjarfulltrúum á Akureyri vangaveltur um það hvort Akureyri ætti að kalla sig borg. Bærinn gegnir nú þegar hlutverki borgar hvað þjónustu varðar og gæti því allt eins kallast Akureyrarborg.

Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri og formaður stjórnar Byggðastofnunar vakti athygli á þessu við bæjarfulltrúa Akureyrar í vor,  en í tilefni af 150 ára afmæli bæjarins finnst honum ekki úr vegi að bærinn horfi inn á við og velti stöðu sinni fyrir sér. Hann bendir á að engin skilgreining sé til á Íslandi á því hvað geri borg að borg, hvort miða eigi við ákveðinn mannfjölda eða hlutverk. 

"Þannig að spurningin sem ég var að varpa til bæjarfulltrúanna er gegnir Akureyri hlutverki borgar,eigum við að taka það alvarlega, sinna umhverfi okkar á þann hátt sem við fáum peninga til frá ríkinu og ef svo er, er þá kannski á sama hátt að Reykjavík sem höfuðborg er áminning um að Reykjavík hefur skildur gagnvart öllu landinu, eigum við þá að tala um Akureyrarborg sem hafi skyldur gagnvart stóru svæði hér á Norður- og Austurlandi," segir Þóroddur.  

Geir Kristinn Aðalsteinsson, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, segir að skiptar skoðanir séu á málinu meðal bæjarbúa. Bæjarfulltrúar hafi ekki  verið rætt það formlega en það standi þó til.  "Við munum sennilega taka þett upp á  næstu dögum að fjalla um kosti þess og galla að breyta bænum í borg."