Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Epalhommi er orð ársins 2017

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels

Epalhommi er orð ársins 2017

04.01.2018 - 16:52

Höfundar

RÚV, Stofnun Árna Magnússonar og Mímir, félag stúdenta í íslensku og almennum málvísindum við Háskóla Íslands stóðu saman að því að leyfa landsmönnum að velja orð ársins í netkosningu á rúv.is. Epalhommi er orð ársins 2017.

Kosningu um orð ársins 2017 lauk í gær, miðvikudag. Hægt var að velja um tíu orð sem þykja einkennandi fyrir árið sem leið. Leyndarhyggja, þyrilsnælda, falsfrétt, uppreist, örplast, hægvarp, epalhommi, líkamsvirðing, áreitni og innviðauppbygging.  Að talningu lokinni kom í ljós að orðið epalhommi hlaut flest atkvæði.

Orð ársins 2017 var tilkynnt þegar menningarviðurkenningar RÚV voru veittar við hátíðlega athöfn í Útvarpshúsinu. Í tilkynningu er saga orðsins rakin.

„Sindri Sindrason fréttamaður á Stöð 2 ræddi við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur, formann Samtaka um líkamsvirðingu, í tengslum við grasrótarhátíðina Truflandi tilvist 6. mars 2017. Tara Margrét sagði að maður í forréttindastöðu, eins og Sindri, gæti ekki sett sig í spor fólks í jaðarhópum sem verður fyrir fordómum annarra. Sindri taldi þá upp nokkra minnihlutahópa sem hann tilheyrði. Svar Sindra vakti harkaleg viðbrögð á samfélagsmiðlum og meðal annars talaði Hildur Lilliendahl Viggósdóttir um kúgaða, hvíta, ófatlaða epalhommann og þar birtist orðið fyrst. Daginn eftir, 7. mars, birtist opnuauglýsing frá versluninni Epal í dagblöðum. Auglýsingin er einfaldlega mynd af sex þekktum hommum í verslun Epals og er hún án orða.

Hér á vel við orðtakið þeir skilja sem vilja því að með þessari orðlausu auglýsingu var merkingu orðsins epalhommi snúið við. Það var sett fram í niðrandi merkingu en snúið upp í jákvæða. Í íslenskri nútímamálsorðabók á gáttinni málið.is er epalhommi sagt merkja samkynhneigður karlmaður sem hefur áhuga á vandaðri hönnun.“

Hrútskýring var valið orð ársins 2016 en þá gafst kostur á að kjósa á milli orðana aflandsfélag, hatursorðræða, hrútskýring, hú!, kynsegin, Panamaskjöl, skattaskjól, tjákn og víkingaklapp.