
Enn von þótt lítið af loðnu hafi fundist
Fimm skip héldu til leitar frá Hvalbak austur af Djúpavogi á mánudaginn og sigldi flotinn norður með austurströnd landsins út fyrir Norðausturland. Birkir Bárðarson er leiðangursstjóri en hann er um borð í Árna Friðrikssyni, rannsóknarskipi Hafrannsóknastofnunar, sem nú er staddur á Kolbeinseyjarhrygg.
„Það hefur verið lítið að sjá af loðnu á þessu svæði sem við erum búnir með. Við höfum séð svona loðnu við getum sagt hrafl eða smá torfur á stangli en við höfum ekki enn séð merki um almennilega göngu.“
Ótímabært að örvænta
Birkir segir þó ótímabært að örvænta því á þessum árstíma sé möguleiki á að loðnan sé ekki gengin austar. Stefnan er nú sett vestur fyrir Vestfirði en veður er talið geta sett strik í reikninginn. "Veðurhorfurnar eru ekkert sérstaklega góðar en við erum bara að reyna að komast eins langt og hægt er. Það er líklegt að við verðum fyrir töfum fljótlega vegna veðurs. “
Þessari loðnuleit á að ljúka fyrir 31. janúar en Birkir sér fram á að haldið verði aftur í út febrúar til að fara betur yfir svæðið.