Enn skerðing á rafmagni til Vestmannaeyja

15.02.2020 - 09:37
Mynd með færslu
 Mynd: Mynd: Guðmundur Bergkvist
Samkvæmt upplýsingum frá Landsneti hefur ekki tekist að koma Hellulínu 1 í gagnið og frekari bilanaleit stendur yfir. Það gerir það að verkum að áfram verða takmarkaðir afhendingarmöguleikar raforku á austanverðu Suðurlandi og í Vestmannaeyjum.

Varaafl í Eyjum er af skornum skammti og því þurfti að grípa til skerðingar á afhendingu síðdegis í gær. Á fimmtudag var haft samband við öll fyrirtæki í Eyjum og þau beðin um að keyra niður alla starfsemi eins og mögulegt var meðan óveðrið stóð yfir í gær. Aðeins þá væri möguleiki að halda rafmagninu inni án þess að treysta þurfi á varaaflið. Það tókst hins vegar ekki.

Samkvæmt upplýsingum frá RARIK brotnuðu um 100 staurar í óveðrinu í gær og þegar mest var voru 5.600 heimili og vinnustaðir án rafmagns. Langflestir eru komnir með rafmagn aftur. Unnið var að viðgerðum á Suðurlandi til klukkan fimm í morgun og fór sú vinna aftur af stað um klukkan átta.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi