Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Enn skelfur í Kötluöskju

12.09.2016 - 06:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Tveir jarðskjálftar yfir tveir að stærð hafa mælst í Kötluöskju frá því um kvöldmatarleytið í gær. Sá fyrri var 2,7 að stærð rúma fjóra kílómetra norður af Hábungu og sá síðari varð laust fyrir hálf tólf á miðnætti tæpa átta kílómetra norður af Hábungu.

Sá var af stærðinni 2,2.  Í gær mældust á svæðinu tveir skjálftar yfir þrír að stærð, báðir um fjögurleytið síðdegis. Sá fyrri var þrír að stærð en sá síðari sem varð um stundarfjórðungi síðar var af stærðinni 3,3. 
Á vef Veðurstofunnar segir að smáhrina hafi byrjað í Mýrdalsjökli klukkan tvö í gær. Yfir tíu aðrir skjálftar mældust og voru þeir allir mjög grunnt og innarlega í Kötluöskjunni. Ekki er óvenjulegt að slíkar jarðskjálftahrinur eigi sér stað á þessu svæði segir í tilkynningu Veðurstofunnar.
 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV