
Rafmagnslaust er í Grýtubakkahreppi en á Raufarhöfn, Bakkafirði, Kópaskeri og Þórshöfn er rafmagn nú framleitt með varaaflsstöð eftir að miklar skemmdir urðu á Kópaskerslínu 1 í gærkvöld. Í tilkynningu á Facebooksíðu Landsnets segir að minnst 14 stæður hafi brotnað í þeirri línu og ekki verður byrjað að reyna að gera við þær fyrr en veðrinu slotar.
Vestur-Húnavatnssýsla rafmagnslaus
Þá er Hrútatungulína 1, í Hrútafirði, úr rekstri, líkast til vegna mikils snjós og seltu í tengivirkinu í Hrútatungu. Vegna þessa er Norðvesturland vestan Blönduóss án rafmagns frá meginflutningskerfinu og er Vestur-Húnavatnssýsla nánast alveg án rafmagns; ekkert er rafmagn á Hvammstanga, á Laugarbakka, í Miðfirði, Hrútafirði, Langadal, Svínadal og víðar.
Einnig er rafmagnslaust á Ströndum og hefur verið meira og minna frá því síðdegis í gær. Þá voru Vestfirðir norðaverðir lýstir með varaafli um hríð. Mannskapur er á leið í Hrútatungu frá Hvammstanga til að afísa og salthreinsa spennuvirkið.
Þá fór rafmagn af Dalvíkurbyggð, Húsavík og Kísilverinu á Bakka í gærkvöld en er komið þar á aftur.