
Serhiy Arbuzov, aðstoðarforsætisráðherra Úkraínu, fundaði í gær með embættismönnum í Brussel. Að loknum fundinum tilkynnti hann að stjórnvöld hygðust eftir allt saman undirrita samstarfssamning við Evrópusambandið. Arbuzov sagði ekki hvenær það yrði gert, einungis að það yrði á næstunni.
Stjórnarandstaðan í Úkraínu gefur lítið fyrir loforð Arbuzovs. Arsení Jatsenjúk, einn leiðtoga stjórnarandstöðunnar, segir augljóst að ekki standi til að undirrita samninginn, og ummæli Arbuzovs séu brandari og blekking.
Mótmælaaldan gegn Janúkóvitsj forseta og stjórn hans hófst fyrir þremur vikum þegar tilkynnt var að hætt hefði verið við fyrirhugaðan samstarfssamning við ESB. Mótmælendur krefjast nánari tengsla við Evrópu og fara einnig fram á að Janúkóvitsj segi af sér.
Mótmælt var fram á nótt á Sjálfstæðistorginu í Kænugarði í gær líkt og undanfarna daga. Í morgun hafa mótmælendur styrkt götuvígi sín á torginu. Boðað hefur verið til fjöldamótmæla á sunnudaginn, en þá fer Janúkóvitsj til Moskvu á fund Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. Á sama tíma ætla stuðningsmenn Janúkóvitsj að halda fjöldafund honum til stuðnings á öðru torgi í miðborginni.