Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enn margt ógert í málefnum transfólks

14.09.2019 - 17:42
Mynd: Guðmundur Bergkvist / RÚV
Starfshópar um málefni transfólks verða skipaðir á vegum forsætisráðuneytisins til þess að taka á réttarstöðu barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni. Heilbrigðisráðherra segir að þrátt fyrir réttarbót með nýjum lögum um kynrænt sjálfræði, hafi þessi hópur setið eftir.

„Þetta voru gríðarlega mikilvæg skref sem við vorum að stíga með því að samþykkja þessi nýju lög. Bæði með því að undirstrika mannréttindavinkilinn en líka til þess að innleiða ýmiss konar réttarbætur. Það er ýmislegt sem þarf að gera í framhaldinu. Það verða settir í gang starfshópar á vegum forsætisráðuneytisins sem fjalla betur um einstaka þætti og sérstaklega um hlut þeirra sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni og kalla sig intersex. Þannig að sá hópur er ennþá í vinnslu eða þjónusta við þann hóp. Þannig að þetta er ekki búið og starfshóparnir eru að fara að stað. Það lítur þá sérstaklega að því hversu langt heilbrigðisþjónustan má ganga í því þegar barn fæðist með ódæmigerð einkenni áður en barnið sjálft getur verið þátttakandi í því samtali,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

En þessir vinnuhópar verða í forsætisráðuneytinu, verða líka vinnuhópar í heilbrigðisráðuneytinu?

„Þetta er í raun og veru samstarf. Af því að þessi löggjöf var fyrst og fremst undir fyrst og fremst undir flaggi jafnréttismála var það forsætisráðherra sem bar það frumvarp fram. En eðli málsins samkvæmt þá eru þessir undirhópar sem við erum að setja á laggirnar þeir eru að hluta til á mínu forræði en snýst samt allt saman um það að koma þessari löggjöf til fullra framkvæmda,“ segir Svandís.