Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Enn loga skógareldar í Portúgal

23.07.2019 - 13:38
Mynd: EPA-EFE / Lusa
Yfir tólf hundruð slökkviliðsmenn berjast enn við skógarelda í miðhluta Portúgal. Að sögn almannavarna varð þeim nokkuð ágengt í nótt, ekki síst eftir að tók að rigna. Tekist hefur að hefta útbreiðsluna til svæða sem erfitt er að komast að.

Um það bil sjötíu þúsund hektarar hafa orðið eldunum að bráð. Þeir blossuðu upp laugardag og lengi vel fékkst ekki við neitt ráðið. Í gærmorgun lýstu almannavarnir því yfir að slökkviliðsmönnum hefði að mestu tekist að hefta útbreiðsluna. Ástandið fór úr böndunum síðdegis í gær þegar vind herti og hiti fór hátt í fjörutíu stig. Yfirvöld segja útlit fyrir að það gerist aftur síðdegis í dag.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV