Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Enn hættustig á Ísafirði og bætir í úrkomu í kvöld

14.01.2020 - 12:15
Frá Ísafirði í vondu veðri 13. jan 2019
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Hættustig vegna snjóflóða er enn á Ísafirði og óvissustig hefur verið á norðanverðum Vestfjörðum síðan á sunnudag. Iðnaðarhúsnæði á Ísafirði voru rýmd í gær og rýmingaráætlun er enn í gildi. Ekki hefur reynt á ofanflóðavarnir við byggðarlög.

Harpa Grímsdóttir, fagstjóri ofanflóðavöktunar hjá Veðurstofunni, segir að úrkoma í nótt hafi verið minni en búist var við.

„Staðan er kannski heldur skárri en búist var við. Það verður svipað veður áfram í dag og rýkur svona upp og kemur úrkoma inn á milli. en svo ætti að bæta heldur í úrkomuna í kvöld og nótt þangað til að fer að draga úr henni á morgun,“ segir Harpa.

Slotaði í tuttugu mínútur á föstudag

Íbúar eru að vonum langþreyttir á leiðindaveðri sem vart hefur slotað síðan í síðustu viku. Lísbet Harðardóttir rekur kaffihúsið Heimabyggð á Ísafirði.

„Það komu tuttugu mínútur á föstudaginn, sem ég nýtti til að fara út að hlaupa en lenti svo í stórhríð á leiðinni og þurfti einhvern veginn að fara heim. Og, já. Þetta er eiginlega bara búið að vera frekar glatað,“ segir hún.

Blasir öðruvísi við þeim sem eru ekki komnir með skráp

Hættustig snjóflóða leggst misjafnlega í fólk. Í haust eru 25 ár frá því að snjóflóð féll á Flateyri og tuttugu létust.

„Við sem erum alin upp við hættustig snjóflóða. Þetta vekur upp óþægilegar tilfinningar en þetta setur ekki allt úr skorðum þótt það sé komið hættustig. Við treystum á varnir og treystum á að þeir sem eru að vinna við snjóflóðavarnir séu með þetta á hreinu. En ég tek eftir bæði á erlendum háskólanemum sem búa hérna bara í vetur og aðkomufólki og þeim sem eru bara einhvern veginn ekki komnir með þennan skráp af því að búa hérna. Það er allt öðruvísi hvernig þetta blasir við þeim,“ segir Lísbet.

Við bendum á upplýsingar á heimasíðu Vegagerðarinnar og Veðurstofu Íslands.